Mánudagur, 16. september 2013
Óstjórnmál
Óstjórnmál er annað tveggja að fresta ákvörðunum fram í hið óendanlega eða hitt að láta aðra taka fyrir sig ákvarðanir og láta þá líta svo út að engir valkostir væru í boði, ákvörðunin hafi verið óhjákvæmileg.
Óstjórnmál aukast jafnt og þétt að umfangi sökum þess að stjórnmálamenn hugsa fyrst og fremst að halda í völdin. Með því að fresta ákvörðunum er reynt að halda öllum góðum fram að næstu kosningum. Ef í nauðir rekur, og ákvörðun verður ekki umflúin, er allt kapp lagt á að búa þannig um hnútana að allir, bæði stjórnmálamenn og embættismenn, séu einhuga um ákvörðunina. Þar með eru valkostir útilokaðir.
Björn Bjarnason rekur dæmi um óstjórnmál í Reykjavíkurborg. Málefni Orkuveitunnar eru iðulega í farvegi óstjórnmála þar sem ákvörðunum er ítrekað frestað. Björn vekur athygli á því að enginn stjórnmálamaður stígur fram og talar eindregið fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni - þrátt fyrir að það sé vilji almennings. Borgarfulltrúar haga sér eins og skrifstofuveldi en ekki stjórnmálamenn, segir Björn.
Það er mergurinn málsins: óstjórnmál eru ólýðræðisleg. Almenningur fær ekki valkosti heldur eru málin þæfð fram í hið óendanlega og þegar loksins, loksins er komið að ákvörðun þá er hún óhjákvæmileg.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.