Kennarar axli ábyrgð á eymd stéttarinnar

Einu sinni voru þrír merkismenn í hverju sveitarfélagi á Íslandi: hreppstjórinn, presturinn og kennarinn. Í dag eru kennarar í hlutverki hreppsómagans, sem ríki og sveitarfélög sýna takmarkaða virðingu og umbera af illri nauðsyn.

Einhvers staðar á leiðinni frá miðri síðustu öld og til dagsins í dag breyttist staða kennarans frá því að vera virðingarstaða yfir í það að aðstoða heimilin að halda úti tveim fyrirvinnum. Þótt opinber stuðningur við fjölskyldur sé góðra gjalda verður þá er það ekki hlutverk kennara að styðja heimilisrekstur.

Upphaf endurreisnar kennarastarfsins er að treysta grundvöllinn. Kennari menntar, segir fyrsta siðaregla starfsstéttarinnar og það er einmitt meginhlutverk okkar. Til að mennta verðum við að kunna fagið okkar og að miðla. Við þurfum ekkert að gera málin flóknari: kennari menntar.

Til að starf kennarans verði metið að verðleikum þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi að kennarar sjálfir finni til þess að þeir gegni mikilvægu hlutverki. Í öðru lagi verða kennarar að vera tilbúnir að setja sveitarstjórnum og ríkisvaldinu stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að því að verðleggja kennarastarfið.

Um langa hríð hafa kennarar og samtök þeirra háð varnarbaráttu. Ýmsar þjóðfélagsbreytingar verðfelldu kennarann og starf hans. Við það eitt að gera öllum mögulegt að njóta skólagöngu frá barnæsku og tvítugs stórfjölgaði í stéttinni. Kennarinn, sem áður tilheyrði fámennri elítu, var orðinn fjöldaframleiðsla. Grunnhæfni kennarans, fagþekking og miðlun hennar, var verðfelld með því að á tímabili þótti óþarfi að kennarar lykju háskólaprófi.

Í vörninni verður hugurinn deigur. Eftir hrun fylltust framhaldsskólarnir af nemendum sem atvinnulífið hafnaði. Skólarnir og kennarar aðlöguðu sig að breyttum aðstæðum og sáu fyrir sitt leyti til þess að þúsundir ungmenna færu ekki á vergang. Þarna var dauðafæri til að sýna alþjóð hversu öflugt menntakerfi okkar er og kennarar eru hornsteinn þess. En við nýttum ekki færið heldur fórum að nöldra enda þrautþjálfuð í vælinu. Gerð voru veggspjöld með fyrirsögnum eins og „Gætum að hópastærðum“. Skilaboðin voru þau að það mætti alveg drepa okkur en ´geriði það bara hægt, - vinsamlega´.

Kennarar verða að snúa vörn í sókn. Meginþungi starfs samtaka okkar á að vera að auka virðinguna fyrir starfinu – og þar eigum við að byrja á okkur sjálfum.

Þegar kemur að samningum við þá sem verðleggja starf kennarans, sveitarfélög og ríkisvald, eigum við að snúa veikleika okkar í styrk. Án kennara verða íslensk heimili óstarfhæf. Kennarar eiga að gera viðsemjendum sínum ljóst að verkfall, þess vegna til nokkurra mánaða, sé afleiðingin ef starf kennarans verði ekki metið að verðleikum.

Birtist 15. okt. hjá KÍ, sbr.

http://ki.is/pages/22/NewsID/4674

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband