Þriðjudagur, 4. júní 2013
Tilbúin eftirspurn eftir byltingu
Búsáhaldabyltingin fleytti Samfylkingu og VG inn í stjórnarráðið veturinn 2009. Í þingkosningunum þá um vorið fengu vinstriflokkarnir umboð til fjögurra ára.
Þjóðin taldi byltinguna afstaðna með því að hrunstjórnin fór frá. Ríkisstjórn Jóhönnu Sig., á hinn bóginn, var í byltingarham allt kjörtímabilið. Með brambolti og látum átti að búa til ,,nýtt Ísland" án þess að fyrir lægi hvernig framtíðarlandið átti að líta út. Nema, auðvitað, það átti að vera í Evrópusambandinu.
Þjóðin hafnaði byltingu vinstriflokkanna í vor þar sem Samfylking fékk 12,9 prósent fylgi og VG 10,9.
Þegar fyrir liggur að almenningur hafnaði leiðsögn Samfylkingar og VG til framtíðarlandsins skyldi ætla að vinstrimenn legðust undir feld og drægju lærdóm af lexíunni frá 27. apríl. En það er öðru nær. Liðsoddar vinstriflokkanna kalla eftir nýrri byltingu þar sem meint svik Framsóknarflokksins á kosningaloforðum er eldsneytið.
Einmitt þau loforð Framsóknarflokksins, sem ráðherrar Samfylkingar og VG, sögðu í apríl að væru óframkvæmanleg eiga í sumar að vera ástæða þess að fólk þyrpist út á götu til að mótmæla.
Óneitanlega stendur tilbúna eftirspurn vinstriflokkanna eftir byltingu á veikum grunni. Betra er að veifa röngu tré en öngvu.
Athugasemdir
Innan fjögurra ára mun þjóðin gefast upp á stjórnmálamönnum Lýðveldisins. Því engu skiptir hvort þeir standa til hægri, vinstri eða í miðju, meðan stjórnarskráin ver rétt þeirra til að ljúga upp í opið geð þjóðarinnar.
Þess vegna kemur Endurreist Þjóðveldi.
Guðjón E. Hreinberg, 4.6.2013 kl. 17:25
Menn hafa mismunandi skoðun á stjórnarskránni Guðjón, sumir telja hana rót alls hins illa og vilja nýja, meðan aðrir fá ekki séð annað en stjórnarskráin þjóni sínum tilgangi ágætlega. Auðvitað þarf að uppfæra einhverjar greinar hennar til nútímans, en efnislega er hún hin besta.
Það er hins vegar nýtt að heyra að stjórnarskráin heimili þingmönnum að ljúga.
Kannski þú gætir bennt á þá grein stjórnarskrár okkar sem gefur þingmönnum það vald. Getir þú það ættir þú einnig að geta bennt á þá grein í tillögum að nýrri stjórnarskrá sem kemur í veg fyrir slíkt athæfi.
Gunnar Heiðarsson, 4.6.2013 kl. 18:22
Þessi kostulega ekki-blaðamanns-útskýring er fjármögnuð af Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. :)´
Þjóðin megnaði því miður ekki að koma Hrunstjórninni frá. Meingallað kosningakerfi sá til þess að helmingur Hrunstjórnarinn fékk illu heilli framhaldslíf í "norrænu velferðarstjórninni" alræmdu.
Nú er sama meingallaða kosningakerfið búið að koma hinum helming Hrunstjórnarinnar aftur til valda, þrátt fyrir lágmarksfylgi FLokksins í sögulegum skilningi.
Þjóðin vildi ekki Samfylkinguna og þjóðin vill ekki FLokkinn, enda hvoru tveggja vanhæf stjórnvöld.
Íslenska flokkakerfið er hannað fyrir fjórFLokkinn - ekki þjóðina,
N1 blogg, 4.6.2013 kl. 21:18
Mér finnst ég hafa séð þig áður N1,notar myndarllegan ráðherra til að fela þig á bak við. Samt ertu ekkert að deila á nema e.t.v. pistlahöfund,annað er söguskýring,bjóst við hinu versta.Ég næ ekki hlökkun þinni yfir fylgi stærsta flokksins,sigurvegara seinustu kosninga,jú sögulega samhengið bjargaði málum líklega sárabótin mikla. Aldrei hafa fleiri flokkar boðið fram sem nú,ef það hefur verið hægt allan lýðveldistímann, botna eg ekkert í einhverri hönnun fyrir fjórflokk,hver ætli hafi fundið það upp,skyldi sá hafa verið einn af pínu,litlu flokkunum.
Helga Kristjánsdóttir, 4.6.2013 kl. 22:56
Þeir sem mótmæla sjálfum sér og sínum klúðurs-svika-Landsdómsréttarhöldum "réttlætisins", eiga ekki mikla von í svokölluðum réttlætis-búsáhalda-byltingum.
Siðblinda sumra svikulla tapara virðist vera algjörlega 100%!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 4.6.2013 kl. 23:03
Takk fyrir athugasemdina Gunnnar. Ég hefði átt að merkja við "vakta" svo ég hefði getað svarað þér fyrr.
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html#G48
Grein 48 í Stjórnarskrá kveður alþingismenn einungis bundna af sannfæringu sinni. Það segir sig sjálft að þeir hafa einungis við eigin samvisku að stríða um hvernig þeir túlka sína sannfæringu á hverjum gefnum tíma.
Nýju stjórnarskrárdrögin sem troðið var upp á okkur, eru ekki hótinu skárri.
Sú stjórnarskrár umræða sem Íslenzkja Þjóðveldisfélagið er að vinna með krefur alþingismenn sem kosnir eru árlega og aðeins til árs í senn, með persónukjóri frá héraðsþingum, séu bundnir af loforðum sínum við sitt hérað. Héraðsþing geti því skipt út sínum alþingismanni á kjörtímabili hans og sett inn varamann í staðinn.
Guðjón E. Hreinberg, 4.6.2013 kl. 23:48
www.frelsisvilji.is
Guðjón E. Hreinberg, 4.6.2013 kl. 23:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.