Sunnudagur, 18. ágúst 2013
Fréttamaður RÚV, hlutdrægnin og afsökunin
Fréttamaður RÚV hótar bloggara málshöfðun vegna færslu frá 16. júlí þar sem fjallað var um frétt í RÚV um Evrópumál. Kristján Þorbergsson lögfræðingur hjá Lögskil skrifar bloggara bréf fyrir hönd Önnu Kristínar Pálsdóttur fréttamanns á RÚV.
Lögmaðurinn vill viðbrögð bloggara við því sjónarmiði að bloggið frá 16. júlí hafi verið ærumeiðandi. Eftir að málið varð opinbert kom Anna Kristín fram í fjölmiðlum og vill fá afsökunarbeiðni frá bloggara.
Tilefni bloggfærslunnar 16. júlí er þýðing fréttamannsins á orðum van Rompuy forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins að hann vonist til að ESB og Íslandi haldi góðum sambandi ,,either within or outside the accession process." Van Rompuy vísar þarna til þess hvort aðildarferli Íslands inn í Evrópusambandið haldi áfram eða ekki.
Í fréttinni, sem var tilefni bloggsins, þýðir Anna Kristín fréttamaður RÚV orð forseta leiðtogaráðsins á þennan veg: ,,hvort sem aðildarviðræður halda áfram eða ekki."
Lög um Ríkisútvarpið segja eftirfarandi
Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið:
- Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð.
- Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.
- Sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.
Augljóst er að fréttamaðurinn gætti í þýðingu sinni á orðum forseta leiðtogaráðs ESB ekki að faglegum vinnubrögðum. Í kvöldfréttum RÚV-sjónvarps 16. júlí, þ.e. sama dag og fyrri fréttin birtist, var komin ný þýðing á orðum forseta leiðtogaráðsins. Nú hét það ekki lengur aðildarviðræður heldur ,,aðildarferlið". Anna Kristín var einnig höfundur sjónvarpsfréttarinnar.
Með því að breyta þýðingunni frá þeirri sem notuð var í hádegisfréttum - ,,aðildarviðræður" - yfir í aðra í kvöldfréttum - ,,aðildarferli" - viðurkennir fréttamaðurinn að fyrri þýðingin hafi verið röng.
Fyrri þýðingin fréttamannsins féll eins og flís við rass að málstað ESB-sinna sem halda því fram að hægt sé að ljúka viðræðum við Evrópusambandið og fá samning til að kjósa um. Andstæðingar aðildar hafa í mörg ár haldið því fram að ekki sé hægt að ljúka viðræðum án aðlögunar Íslands að regluverki sambandsins. Um þetta hafa staðið harðvítugar pólitískar deilur allt frá því að ESB-umsóknin var send til Brussel sumarið 2009.
Eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í vor og gerði hlé á ESB-ferlinu hafa ESB sinnar lagt þunga áherslu á að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Í hádegisfréttinni, sem er tilefni þessara skrifa, tók Anna Kristín viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem útskýrði afstöðu ríkisstjórnarinnar. Í beinu framhaldi af orðum forsætisráðherra kemur Anna Kristín með spurningu í fullyrðingatón
Er það þá ekki eðlilegt framhald af þessum umræðum í þinginu að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu og þá fyrr en seinna?
Aftur tekur fréttamaðurinn afstöðu með ESB-sinnum. Það eru þeir sem berjast fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, - vel að merkja eftir að þeir töpuðu þingkosningunum í vor. Það var engin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort ætti að senda ESB-umsókn.
Orðin ,,fyrr en seinna" ítreka ESB-sinnaða afstöðu fréttamannsins. Fréttamaðurinn horfir aðeins á eina hlið málsins. Í spurningunni er ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að umræður á þinginu myndu leiða í ljós að það væri algerlega andstætt íslenskum hagsmunum að endurvekja ESB-ferlið.
Fréttir RÚV síðustu daga, einkum um helgina, eru á sömu bókina lærðar: RÚV gerir það að sérstöku kappsmáli að knýja á um málstað ESB-sinna með kröfunni um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það bendir til þess að sjónarmið ESB-sinna séu ráðandi á fréttastofu RÚV.
Anna Kristín gætti ekki hlutlægni í frásögn og túlkun, samanber lög Ríkisútvarpsins sem vitað er í hér að ofan. Anna Kristín dró taum annars af tveim málsaðilum í hápólitískum deilum og beitti rangfærslum (þ.e. rangri þýðingu á ,,accession process"). Með óbeinum hætti hefur Anna Kristín viðurkennt rangfærsluna enda breytti hún þýðingunni sama dag í kvöldfréttum RÚV. Afstaða Önnu Kristínar til ESB-málsins kemur skýrt fram í leiðandi spurningum hennar til forsætisráðherra.
