Lögmanni RÚV-fréttamanns svarað

Hér að neðan fer bréf til lögmanns Önnu Kristínar Pálsdóttur fréttamanns á RÚV. Áður hefur verið fjallað um bréf lögmannsins hér og hér og hér.

 

Kristján Þorbergsson

Landslög

Borgartúni 26, Rvík


Seltjarnarnes, 1. sept 2013


Ég vísa í bréf þitt frá 14. ágúst sl. þar sem þú telur vegið að skjólstæðingi þínum, Önnu Kristínu Pálsdóttur fréttamanni á RÚV, með færslu á bloggsíðunni Tilfallandi athugasemdir þann 16. júlí sl.


Ég mótmæli því að umrædd færsla hafi verið ærumeiðandi. Í fyrsta lagi beindist færslan ekki að persónunni Önnu Kristínu heldur að RÚV. Fyrirsögn færslunnar gefur strax til kynna hver það er sem sætir gagnrýni: ,,RÚV falsar ummæli forseta ESB”. Í öðru lagi er Anna Kristín ekki nefnd á nafn í færslunni, aðeins er talað um fréttamann á RÚV. Í þriðja lagi er viðurkennt af hálfu Önnu Kristínu og RÚV að meginaðfinnslan í umræddri bloggfærslu hafi verið réttmæt, þ.e. þýðingin á orðum forseta leiðtogaráðs ESB, með því að þýðingunni var breytt í sjónvarpsfréttum RÚV sama dag og bloggfærslan birtist.


Tilefni bloggfærslunnar 16. júlí er þýðing fréttamannsins á orðum van Rompuy forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins að hann vonist til að ESB og Íslandi haldi góðum sambandi ,,either within or outside the accession process." Í fréttinni þýðir Anna Kristín fréttamaður RÚV orð forseta leiðtogaráðsins á þennan veg: ,,hvort sem aðildarviðræður halda áfram eða ekki."


Lög um Ríkisútvarpið segja eftirfarandi

   Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:

  1. Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.

  2. Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.

  3. Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.


Augljóst er að fréttamaðurinn gætti í þýðingu sinni á orðum forseta leiðtogaráðs ESB ekki að gæðum og faglegum vinnubrögðum.  Í kvöldfréttum RÚV-sjónvarps 16. júlí, þ.e. sama dag og fyrri fréttin birtist, var komin ný þýðing á orðum forseta leiðtogaráðsins.  Nú hét það ekki lengur aðildarviðræður heldur ,,aðildarferlið". Anna Kristín var einnig höfundur sjónvarpsfréttarinnar.

Með því að breyta þýðingunni frá þeirri sem notuð var í hádegisfréttum - ,,aðildarviðræður" - yfir í aðra í kvöldfréttum - ,,aðildarferli" - viðurkennir fréttamaðurinn að fyrri þýðingin hafi verið röng.


Fyrri þýðingin féll eins og flís við rass að málstað ESB-sinna sem halda því fram að hægt sé að ljúka viðræðum við Evrópusambandið og fá samning til að kjósa um. Þar með var hvorki gætt sanngirni né hlutlægni í frásögn.


Andstæðingar aðildar hafa í mörg ár haldið því fram að ekki sé hægt að ljúka viðræðum án aðlögunar Íslands að regluverki sambandsins. Um þetta hafa staðið harðvítugar pólitískar deilur allt frá því að ESB-umsóknin var send til Brussel sumarið 2009.


Eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í vor og gerði hlé á ESB-ferlinu hafa ESB sinnar lagt þunga áherslu á að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Frá því í vor hefur verið safnað undirskriftum á netinu til stuðnings þeirri kröfu ESB-sinna að viðræðum við Evrópusambandið ljúki með aðildarsamningi. Þeirri kröfu er haldið á loft í undirskriftarsöfnuninni að þjóðin fái að greiða atkvæði um framhaldið.


Í hádegisfréttinni, sem er tilefni þessara skrifa, tók Anna Kristín viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem útskýrði afstöðu ríkisstjórnarinnar. Í beinu framhaldi af orðum forsætisráðherra kemur Anna Kristín með spurningu í fullyrðingatón


Er það þá ekki eðlilegt framhald af þessum umræðum í þinginu að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu og þá fyrr en seinna?


Aftur tekur fréttamaðurinn afstöðu með ESB-sinnum. Það eru þeir sem berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, - vel að merkja eftir að þeir töpuðu þingkosningunum í vor. Það var engin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort ætti að senda ESB-umsókn. Orðin ,,fyrr en seinna" ítreka ESB-sinnaða afstöðu fréttamannsins. Fréttamaðurinn horfir aðeins á eina hlið málsins. Í spurningunni er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að umræður á þinginu myndu leiða í ljós að það væri algerlega andstætt íslenskum hagsmunum að endurvekja ESB-ferlið.


Fréttir RÚV af ESB-ferlinu eru margar á sömu bókina lærðar: Rakin hafa verið dæmi sem sýna að  RÚV gerir það að sérstöku kappsmáli að knýja á um málstað ESB-sinna með kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það bendir til þess að sjónarmið ESB-sinna séu ráðandi á fréttastofu RÚV. Umræðuhópar hafa sprottið upp á samfélagsmiðlum til að ,,vakta” fréttaflutning RÚV.


Fréttamaður RÚV, Anna Kristín, gætti ekki að sanngirni og hlutlægni í frásögn og túlkun, samanber lög Ríkisútvarpsins sem vitnað er í hér að ofan. Anna Kristín dró taum annars af tveim málsaðilum í hápólitískum deilum og beitti rangfærslum (þ.e. rangri þýðingu á ,,accession process"). Með óbeinum hætti hefur Anna Kristín viðurkennt rangfærsluna enda breytti hún þýðingunni sama dag í kvöldfréttum RÚV. Afstaða Önnu Kristínar  til ESB-málsins kemur skýrt fram í leiðandi spurningum hennar til forsætisráðherra.

Niðurlagið í blogginu 16. júlí  er eftirfarandi:


Fréttamaður RÚV er viljandi og af yfirlögðu ráði að fela þá staðreynd að eina leiðin inn í Evrópusambandið er leið aðlögunar þar sem umsóknarríki jafnt og þétt tekur upp lög og regluverk sambandsins.

Fréttafölsunin er í þágu þeirrar blekkingar ESB-sinna að hægt sé að ljúka óskuldbindandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og fá samning til að kjósa um. Það er einfaldlega ekki hægt, aðlögun er eina leiðin inn í Evrópusambandið.


Þegar fréttin er metin í heild sinni er niðurstaðan rökrétt. Þýðingin á orðum forseta leiðtogaráðs ESB, fullyrðingasöm og leiðandi spurning fréttamanns um þjóðaratkvæðagreiðslu og skortur á sanngirni og hlutlægni í fréttafrásögn gefa fullt tilefni til þeirrar gagnrýni sem kemur fram í bloggfærslunni.


Þegar meta skal hvort tónninn í garð fréttamanns hafi verið óþarflega hvass eða úr takti við það sem gerist og gengur í umræðunni er ástæða til að vekja athygli á ummrælum útvarpsstjóra í viðtali við DV 18. janúar 2013. Páll Magnússon útvarpssstjóri segir gagnrýni á RÚV lýsa ,,mannfyrirlitingu.” Hér er fast að orði kveðið en ekki er hægt að lesa úr orðum útvarpsstjóra um gagnrýnendur RÚV hvort hann sé með einhvern tiltekinn einstakling í huga. Ásökun um mannfyrirlitningu í samhengi við gagnrýni á RÚV gefur til kynna að RÚV-fólk gefi sér vítt svigrúm í orðavali.


Í viðtalinu fjallar Páll Magnússon um forsetaframbjóðendur síðustu forsetakosninga, en þar buðu sig fram Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir.


Páll segist hafa skilað auðu í forsetakosningunum og færir þessi rök fyrir máli sínu:


Að mínu mati uppfyllti enginn frambjóðandinn allar þær kröfur sem ég geri til forseta Íslands. Þær snúast meðal annars um heiðarleika, trúverðugleika, það að fólk sé samkvæmt sjálfu sér, lífsreynslu, virðuleika og vammleysi. Frómt frá sagt fannst mér enginn frambjóðandinn standast þessar margslungnu kröfur með þeim hætti að ég treysti mér til þess að styðja hann.


Þarna fer útvarpsstjóri þeim orðum um sex einstaklinga að þeir séu óheiðarlegir, ótrúverðugir, ósamkvæmir sjálfum sér, skorti lífsreyslu, séu án virðugleika og  ekki vammlausir. Úvarpsstjóri og yfirmaður RÚV telur eðlilegt að hafa í frammi orðæðu í þessum tón á opinberum vettvangi. Ekki eru neinar fréttir af réttarfarslegum afleiðingum orða útvarpsstjóra.


Bloggfærslan frá 16. júlí er til muna hófstilltari í orðavali og framsetningu á gagnrýni en tilfærð orð útvarpsstjóra.


Í lok bréfsins frá 14. ágúst ferð þú fram á að ég upplýsi hvort leiðarahöfundur Morgunblaðsins hafi fengið heimild frá mér til að endurbirta bloggfærsluna frá 16. júlí. Í ljósi þess að megintilefni bréfsins er að hóta mér lögsókn finnst mér þessi tilmæli óviðurkvæmileg. Þar af leiðir mun ég ekki svara þeim.


Virðingarfyllst,


Páll Vilhjálmsson







« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinarr Kr.

Flott.

Steinarr Kr. , 1.9.2013 kl. 18:03

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Því skyldi maður hlaupast í felur þegar bloggvini þessarar síðu,er gert rangt til.Hér höfum við mörg okkar dansað á víglínunni sem skilur ESB. andstæðinga og ESB.hlynnta að. Mörg okkar hafa nýtt tjáningarfrelsið hér og virkilega gagnrýnt það sem er svo greinilegt að RÚV.sem á lögum samkvæmt að gæta hlutleysis,hefur æ,oní æ misnotað aðstöðu sína og lagað fréttir að geðþótta aðildarsinna. Ég vil þó minnast á að nýlega var nákvæm frétt af ummælum fyrrverandi háttsettri konu ESB. sem taldi Íslendinga tapa á því að ganga í sambandið.

Helga Kristjánsdóttir, 1.9.2013 kl. 22:32

3 identicon

Gott mál Palli.

Sandkassinn (IP-tala skráð) 2.9.2013 kl. 00:16

4 Smámynd: Ragnar Þór Ragnarsson

hver hefur áhuga á þessu rúv bulli þetta er skíta stofnun og ætti að leggja niður þegar í stað þeir fá ýmislegt en ég mun aldrei nokkurn tíman tala fallega um þetta drasl sem kallast útvarpstöðvar og sjónvarp rúv sem er ekki einu sinni hægt að horfa á nér hlusta á þá og fréttirnar eru ekkert skárri hvernig nenniði að fylgast með þessu eða reina rökræða við einhverja á vegum rúv ég bara spyr ég myndi bara segja þeim þeigja þeir svara ekki pósti frá mér sem ég sendi fyrir 2 vikum og það var kurteisi bréf til þeirra og ég fékk aldrei svar til baka

Ragnar Þór Ragnarsson, 2.9.2013 kl. 05:33

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þú massar þetta, Páll og við stöndum með þér.

Ragnhildur Kolka, 2.9.2013 kl. 16:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband