Ameríka, Ómar og Illugi

Eftir seinna stríð skipti Ameríka þjóðinni í tvennt. Herstöðvarandstæðingar fundu Bandaríkjunum flest til foráttu en hinir, sem töldu herstöðina á Miðnesheiði nauðsynlega, voru fremur jákvæðir í afstöðunni til Bandaríkjanna.

Yfirfært á flokkspólitík var afstaðan til Bandaríkjanna um það bil þessi: Sjálfstæðisflokkur hlynntur, Alþýðuflokkur að mestu leyti hlynntur, Framsóknarflokkur klofinn og Alþýðubandalagið andvígt.

Ómar Ragnarsson gerir að umtalsefni hliðstæður umræðunnar um Ameríku á síðustu öld og um Evrópusambandið á þessari öld. Í báðum tilvikum er afstaða manna heit, að ekki sé sagt heiftúðug, og samræður á milli andstæðra fylkinga er eftir því ómálefnaleg.

Engu að síður er verulegur munur á kaldastríðsumræðunni á síðustu öld og afstöðunni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Á tímum kalda stríðsins var heimurinn tvípóla. Lýðræðisríki Vesturlanda  gegn kommúnisma í austri. Heimurinn í dag er margpóla. Bandaríkin eru hvað öflugust en Kína er ekki fjarri og lönd eins og Rússland, Brasilía og Indland gera stórveldatilkall. Evrópusambandið er einhvers staðar á milli þess að vera risi á brauðfótum og samband ófullvalda ríkja með ólíka hagsmuni.

Vinstrisinnar, bæði á Íslandi og Evrópu, höfðu horn í síðu Bandaríkjanna alla síðustu öld. Einkum var menningarleysi Ameríkana við brugðið. Illugi Jökulsson byrjar nýlega bloggfærslu með þessum orðum: ,,Ameríkanar eru einstaklega menningarsnautt fólk, teljum við stundum." En bloggfærslan Bókmenntir í neðanjarðarlest lýsir aðdáun höfundar á bókalestri hversdagslegra Ameríkana.

Hvort Ameríkublogg Illuga, sem er bæði vinstrimaður og ESB-sinni, sé merki um veðrabrigði vinstrimanna í afstöðunni til meginlandsins sem Leifur Eiríksson fann á sínum tíma skal ósagt.

Hitt er öllum ljóst að breytingarnar sem urðu á síðasta áratug, þegar Bandaríkin lokuðu herstöðinni á Miðnesheiði 2006 og Ísland sendi Evrópusambandinu aðildarumsókn 16.júlí 2009, gerbreytti þeim forsendum sem Íslendingar höfðu til að meta stöðu þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu. 

Þessar breyttu forsendur munu hafa langtímaáhrif á pólitíska hugsun. En við erum enn í megindráttum með flokkakerfi kalda stríðsins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ill ómar Ameríka hjá snuðrandi menningar postulum Íslands.

Helga Kristjánsdóttir, 13.7.2013 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband