Laugardagur, 6. júlí 2013
300 þúsund Írar flýja evruna
Á síðustu fjórum árum hafa 300 þúsund Írar flúið heimaland sitt vegna evru-kreppunnar. Engu að síður er um 15 prósent atvinnuleysi á eyjunni grænu. Stærsti hópurinn sem flýr Írland er ungt fólk sem gefst upp á ESB-landinu með evruna sem myllustein um háls atvinnulífsins.
ESB-sinnar á Íslandi, t.d. Þröstur Ólafsson, halda því fram að með inngöngu í Evrópusambandið yrði Ísland hólpið, bæði frá lélegum innlendum stjórnmálamönnum og erlendu arðráni. Reynsla Íra segir aðra sögu.
Þýskt dagblað birti heilsíðu grein um hvernig Írar eru féflettir af innlendri elítu bankamanna og stjórnmálamanna og arðrændir af Evrópusambandinu. Irish Times þýddi og endurbirti greinina.
Fyrir Íslendinga er sérstaklega áhugavert að lesa frásögn írska sjómannsins Murtagh sem segir að írskir sjómenn fái aðeins í sinn hlut 2,6 prósent af aflanum af sameiginlegu hafsvæði Evrópusambandsins, en Írlandi ætti 14,2 prósent af því hafsvæði ef landið stæði utan Evrópusambandsins. Írsku fiskimiðin eru umsetin spænskum, hollenskum og frönskum verksmiðjuskipum. Murtagh grætur þegar hann segir frá eymd írskra sjómanna. Lái honum hver sem vill.
Reynsla Íra er að Evrópusambandið veitir hvorki vörn fyrir ónýtum innlendum stjórnvöldum og heldur ekki fyrir útlendu arðráni. Enn síður veitir aðild að evru-samstarfinu Írum efnahagslega hagsæld.
Hver eru aftur rökin hjá íslenskum ESB-sinnum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.