Niðurlagið í blogginu, sem er tilefni hótunar um málssókn er eftirfarandi:
Fréttamaður RÚV er viljandi og af yfirlögðu ráði að fela þá staðreynd að eina leiðin inn í Evrópusambandið er leið aðlögunar þar sem umsóknarríki jafnt og þétt tekur upp lög og regluverk sambandsins.
Fréttafölsunin er í þágu þeirrar blekkingar ESB-sinna að hægt sé að ljúka óskuldbindandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og fá samning til að kjósa um. Það er einfaldlega ekki hægt, aðlögun er eina leiðin inn í Evrópusambandið.
Þegar frétt Önnu Kristínar er metin í heild sinni er niðurstaðan rökrétt.
Ef Anna Kristín, eða lögmaður hennar, geta sýnt fram á með rökum að ályktunin standist ekki þá er ég tilbúinn að hlusta á þau sjónarmið. En þangað til sé ég ekki ástæðu til að biðjast afsökunar.
Athugasemdir
Páll. Orðin aðildarviðræður eða aðildarferli eru bæði rétt þýðing á þessum orðum en orðið aðlögunarferli eins og þú villt hafa og ásakaðir Önnu um fölsun fyrir að nota ekki er kolröng þýðing. Það vantar því ekkert upp á fagleg vinnubrögð hjá Önnu en og því var þessi grein þín frá 16. júlí ekkert annað en aðför að æru og starfheiðri Önnu. Þú yrðir maður að meiri ef þú viðurkenndir það og bæðist afsökunnar. Ef þú gerir að ekki þá er fullkomlega eðlilegt að Anna fari með málið fyrir dóm til að verja æru sína og starfheiður gegn þessari makalusu árás þinni á henn.
Og það er hægt að klára aðildarviðræður og kjósa um aðildaramning í þjóðaratkævðagreiðslu. Fullyrðingar um annað eru haugalygi. Enda hefur engin aðlögun enn átt sér stað að ESB reglum vegna aðildarumsóknar okkar og enn hefur ekki komið fram nein krafa um það frá ESB að slíkt fari fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Við erum hins vegar á fullu í aðlögun að ESB reglum vegan aðilar okkar að EES samningum og munum verða áfram óháð því hvort aðildarviðræðum verður slitið eða ekki.
Það sem vantar alveg hjá ykkur sem eruð að breiða út það bull að við séum í aðlögunarferli vegna ESB umsókar okkar er að nefna einhver dæmi um slíkt. Það hafið þið aldrei getað enda hefur ekkert slíkt átt sér stað.
Það hefur komð fram í skoðanakönnunum að meirihluti þjóðarinnar vill klára aðildarsamninginn og kjósa um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því fullkomlega eðlilegt að fréttamaður spyrji ráðherra um það hvort ekki standi til að kjósa um það. Það fellst því engin hlutdrægni í slíkri spurningu.
Ef þú villt finna hlutdræga umræðu um ESB þá er nóg af slíku hjá Morgunblaðinu, Bændablaðinu, ÍNN og á vefsíðum Heimssýnar og Evrópuvaktarinnar. Það er minna um það hjá RÚV enda umfjöllun þar um ESB mun fagmannlegri og hlutlausari en hjá hinum miðlunum.
Sigurður M Grétarsson, 18.8.2013 kl. 18:21
Í stuttu máli þá þýðir þessi færsla að Páll Vilhjálmsson stendur við meðal annars eftirfarandi fullyrðingar og viðkennir að þær eigi við Önnu Kristínu Pálsdóttur:
„Fréttamaður RÚV er viljandi og af yfirlögðu ráði að fela þá staðreynd að eina leiðinin inn í Evrópusambandið er leið aðlögunar þar sem umsóknarríki jafnt og þétt tekur upp lög og regluverk sambandsins.
Fréttafölsunin er í þágu þeirrar blekkingar ESB-sinna að hægt sé að ljúka óskuldbindandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið og fá samning til að kjósa um. Það er einfaldlega ekki hægt, aðlögun er eina leiðin inn í Evrópusambandið.“
Þessi færsla mun sumsé nýtast Önnu Kristínu vel í dómsmáli ef til þess kemur.
Þarfagreinir, 18.8.2013 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.