Flugvöllur, náttúruvernd og sannfæringin

Virkjunarsinnar tefla oft fram þeim rökum að náttúruverndarsinnar skilji ekki hagnýt sjónarmið og vilji vernda staði sem þeir heimsækir aldrei. Þessi rök voru iðulega höfð í frammi í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun.

Þeir sem vilja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni nota, sumir hverjir, sömu rök og virkjunarsinnar. Andstæðingar flugvallarins spyrja hversu oft fólk noti flugvöllinn, rétt eins og maður verði að nota flugvöllinn reglulega til að mega hafa þá skoðun að hann eigi að vera kjurr. Egill Helgason, valinkunnur andstæðingur flugvallar, lítur með velþóknun á slíkar röksemdir. 

Náttúruverndarsinnar og flugvallarvinir eru einfaldlega þeirrar sannfæringar að sumt skuli standa eins og það er - þrátt fyrir hagnýt rök og hagkvæmni. Þessi afstaða byggir á því innsæi um að óbreyttu ástandi megi breyta síðar meir ef kringumstæður breytast.

Breytingar virkjunarsinna og andstæðinga flugvallar eru á hinn bóginn óafturkræfar. Kárahnjúkavirkjun hverfur ekki og fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni kemur hann ekki þangað aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

sem ákafasti talsmaður einangrunar, klíku og andverðleika get ég ekki stillt mig um að nefna hagkvæmnisrökin sem eru alveg fáranleg rök í samfélagi sem skuldar ca meira en gott þykir. Keflvíkingar eiga alls ekki að njóta þess að vera með aðstöðu sem auðveldlega gæti rekið innanlandsflugvöll. Frekar að taka lán hjá lífeyrissjóðunum til að setja upp eitthvað Setur. kannski Tröllasetur? eða,Icesafesetur? það þarf nú aldeilis að halda minningu þess ágæta sigri í heiðri svo Kebblvíkingar hafi eitthvaðntil að státa af.

Gísli Ingvarsson, 14.9.2013 kl. 16:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þessi einföldun stenst ekki. Ég og fleira náttúruverndarfólk studdum 25 af þeim 28-30 stærri virkjunum sem reistar hafa verið hingað til og létum gott heita að hér væri framleidd tvöfalt til þrefalt meiri orka en við þurfum til eigin nota og eigin fyrirtækja.

Við andmælum rányrkjunni og gjafverði á orkunni og endalausri græðgissókninni sem stóriðjustefnan felur í sér.

Fyrirætlunin um að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur snýst um það að lengja samanlagða ferðaleið flugfarþega báðar leiðir frá og til Reykjavíkur um 170 kílómetra og yrði tvöfalt stærra skref afturábak í kílómetrum talið en það framfaraskref var að gera Hvalfjarðargöng og stytta ferðaleiðina á landi um 82 kílómetra.

Þeir sem vilja taka þetta risaskref afturábak láta eins og miðja byggðar höfuðborgarsvæðisins sé enn í Kvosinni þegar hún er í raun innst í Fossvogsdal, skammt frá stærstu krossgötum landsins.  

Ómar Ragnarsson, 14.9.2013 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband