Mánudagur, 13. maí 2013
Framhaldsskólar næsta fórnarlamb hrunfólksins
Strax eftir hrunið 2008 var gerð krafa til framhaldsskóla að þeir tækju við ungu fólki sem féll útaf vinnumarkaði. Skólarnir brugðust við og tóku við vinnuafli sem atvinnulífið mat ónauðsynlegt. Án þess að mögla tóku kennarar við stærri nemendahópum og fengu enga kauphækkun þrátt fyrir miklu meiri vinnu. Skólastjórnendur tóku við auknum fjölda nemenda en urðu að sætta sig við minni fjárframlög.
Vegna framhaldsskólanna urðu ekki þúsundir ungmenna félagslega úti þegar atvinnulífið hafnaði þeim eftir hrun.
Viðbrögð framhaldsskólanna við hruninu sýndi sveigjanleika og aðlögunarhæfni sem fá stofnanakerfi gætu leikið eftir. Geta framhaldsskólanna til að laga sig að aðstæðum verður ekki til úr engu heldur er um að ræða þróun yfir langan tíma.
Framhaldsskólinn sinnir til muna víðtækari hlutverki en að mennta ungt fólk. Framhaldsskólinn sinnir félagslegu hlutverki, sem sjaldnast er til umræðu.
Þegar ,,sérfræðingar" sem augljóslega koma ekki úr röðum framhaldsskólakennara taka sér fyrir hendur að vinna að stefnumörkun í menntamálum er hætt við að tillögurnar verði dáldið út úr kú, svo ekki sé meira sagt.
Það er aftur umhugsunarefni fyrir framhaldsskólakennara og samtök þeirra hvers vegna liðið sem stóð fyrir hruninu skuli komast upp með að búa til menntastefnu sem rústar kerfinu sem bjargaði unga fólkinu frá afleiðingum hrunsins.
Athugasemdir
"Samráðsvettvangurinn" leggur upp með McKinsey-Enron skýrsluna að leiðarljósi en í henni er allsherjargreiningin á íslensku efnahagslífi lítil framleiðni.
Samráðsteymið ber því saman útgjöld til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Við erum vissulega yfir meðaltali og þá er lága framleiðnin fundin.
Meðal þess sem þeir gleyma að taka með í reikninginn er að meðalaldur íslensku þjóðarinnar er mun lægri en hinna Norðurlandaþjóðanna. Hér er einfaldlega hlutfallslega mun fleira fólk á skólaaldri en á hinum norðurlöndunum enda draga þeir það fram sjálfir að útgjöld pr. nemanda eru minni á framhalds- og háskólastiginu án þess - að því er virðist - að átta sig á því að stóra greiningin er tóm þvæla.
Tillögur til úrbóta miða svo að því að leysa framleiðnivandann sem er einfaldlega ekki til staðar í raunveruleikanum. Það er heilmikið að í íslensku menntakerfi en það er enginn framleiðnivandi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.