Lykillinn að velgengni Morgunblaðsins

Kaupmenn í Reykjavík eignuðust Morgunblaðið fljótlega eftir stofnun þess. Blaðið varð þó ekki málpípa kaupmanna, líkt og löngu seinna að Fréttablaðið varð verkfæri eigenda sinna. Undir forystu Valtýs Stefánssonar ritstjóra varð Morgunblaðið fréttablað fyrst og fremst en í öðru lagi vettvangur dægurumræðu.

Morgunblaðið varð stórveldi áratugina eftir stríð enda þjónaði það hagsmunum lesenda sinna af trúmennsku sem vildu fréttir um atburði líðandi stundar. Forsíða blaðsins var helguð erlendum fréttum og heimssýnargluggi í þá daga þegar erlend dagblöð sáust ekki á Íslandi og fréttatímaritin orðin gömul þegar þau bárust með sjópósti.

Ritstjórnarstefna Morgunblaðsins studdi Sjálfstæðisflokkinn og vestræna samvinnu á dögum kalda stríðsins. Sumt sem tíðkaðist í pólitískum snerrum var ekki til að hrópa húrra fyrir. Í þingfréttum voru þingmenn kenndir við flokka með bókstaf innan sviga, þingmenn Sjálfstæðisflokksins með (s), Framsóknarflokksins með (f) og svo framvegis. Þingmenn Alþýðubandalagsins voru auðkenndir með (k) fyrir kommúnisti og það var ekki falleg iðja.

Útbreiðsla Morgunblaðsins var slík að ef heimili var ekki áskrifandi þá var það meira vandamál heimilisins en Morgunblaðsins. Þannig speglaði Morgunblaðið landsmálapólitíkina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var fyrsti kostur þjóðarinnar og hálfgert undantekningarástand ef flokkurinn var ekki í ríkisstjórn. Blaðið var þó aldrei þræll flokkshagsmuna heldur sjálfstæð rödd borgaralegra sjónarmiða.

Hremmingar Morgunblaðsins hófust þegar stjórnendur stærstu verslanakeðju landsins, Baugs, tóku markaðslögmálin úr sambandi sumarið 2002 með því að dreifa ókeypis í öll heimili landsins Fréttablaðinu. Í framhaldi náðu Baugsmenn tangarhaldi á meirihluta fjölmiðla landsins og notuðu dagskrárvald sitt til að herða tök auðmanna á íslensku samfélagi. Morgunblaðið átti ekkert svar við leiftursókn Baugsmanna.

Gömlu fjölskyldurnar sem átt höfðu Morgunblaðið gáfust upp fyrir nýauðvaldinu og Björgólfsfeðgar eignuðust blaðið. Rétt fyrir hrun stóð til að sameina Fréttablaðið og Morgunblaðið en því menningarslysi var afstýrt.

Eftir hrun hefur Morgunblaðið gengið í endurnýjun lífdaga. Blaðið byggir á gömlum grunni og er trútt þeim gildum sem gerðu Mogga að samferðamanni þjóðarinnar á liðinni öld. Til hamingju með hundrað árin.


mbl.is Morgunblaðið 100 ára í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Til hamingju, Mogginn. Mikla þrautsegju og djúpa vasa þarf til þess að standast þessa ósanngjörnu samkeppni sem í Fréttablaðinu felst. Því „fría“ blaði dreift til flestra, nema til fólks eins og mín sem ítrekað þarf að hafna þeirri svikamyllu.

Ívar Pálsson, 2.11.2013 kl. 13:05

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já, til hamingju Morgunblað,sem hefur fylgt manni alla tíð.

Helga Kristjánsdóttir, 2.11.2013 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband