Mánudagur, 3. júní 2013
Fuglahræðurökin og baráttan um Ísland
Fuglahræðurök er að gera andstæðingi sínum upp skoðanir og rífast við þær en ekki raunverulega afstöðu andstæðingsins. Andstæðingar Framsóknarflokksins beita fuglahræðurökum þegar þeir segja flokkinn hafa lofað allsherjarafslætti af lánum strax eftir kosningar og skammast svo út í flokkinn fyrir meint svik.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins vakti athygli á aðferðafræði vinstrimanna og kom það við kaunin af viðbrögðum þeirra að dæma.
Deilur Sigmundar Davíðs við fyrrum þingmenn Samfylkingar og VG eru hluti af baráttunni um að skilgreina Ísland eftir hrun. Endurkoma Framsóknarflokksins sem geranda í íslenskri pólitík ruglaði vinstrimenn í ríminu. Herfræði vinstrimanna var að gera Sjálfstæðisflokkinn að höfuðandstæðingi og stilla sjálfum sér upp sem valkosti.
Endurreistur Framsóknarflokkur á miðju stjórnmálanna eyðilagði draum Samfylkingar og VG að sitja í stjórnarráðinu nokkur kjörtímabil í röð og hanna nýtt Ísland með aðild að Evrópusambandinu og gjörbreytta stjórnarskrá.
Framsóknarflokkurinn gefur tóninn fyrir lýðveldissinna sem telja áfangana 1. desember 1918 og 17. júní 1944 baráttunnar virði.
Athugasemdir
Þessi ríkisstjórn er rétt komin til valda og mátti búast við að það tæki einhvern tíma að koma lagfæringum á skuldastöðu heimilanna í gegn, en eitt er alveg á hreinu að leiðrétting á greiðslum til öryrkja átti að koma strax eftir kosningar. Um daginn hlustaði ég á Eygló Harðardóttur tala um að sú leiðrétting komi á kjörtímabilinu, sem er ekki í samræmi við þau loforð sem Framsókn gaf, og er þá að mínu viti lítið skárri en fráfarandi stjórn ekkert nema svik. Staða okkar er einfaldlega sú að við getum ekki beðið.
Sandy, 3.6.2013 kl. 11:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.