Miðvikudagur, 30. október 2013
Brjóstvitið, aldamótakynslóðin og auðlegð Íslendinga
Ísland var fátækt land frá lokum miðalda til 1900 eða þar um bil. Aldamótakynslóðin lagi grunninn að velsæld þjóðarinnar síðustu hundrað árin. Þessi kynslóð bjó ekki að formlegri menntun, lærði helst að lesa í heimahúsum og þáði fábrotna kennslu frá farkennurum.
Aldamótakynslóðin breytti Íslandi úr landbúnaðarsamfélagi í þéttbýli og munaði ekki um að gerbylta stjórnkerfinu í leiðinni með því að taka frá Dönum stjórn íslenskra mála með heimastjórninni 1904 og fullveldinu 1918. Danir og þar áður Norðmenn höfðu frá 13. öld farið með forræði íslenskra mála.
Skyldi ætla að einni kynslóð væri ofaukið að gera allt þrennt; nútímavæða atvinnuhætti landsins, breyta sveitasamfélagi í þéttbýli við sjávarsíðuna og endurheimta fullveldi þjóðarinnar. Engu að síður er það söguleg staðreynd að ein og sama kynslóðin kom öllu þessu í verk og það á brjótsvitinu einu saman.
Horft um öxl er augljóst að allt þrennt hlaut að fara saman. Án fólksflutninga í sjávarþorpin var ekki hægt að byggja upp sjávarútveg og engin uppbygging yrði í landinu ef æðsta framkvæmdavaldið væri heimilisfast í Brussel, afsakið, Kaupmannahöfn. Jón Sigurðsson sagði hreint út um miðja 19. öldina að það yrði ,,seinþreytt um framförina" ef Íslendingar ættu að sækja ákvarðanir um smátt og stórt til meginlands Evrópu.
Aldamótakynslóðin fékk ekki vitrun af himnum ofan að ný skyldi ráðist í meira stórvirki en nokkur kynslóð Íslendinga hafði tekist á hendur frá landnámi. Hér kom til sögunnar uppsöfnuð reynsla. Frá þjóðveldisöld eru Íslendingar um 50 þúsund talsins, eða þar um bil, og ekkert fjölgað enda mettaði bændasamfélagið ekki fleiri munna.
Á fyrri hluta 19. aldar fjölgaði Íslendingum nokkuð. Bæði var að eftir mannfellirinn vegna móðuharðindanna í lok 18. aldar yngdist þjóðin upp með því að yngra fólk fékk bújörð fyrr á æviskeiðinu en áður tíðkaðist og ól af sér fleiri afkomendur. Þá var hlýindaskeið framan af 19. öld og heiðarlönd, einkum á Norð-Austurlandi, tekin undir búskap.
Upp úr miðri 19. öld kólnaði og búfjársjúkdómar hjuggu skörð í fjárstofninn. Um miðja öldina var mannfjöldin kominn yfir 60 þúsund og þar með yfir ,,náttúruleg" mörk sem landið þoldi að óbreyttu. Íslendingar létu hugfallast í móðuharðindunum í lok 18. aldar hertu upp hugann hundrað árum síðar og létu hendur standa fram úr ermum og nýttu sér umframfjölda fólks.
Árabátaútgerð var sniðin að háttum bændasamfélagins. Yfir háveturinn, þegar innivinna var stunduð í sveitinni, fóru bændasynir á sjó í verum vestanlands. Vertíðinni lauk í maí þegar grasið grænkaði og vorið kallaði á bændur og búalið til útiverka. Skútuútgerð, sem hafði svotil engin verið fyrr en á 19. öld, lengdi þann tíma sem sjórinn var sóttir. Úthald þilskipanna var frá apríl og fram á haust. Yfirtala í mannfjölda gat mannað skúturnar.
Með þilskipunum varð til sjómannastétt sem eðli málsins samkvæmt gerði sér búsetu við sjávarsíðuna. Bændasamfélagið var tregt til að aflétta takmörkunum á reglum sem bönnuðu fólki að búa án búfjár við ströndina. Afnám vistarbandsins á síðasta áratug 19. aldar var ótvíræð viðurkenning á breytingaskeiðinu sem þjóðin ákvað að nauðsynlegt væri að framkvæma.
Heimspekingurinn Michael Polnayi vakt athygli á því að brjóstvitið skipti sköpum um framþróun. Á seinni árum eru heilu samfélögin lögð undir á mælistiku brjóstvitsins, sem ólíkt bókviti, er afurð kynslóðanna og verður ekki ,,lært" með formlegu námi.
Aldamótakynslóðin á Íslandi með brjóstvitið að vopni lagði grunninn að auðlegð þjóðarinnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.