Laugardagur, 27. apríl 2013
Hrun vinstriflokkanna
VG og Samfylking tapa hlutfallslega meira fylgi í kosningunum 2013, gangi spár eftir, en Sjálfstæðisflokkurinn vorið 2009 - í kosningunum strax eftir hrunið. Úrslitin eru því merkilegri að þjóðarbúið stendur þokkalega, og afbragðsvel í samanburði við flest Evrópuríki.
Vinstriflokkarnir njóta ekki stöðu efnahags þjóðarinnar. Pólitísk orðræða ríkisstjórnarinnar gekk enda mest út á það að án aðildar að Evrópusambandinu væri ekki hægt að reka hér fullveðja þjóðfélag. Þegar almenningur sér í kringum sig bærilegt og batnandi efnahagsástand og fréttir af hörmungum í Evrópusambandinu þá verður pólitík vinstriflokkanna giska ótrúverðug.
Fullveldið, eins og það nýttist okkur í Icesave-deilunni, og krónan eru meginforsendur endurreisnar efnahags þjóðarinnar. Ríkisstjórnin vildi hvorttveggja feigt, fullveldið og krónuna.
Atlagan að stjórnarskrá lýðveldisins undir lok kjörtímabilsins staðfesti þá ásýnd vinstriflokkanna að pólitík þeirra væri ekki í þágu þjóðarinnar heldur í beinni andstöðu við þjóðarhagsmuni. Þjóðin vildi staðfestu og ábyrgð en vinstriflokkarnir buðu upp á hringl með stjórnarskrá og stjórnskipulega upplausn.
Þjóðin tók áhætt með því að kjósa vinstriflokkana til valda vorið 2009. Vinstriflokkarnir stóðu ekki undir lágmarksvæntingum og fá þess vegna reisupassann fjórum árum seinna. Þannig virkar lýðræðið.
Landsmenn ganga að kjörborðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.