Málefni, persónur og pólitík

Veik staða Sjálfstæðisflokksins stafar af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi skortur á uppgjöri við hrunið. Það uppgjör átti að vera tvíþætt, við pólitíkina sem leiddi yfir okkur hrunið annars vegar og hins vegar við hrunverjana innan flokksins, til dæmis Guðlaug Þór Þórðarson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Í öðru lagi stendur skortur á staðfestu Sjálfstæðisflokknum fyrir þrifum. Þessi skortur kemur fram í tveim stórum málefnum á kjörtímabilinu, Icesave-málinu og afstöðunni til ESB-umsóknar Samfylkingar.

Eindregin afstaða flokksmanna í þessum fullveldismálum fékk ekki hljómgrunn hjá forystu flokksins sem var tvístígandi og sló úr og í. Þegar Bjarna mátti vera löngu ljóst að aðeins einörð afstaða í ESB-málinu gat komið í veg fyrir stórflótta kjósenda frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins þá kaus formaðurinn að viðra sig upp við Samfylkinguna.

Hanna Birna ber ekki ábyrgð á hrun-uppgjörinu sem aldrei fór fram og ekki heldur ber hún ábyrgð á skorti á staðfestu í ESB-málum. Það er formaðurinn, Bjarni Benediktsson, sem ber aðalábyrgðina.

Bjarni Benediktsson telur sér til tekna að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði ekki á hans vakt. Eini hópurinn sem hótaði klofningi var litla klíkan í kringum Benedikt Jóhannesson, Þorstein Pálsson og Ólaf Stephensen sem óð og uppvæg vill Ísland inn í Evrópusambandið. 

Bjarni fékk sitt tækifæri til að endurreisa Sjálfstæðisflokkinn. Þjóðin hefur þegar fellt sinn dóm þótt niðurstaðan verði ekki formlega kynnt fyrr en að kveldi kjördags 27. apríl.


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: rhansen

það væri samt stórslys ef Bjarni hætti fyrir kosningar ..hvað sem á gengur !

rhansen, 12.4.2013 kl. 09:53

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það er svakalegt að eftir að Hanna Birna kemur inn sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins þá hrynur fylgi hans. Ef hún hefði ætlað að fara fram þá átti hún að gerða það í síðasta lagi á síðasta Landsfundi. Nei það gerði hún ekki og sagði að um það hefði ´verið kosið á fundinum þar á undan. Síðan stýrir kosningabaráttunni nú kosningastjóri Hönnu Birnu. Get tekið undir að þar virðist fara mjög  óreynd manneskja. Harðlínumennirnir í ESB málinu gátu ekki sýnt skynsemi og þar með fór stór hópur sem vill skoða ESB samninginn yfir í Framsókn. Síðan var annar öfgahópur með Ólaf Arnarsson í forystu og vildi láta banna verðtrygginguna. Það var að sjálfsögðu fellt, enda loddaraskapur. Ef ég vil taka verðtryggð lán þá vil ég fá að ráða því. Nú kemur í ljós að Ólafur sem eftir því sem ég man að var og sennilega er starfsmaður Jóns Ásgeirs hefur sennilega verið sendur inn á Landsfundinn enda höfðu margir orð á því hvernig hann hagaði starfi sínu.

Þið Ólafur eruð þó ekki báðir orðnir starfsmenn Jóns Ásgeirs?

Sigurður Þorsteinsson, 12.4.2013 kl. 10:05

3 Smámynd: Ívar Pálsson

Sigurður, ef 75% Sjálfstæðisfólks fyrir landsfund vildi ekki Ísland inn í ESB, þá gætu þeir varla kallast harðlínu- öfgahópur sem vildu aðlöguninni að ESB yrði hætt. Enda fór sú kosning á afgerandi hátt, loks í samræmi við vilja fjöldans.

„Skynsemin“ sem þú vildir að sýnd yrði var einlitt búin að eiga sér stað allt of lengi, þar sem blessun var lögð yfir Össurar-hlé á aðlöguninni, en henni yrði haldið áfram til loka. Þar með væri ríkisstjórnin búin að aðlaga Ísland að ESB og gera afarsamning (líkt og Svavar forðum) sem þjóðin myndi reyna að vinda ofan af, en gengi illa, því að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði ráðgefandi og eflaust með leiðandi spurningu eins og í stjórnarskrármálinu, þar sem aldrei var spurt hvort þú vildir breyta stjórnarkránni eður ei.

Ívar Pálsson, 12.4.2013 kl. 11:46

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Landsfundurinn var með það á hreinu: Ef frekari aðlögun að ESB ætti að eiga sér stað, þá yrði að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ívar Pálsson, 12.4.2013 kl. 11:48

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ívar það vill svo til að ég er sammála þessum 75%, tel að viðræður við ESB nú muni ekki skila okkur þeim ávinningi sem æskilegur væri. Fyrir utan að ég tel að önnur mynt og annað form væri okkur hagkvæmara, um það hef ég margsinnis bloggað. Hitt er það að þú getur átt viðræður við fólk án þess að reka þá á dyr sem ekki eru þér sammála. Þannig á ég marga vini bæði innan Sjálfstæðisflokksins og í öðrum flokkum sem vilja skoða niðurstöðu þessarra samninga við ESB. Innan þeirra raða eru menn sem telja að við eigum ekki að ganga í ESB. Harðlínuafstaðan er alveg skýr, en þetta útspil á Landsfuninum var flokknum ekki til góða. 

Sigurður Þorsteinsson, 12.4.2013 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband