Laugardagur, 18. maí 2013
Tap vinstriflokkanna útskýrt
Jafnaðarmannaflokkar eru kosnir til að jafna lífskjör. Í kosningunum 2009 fengu Samfylking og VG kosningu til að jafna lífskjör og gera upp við hrunið. Hvorttveggja tókst prýðilega, eins og Steingrímur J. Sigfússon fráfarandi formaður VG segir og vísar til upphefðar að utan.
Hvers vegna tókst svo hörmulega til fyrir vinstriflokkana að þeir urðu fyrir rothöggi í kosningunum 2013, Samfylking með 12,9 prósent og VG með 10,9 prósent?
Í meginatriðum er skýringin tvíþætt. Vinstriflokkarnir fengu ekki umbun kjósenda fyrir vel unnin verk sökum þess að gjá var staðfest á milli efnahagslegs veruleika og pólitískrar framtíðarsýnar. Veruleikinn sem blasti við öllum var að fullveldi landsins, eins og það t.d. birtist í Icesave-deilunni, annars vegar og hins vegar gjaldmiðillinn voru þau verkfæri sem mestu skiptu í endurreisn efnahagskerfisins. En ríkisstjórnin vildi með ESB-umsókninni hvorttveggja feigt, fullveldi og krónu.
Í öðru lagi var ríkisstjórn Jóhönnu Sig. þjökuð af einhverjum byltingarnjálg sem hún losnaði ekki við allt kjörtímabilið. Umboð Samfylkingar og VG vorið 2009 var til að taka til eftir útrás og gera upp við hrun. Steingrímur J. og Jóhanna trúðu að þau hefðu víðtækt umboð til að búa til ,,Nýtt Ísland" án þess að hafa ýkja skýra hugmynd um hvernig nýja landið ætti að líta út -nema þá átti að vera í ESB.
Byltingarnjálgurinn var alþjóð augljós á síðustu dögum þingsins í vor þegar Samfylking og VG bjástruðu við að setja landinu nýja stjórnarskrá. Forystulið ríkisstjórnarinnar neitaði að horfast í augu við þann kalda veruleika að engin hreyfing var meðal þjóðarinnar til að bylta stjórnskipuninni.
Þessir tveir meginþættir, ESB-orðræðan sem rímaði ekki við endurreisnina og byltingarnjálgurinn, fara langt með að skýra tap ríkisstjórnarflokkanna.
Af öðrum þáttum sem skiptu máli á lokasprettinum er að Samfylkingin valdi sér formann sem gerði flokkinn að vasaútgáfu Sjálfstæðisflokksins og VG kaus sér trúverðugan talsmann í formannssætið. Tap Samfylkingarinnar varð því meira en efni stóðu til en VG hresstist, fór úr rúmlega fimm prósent fylgi í vetur í tæp 11 prósent í kosningum..
Endurreisn vinstristjórnmála á þessu kjörtímabili verður á forræði VG, sem bæði er með formann og málefni er eiga erindi við fólk. Samfylkingin fer í sögubækurnar sem mistök, - og ekki þau fyrstu á vinstri kanti stjórnmálanna.
Athugasemdir
Þessi ,,upphefð að utan,,er rannsókn Davids Stuckler um jöfnuð hér og á norðurlöndum,en er varla hægt að rengja án þess að glugga betur í staðreyndir. Ég er þess full viss,að margir hér á Íslandi finna hann ekki á eigin skinni,heldur þvert á móti,nægir að nefna skerðingu Tryggingastofnunar á elli og öryrkjabótum. Eitthvað miklu stærra og ógeðfelldara,varð til þess að vinsriflokkarnir biðu afhroð. Finni Steingrimur fyrir sárri höfnun núna,mætti hann gjarnan hugleiða hvernig kjósendum hans hefur liðið meðan hann framdi ótætis svikin. Upphefðin kom að utan,heyrði raddir að handan,ekki eitt smá kvak heima.
Helga Kristjánsdóttir, 19.5.2013 kl. 02:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.