Sunnudagur, 7. júlí 2013
Eftirspurnin eftir mistökum Árna bæjó
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ Árni Sigfússon skilur eftir sig sviðna jörð hvert sem litið er. Bæjarsjóður er svo gott sem gjaldþrota, fasteignir bæjarins fóru í gjaldþrota fasteignafélag þar sem Árni var stjórnarformaður; Magma-ævintýrið er kokkað upp á bæjarskrifstofunum og Hitaveita Suðurnesja seld útrásarauðmönnum og síðar kanadískum braskara.
Og svo er það auðvitað Íbúðarlánasjóður sem var mjólkaður í þágu fólksfjölgunardrauma Árna bæjó. Úr frétt RÚV
Árið 2007 veitti sjóðurinn lán til íbúðakaupa fyrir röska 6 milljarða króna. Þar af runnu 33% lánsfjárins til íbúða sem enduðu svo á uppboði. Hrunárið 2008 voru lánaðir 8,5 milljarðar. Sérstaka athygli vekur útlánagleði sjóðsins árið eftir hrun. Þá voru lánaðir tæpir 5 milljarðar. Þar af runnu 42% lánsfjárins til íbúða sem sjóðurinn eignaðist aftur á uppboði.
Þetta var gert þrátt fyrir aðvaranir Magnúsar Árna Skúlasonar hagfræðings og ráðgjafa sjóðsins í skýrslu sem hann vann fyrir stjórn Íbúðarlánasjóðs um íbúðamarkaðinn á Suðurnesjum um mitt ár 2008. Þar segir að framboð íbúðarhúsnæðis í bænum sé gríðarlegt og ljóst að það verði að fara varlega í nýbyggingar svo offramboð myndist ekki með verðfalli og neikvæðum félagslegum áhrifum vegna auðra íbúða.
Athugasemdir
Að hver verðskuldi það sem hann kýs yfir sig?
Jón Þórhallsson, 7.7.2013 kl. 08:35
Í öllum þróuðum löndum höfðu menn í sporum hans Árna bæjó sagt af sér fyrir löngu.
Úrsúla Jünemann, 7.7.2013 kl. 10:35
Mér sýnist nú forseti bæjarráðs Reykjanesbæjar hafa toppað alla í nýlegri grein sinni í Morgunblaðinu. Þar kallar hann umræðuna um orkumál "galna umræðu", þ. e. að það að viðurkenna ekki að orkan, sem nú er unnin í gufuaflsvirkjunum á Reykjanesskaga sé "hrein og endurnýjanleg".
Það er alvarlegur hlutur þegar jafn mikill áhrifamaður og þessi veit ekki eða lætur sem hann viti ekki það, sem almennt er viðurkennt af vísindamönnum, að einu kröfurnar sem gerðar eru fyrirfram til þessara virkjana eru þær að þær endist í 50 ár, sem er að sjálfsögðu víðsfjarri því að vera "endurnýjanleg orka" eða "sjálfbær þróun".
Hann lætur líka sem hann viti ekki að vinnslan er ekki hreinni en það að það stefnir í að veita verði undanþágu í átta ár til þess að OR geti rannsakað, hvort hægt verði að koma í veg fyrir að útblástur brennisteinsvetnis verði yfir heilsuverndarmörkum.
Hann lætur sem hann viti ekki að nú þegar stenst loft í Reykjavík ekki kröfur Kaliforníu um loftgæði stóran hluta úr árinu og að árlega verður tuga ef ekki hundraða milljóna króna tjón á rafeindabúnaði margskonar vegna þessarar mengunar.
Ómar Ragnarsson, 8.7.2013 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.