Sunnudagur, 12. maí 2013
Kostir Íslands milli Ameríku og Evrópu
Sjötíu og þriggja ára afmæli hernáms Breta gekk hljótt yfir fyrir tveim dögum. Bretar hernámu Ísland til að verða á undan öðru stórveldi í álfunni, Þýskalandi, sem réðst inn í Danmörku og Noreg mánuði áður, í apríl 1940.
Bretar voru komnir að fótum fram í stríðsbyrjun og hernám Íslands var meira en þeir gátu vel staðið undir. Ári síðar leystu Bandaríkjamenn þá af hólmi og Bretar gátu flutt lið sitt til að stríða nær Evrópu.
Eftir stríð var Evrópa í rúst og stórveldi utan álfunnar, Bandaríkin og Sovétríkin, réðu ferðinni í alþjóðamálum. Til að bæta stöðu sína reyndu gömlu evrópsku stórveldin að smíða sér samráðsvettvang, sem í fyllingu tímans fékk heitið Evrópusambandið.
Ísland varð legu sinnar vegna á miðju Atlantshafi nauðugt viljugt fylgiríki Bandaríkjanna. Íslensk utanríkismál hverfðust um afstöðuna til herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Ríkisstjórnir urðu til og sprungu vegna hersins.
Þegar Bandaríkin ákváðu með skömmum fyrirvara að taka staf sinna og hatt, árið 2006, myndaðist valdapólitískt tómarúm. Inn í það tómarúm smaug Samfylkingin með þá stefnu að Ísland ætti að verða viðhengi Evrópusambandsins.
Rétt eins og þolrif Breta voru reynd til hins ýtrasta með hernámi Íslands fyrir 73 árum er Evrópusambandið heldur veiklulegt í okkar heimshluta. Grænlendingar eru eina þjóðin sem gengið hefur út ESB, Færeyingar láta sér ekki til hugar koma að ganga inn og Norðmenn felldu aðild í tvígang, 1972 og 1994.
Söguleg og utanríkispólitísk greining hlýtur að leiða til þeirrar niðurstöðu en að Ísland eigi ekki heima í Evrópusambandinu.
Nærtækasti kostur Íslands í utanríkismálum er byggja á samstarfi við nágrannaþjóðir okkar. Þegar misráðin ESB-umsókn Samfylkingar verður afturkölluð er hægt að snúa sér að því verkefni.
Athugasemdir
Í mínum huga er það forsenda til að hægt sé að starfa óhindrað að uppbyggingu íslensks samfélags.
Helga Kristjánsdóttir, 12.5.2013 kl. 11:57
Staðreyndin er þessi: Ísland hefur verið í miklum samskiptum og sambandi við Evrópu frá því að land byggðist. Evrópa er lang, lang, lang mikilvægast samskiptasvæði Íslands, viðskiptalega, félagslega, menningarlega - og bara allrahanda lega. Vera BNA hérna uppá heiði er algjör neðanmálsgrein sögulega séð í heildarmynd. Þó vissulega hafi vera þeirra haft spillandi áhrif og ýtt undir yfirgang og ofstopa Framsjallaelítunnar í landinu.
Önnur staðreynd: Þegar íslendingar ösnuðust til að slíta sambandi við Danmörku í skyndi til að hlaupa uppí faðm BNA - og stofnun svokallaðs ,,sjálfstæðis" fyrir og um 1940, þá eru hugmyndir margra innbyggjara afar sérstakar og með öllu óraunhæfar. Það er engu líkara en sumir innbyggjarar hafi haldið að þeir gætu bara lifað hér á skeri í algerri einangrun án þess að hafa samskipti við nokkurn mann utan skersins. Gætu bara lifað á genatískum frábærleika og yfirburðum.
Afskaplega sérstök hugmyndafræði sem umtalsvert erfitt er að skilja almennilega núna. Slíkt var óraunsæið.
Nú nú. Hvað skeður svo eftir svokallað ,,sjálfstæði"? Jú, Ísland gerist aðili að nánast öllum samskiptatækjum Evrópu með einum eða öðrum hætti. Norðurlandasamstarf, EFTA, EES o.s.frv. o.s.frv.
Aðild að ESB verður bara punktur aftan við langa þróun og er í raun óhjákvæmilegt. Þ.e.a.s. ef Ísland ætlar sér að vera sjálfstætt ríki af einhverju viti. En sem kunnugt er þá er aðild að ESB krúsíalt fyrir ríki því aðildin eykur og styrkir sjálfstæði þeirra og fullveldi.
Þessa þróun verður eigi hægt að stoppa. Það er hægt að tefja og hindra aðild tímabundið með tilheyrandi skaða fyrir land og lýð - en ekki stoppa. Er ekki hægt að stoppa þróunina.
ESB er bara samskiptatæki ríkja Evrópu í takt við tímana. Farvegur fyrir samskiptaferli. Álíka og síminn á sínum tíma. Eða internetið.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.5.2013 kl. 01:39
Ps. þ.e.a.s. að Íslensk yfirvöld eftir og uppúr seinna stríði - þau féllu strax frá einangrunar kenningunni sem var svo ríkjandi á sínum tíma í aðdraganda ,,sjálfstæðis". Féllu frá því. þetta sem margir eru enn að tala um, þ.e. að ísland eigi að vera eitt á báti einhversstaðar og ekki hafa samskipti við neinn og ekki taka þátt í neinu með vondum útlendingum o.s.frv. - þessu hefur fyrir langa löngu verið hafnað. Íslensk stjórnvöld eftir stríð sáu að sjálfstæði Íslands fengi ekki staðist ef einangrunar-kenningin ætti að ráða. Ísl. stjórnvöld fyrritíma brugðust við alþjóðlegri þróun með þáttöku í ýmsum samstarfsferlum Evrópu.
Það er nákvæmlega sama staða uppi núna. Aðild að ESB er krúsalt nauðsynleg fyrir landið og lýðinn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.5.2013 kl. 01:45
Það er kannski ekki réttlátt að bera saman neitun Noregs og kannski Bretlands að ESB; af því að þessar þjóðir eru með það stór hagkerfi / íbúafjöldinn er það mikill í þessum löndum.=Þeir þurfa ekki á öðrum að halda.
Litla Ísland þarf að tengjast stærra hagkerfi vegna sinnar smæðar.
(Ísland er með minnsta hagkerfi í heimi).
Jón Þórhallsson, 13.5.2013 kl. 08:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.