Fimmtudagur, 4. júlí 2013
Ríkistryggðir áhættufíklar: veðmál eru skoðanaskipti
Útrásin ól af sér skringilega hugsandi unga menn sem vilja ólmir taka áhættu en láta aðra borga ef illa fer. Siðlausir áhættufíklar segja núna nauðsynlegt að auka skortsölu til að bæta ,,skoðanaskipti" á verðbréfamarkaði. Eða, eins og segir í frétt mbl.is,
Til þess að auka skoðanaskipti á okkar litla markaði þarf að vera möguleiki á að skortselja bréf í meira mæli.
Skortsala er að veðja á að tiltekin hlutabréf lækki. Veðmálið fer þannig fram að maður fær lánuð hlutabréf til ákveðins tíma. Maður selur bréfin á núvirði með það í huga að kaupa þau síðar á lægra verði, skila bréfunum og græða mismuninn.
Á stórum markaði eru rökin fyrir skortsölu þau að skortsala leiðrétti ofmetin fyrirtæki. Flugufótur er fyrir þeirri röksemd en hún á sannarlega ekki við á Íslandi þar sem bæði eru náin stjórnendatengsl milli stærstu fyrirtækja og fjármunir almennings, lífeyrissjóðir, ráðandi á markaði.
Skortsala býður upp á margvísleg tækifæri til að græða. Til dæmis að nokkrir fjársterkir aðilar taki höndum saman og skortselji sömu hlutabréfin. Þar með er búið til áhlaup á viðkomandi fyrirtæki og nánast öruggt að hlutabréfin lækki í verði. Á tímum útrásar var slíkt samráð notað til að búa til hringekju þar sem auðmenn keyptu á víxl fyrirtæki eins og Skeljung og létu fyrirtækið alltaf hækka í verði við hverja sölu. Á pappírunum myndaðist stórgróði.
Siðlausu áhættufíklarnir lærðu það eitt af hruninu að ríkið lætur almenning borga brúsann þegar veðmál fjármálageirans enda illa. Núna vilja þeir taka áhættu með fjármuni lífeyrissjóða og eru svo ósvífnir að kalla skortsöluna ,,skoðanaskipti."
Ekki einstefna í Kauphöll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.