Miðvikudagur, 14. ágúst 2013
Glórulaus gagnrýni og súr vínber
Íslenskir framhaldsskólanemar standa sig vel í námi, bæði í íslenskum háskólum og erlendum. Sérstaða íslenskra nema hefur löngum verið að þeir þekkja betur til atvinnulífsins en jafnaldrar þeirra enda bæði sumarvinna og vinna meðfram skóla algeng.
Allsherjargagnrýni á íslenska framhaldsskólakerfið frá skólameistara iðnskóla verður að taka með stórum fyrirvara. Iðnskólar fóru halloka á síðustu öld enda kusu nemendur fremur bóknám en iðnnám.
Umræða um framhaldsskólann og hvernig hann ætti að þróast er af hinu góða. Sleggjudómar Ársæls Guðmundssonar hjálpa þar lítið.
Glórulaust kerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst dönskukennsla í grunnskólum (og framhaldskólum) verða borðleggjandi dæmi um að þetta sé rétt hjá Ársæli.
Auðvelt er að finna önnur dæmi um hvað kerfið er úrelt og íhaldssamt.
Teitur Haraldsson, 14.8.2013 kl. 10:19
Sleggjudómar segirðu? Frá skólastjóra með margra ára reynslu?
Sjálfur þekki ég til ungs fólks, sem bjó á Spáni stóran hluta sinnar grunn- og framhaldsskólagöngu. Þar um slóðir útskrifast þau 18 ára tilbúin til háskólanáms, með meiri raungreina- og tungumálamenntun en 20 ára nemendur sem klára á þeim aldri framhaldsskólann hér.
Það geta varla verið sleggjudómar að vilja skoða okkar skólakerfi aðeins betur, eða hvað?
Þórhallur Birgir Jósepsson, 14.8.2013 kl. 11:02
Það eru vitanlega sleggjudómar að lýsa því yfir að framhaldsskólakerfið sé meira og minna ónýtt og þjóni ekki nemendum.
Sérhver þjóð er með sitt skólakerfi sem tekur mið af aðstæðum í hverju landi. Kerfið okkar tekur síðast stórum breytingum þegar fjölbrautaskólar ruddu sér til rúms á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Markmiðið með breytingunum var þríþætt; skóli fyrir alla, skóli í heimabygg og sveigjanlegur skóli (þ.e. útskrift eftir 3 til 5 ár, ýmist eftir samfellt nám eða með hléum).
Það má vel vera að ástæða sé til að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi. En umræðan um þær mun ekki verða frjó eða gagnleg með sleggjudómum.
Páll Vilhjálmsson, 14.8.2013 kl. 11:58
Ársæl má ekki tengja einungis við að vera "skólastjóri iðnskóla" (hélt reyndar að það væri ekkert annað eða þrönsýnna en annað skólameistarastarf). Hann er með áratuga reynslu sem skólastjórnandi framhalsskólans á Sauðárkróki og frumkvöðull í uppbyggingu framhaldsskólans í Borgarnesi. Reynsla hans innan skólakerfisins, og reyndar menntun hans líka, gerir hann fullfæran um að koma með ábendingar og lausnir varðandi betrumbætur kerfisins.
Sigríður Lárusdóttir, 14.8.2013 kl. 13:31
Ég er búinn að hafa sömu skoðanir og Ársæll í rúmlega 30 ár, eða frá því ég var sjálfur í framhaldsskóla og var óánægður með námsefnið. Að stórum hluta má segja það sama um grunnskólana, kerfið þar hreinlega framleiðir námsleiða nemendur. Mikið er gott að innanbúðarmaður með reynslu sé tilbúinn til naflaskoðunar.
Halldór Halldórsson, 14.8.2013 kl. 13:41
Ég held að þú sért að hætta þér á hálan ís Páll. Ég mun aldrei skylja þá breytingu sem gerð var í tengslum við kjarasamninga kennara, þar sem skólaárið var lengt en samt ekki. Lengt á almanakinu en stytt í kennslutímum.
Þetta er alveg réttmæt ábending hjá skólameistara iðnskólans í Hafnarfirði, sérstaklega sá hluti gagnrýninnar sem snýr að bóknámi og hvernig börn eru matreidd með bóklegu námi í grunnskólum.
Hluti af kennsluefni grunnskóla er betur sett á bókabrennu en í höndum krakka sem eiga að mynda sér skoðun um hvað þau eiga að læra og gera þegar þau verða stærri.
Sindri Karl Sigurðsson, 14.8.2013 kl. 22:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.