Sunnudagur, 25. ágúst 2013
ESB er sósíalismi með manneskjulegt andlit
Á morgun kemur út bók í Þýskalandi eftir blaðamanninn Henryk M. Broder undir heitinu ,,Síðustu dagar Evrópu. Góð hugmynd sem við sökktum." Í tilefni af útgáfunni birtir Die Welt grein eftir Broder með fyrirsögninni: ,,ESB verður að Sovétríkjum með manneskjulegt andlit."
Fyrirsögnin er vísun í tilraun tékkneskra kommúnista á sjöunda áratugnum til að setja saman stjórnskipulag undir heitinu ,,sósíalismi með manneskjulegt andlit." Tilraunin brotin á bak aftur með innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu 1968. Það ártal markar upphaf að endalokum kommúnismans í Austur-Evrópu sem lauk rúmum tuttugu árum seinna, með falli Berlínarmúrsins.
Greining Broder er að ESB hafi færst of mikið í fang. Framkvæmdastjórnin, sem skipuð er 28 kommisörum, reynir að stýra sambandinu í smáatriðum án þess að hafa lýðræðislegt umboð til þess.
Broder gefur lítið fyrir rök Merkel kanslara um að ,,falli evran þá fellur Evrópa" - álfan var til áður en gjaldmiðillinn kom á götuna 2002, segir þýski blaðamaðurinn, og Evrópa verða enn til þótt evran falli.
Það sjónarmið að farga megi evrunni en halda ESB vinnur fylgi. Aðalráðgjafi Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði svo mikið í viðtali nýlega. Viðtalið leiddi til þess að framboðið Valkostur fyrir Þýskaland, sem er skipað gagnrýnendum ESB, sendi út fréttatilkynningu er aftur leiddi til þess að Schäuble fjármálaráðherra lýsti sig ósammála ráðgjafa sínum.
Evran er orðin veikasti hlekkurinn í Evrópusambandinu. Líkurnar aukast fyrir því að ráðandi öfl í álfunni leiti róttækra lausna á vanda gjaldmiðlasamstarfsins sem 17 af 28 ríkjum ESB eiga með sér. Rki ESB eiga tæplega sameiginlegt efnahagsumhverfi. Evru-kreppan bitnar aðeins á sumum ríkjum. Norður-Evrópa er í blóma en jaðar-ríkin í suðri lifa í eymd og volæði. Þegar nánar er að gætt er það ekki margt sem sameinar ESB-ríkin 28.
Engin evrópsk þjóð er til. segir Broder, ekkert evrópskt samkenni og engin evrópsk frásögn. Engin sam-evrópsk utanríkisstefna fyrirfinnst og heldur ekki sam-evrópsk tilfinning sem gerir meira en að aðgreina Evrópu frá Ameríku. Evrópa er í mesta lagi fríverslunarsvæði með opin landamæri. Og það er líka nóg, segir Broder.
Athugasemdir
Né síður er ESB,sósialisminn hjartaþegi.
Helga Kristjánsdóttir, 25.8.2013 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.