Starfsdagar og endurmenntun kennara

Blogg frá í gær um starf grunnskólakennara og stöðu þeirra vakti nokkur viðbrögð. All margir kennarar sendu inn athugasemdir og voru ekkert á því að láta höfundinn eiga inni hjá sér, - enda hafði hann ekki unnið til þess. Það vekur aftur athygli að þrátt fyrir að eyða töluverðu púðri í skrifin er ekki að finna þar tillögur til að mæta ófermdarástandinu.

Tilefni bloggsins var smáprent sem Félag grunnskólakennara gaf út og dreifði til almennings. Í ritinu er gerð nákvæm grein fyrir vinnutíma kennara, svo nákvæm að lesendur fá að vita að 9,14 klst. á viku fara í verkstjórn hjá kennurum og 5,72 í lögbundna kaffitíma og frímínútur.

Allt er þetta upplýsandi fyrir foreldra. En foreldra fýsir þó meira að vita um starfsdagana yfir veturinn þegar börnin eru send heim og hvers vegna ekki megi afnema þá. Smáprent kennara þagði þunnu hljóði um starfsdagana. Höfundur ályktaði út frá texta um endurmenntun kennara að starfsdagarnir væru nýttir í endurmenntun. Það var leiðrétt og sagt að téðir dagar væru nýttir í skipulagsmál og ýmislegt er lyti að stjórnun og áætlanagerð.

Þau rök að nauðsynlegt sé að loka grunnskólum til að ræða skipulag, stjórnun og áætlanir halda ekki. Það vita allir sem hafa komið nálægt svona vinnu að einfalt er að sinna henni í smærri hópum. Og ef bráðnauðsynlegt er að kennarar hafi heila daga til að fara yfir einhver málefni þá eru dagar til þess á vorin og haustin þegar börnin eru í fríi.

Engir kennarar af þeim fjölmörgu sem tóku til máls höfðu fyrir því að útskýra hvernig kennarar, sem samningsbundið eiga að stunda endurmenntun í 102 - 150 klst. yfir árið, fara að því að koma öllum þessum vinnustundum fyrir á skólaárinu ofaná alla þá yfirvinnu sem þeir leggja á sig til að fá lengra jóla- og páskaleyfi, eins og stendur skrifað í smáprentinu.

Það virðist vera nægur vilji til sveigjanleika á vinnutíma kennara þegar kemur að endurmenntun. Betur væri að þessi sveigjanleiki yrði fyrir hendi þegar rætt er um starfsdagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Gunnarsson

Ertu að meina það í alvöru að þú skiljir ekki hvernig kennari getur komið hluta af þessum 102 til 150 klst fyrir á kvöldnámskeiðum, helgarvinnu o.s.frv.? 

Lastu annars ekki vandlega svar Hafsteins Karlssonar um starfsdaga?

Valdimar Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Og er þá nokkuð mál að koma starfsdagavinnunni þannig fyrir að ekki þurfi að loka skólum?

Páll Vilhjálmsson, 21.2.2007 kl. 20:31

3 Smámynd: Andrés.si

Sæll Pall.  Eftyr greinina ígær eða fyrra dag ákveði ég að senta mail til útlanda varðandi samburð á tímum, launum, heima vinnu, starsdagar.  Hef reyndar heyrt frá kennurum erlendis að það er luxus að vera kennari á Íslandi.

Andrés.si, 21.2.2007 kl. 20:52

4 identicon

Það getur vel verið að starfsdagar í skólanum séu of margir og hægt sé að skipuleggja þá með öðrum hætti. Oft skilur maður ef fólk er að mæðast vegna þeirra ef menn eiga erfitt með að koma yngri nemendum í pössun o.s.frv. Mig langar að segja ykkur hvernig starfsdagarnir eru hjá okkur.

- 5 dagar áður en grunnskólinn hefst

- 1 dagur seint í nóvember - undirbúningur þemadaga

- 1 dagur strax eftir áramót

- 1 dagur fyrir foreldraviðtöl eftir prófaviku

 - 1 dagur fyrir skólaslit

- 4 dagar eftir skólaslit

Eflaust hefði verið hægt að skipuleggja þetta betur en 9 af þessum 13 starfsdögum eru fyrir skólasetningu og eftir skólaslit. Þá eru 4 dagar inn á skólatíma.  Samkvæmt lögum eiga þeir að vera 5 inná skólatíma en við tökum einn og færum afturfyrir skólaslit.

Ég hef ekki reynslu af því að starfsdagar séu nýttir í endurmenntun. Dæmi um endurmenntun okkar er að um daginn fórum við öll á skyndihjálparnámskeið utan skólatíma. Í staðinn dregst það af endurmenntun sumarsins. Persónulega finnst mér það afar eðlilegt að vinna af sér hluti fyrirfram þ.e. ef það er utan skólatíma.

Svo finnst mér líka afar eðlilegt að taka út frí í staðinn fyrir yfirvinnukaup. Þegar ég var í Noregi tíðkaðist hér og þar að borga ekki yfirvinnu og tók fólk yfirvinnuna sína út í fríum.

Kennarastarfið er áhugavert, fjölbreytt og skemmtilegt og hvet ég fólk til að kynna sér starfið, koma í heimsókn í skólanna og sjá hvað er í gangi.

Viddi kennari

Viddi (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 21:54

5 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Óskaplega er snautlega komið fyrir blaðamönnum ef heimildavinnan er almennt ekki betri en þetta. Ályktanir á sjömílnaskóm og svo hangið eins og hundur á roði á þeim fáu bitum sem ekki koma ómeltir upp um kokið jafnharðan aftur.

Kjarasamningar við kennara tryggja ákveðinn fjölda nemendadaga í skólum á ári. Kennari þarf síðan að halda öllu gangandi, fimm daga í viku, kenna margar kennslustundir á dag, undirbúa þær, vinna úr þeim auk þess að sinna öðrum störfum, fundarsetu o.fl.

Að auki þarf kennari að hefja hverja önn á því að gera áætlanir um kennslu annarinnar (gera þarf áætlun fyrir hvern námshóp og oft einstaka nemendur), finna, meta og velja námsefni, meta námsáætlanir og kennslu reglulega, gera upplýsingar aðgengilegar fyrir aðstandendur, halda viðtöl, semja próf, fara yfir próf og svona mætti lengi telja.

Krafa á hendur kennara um mat og áætlanagerð er margfalt ítarlegri en til flestra annarra stétta. Til að kennari geti sinnt þeirri kröfu svo sómi sé að er skólaárið lengt umfram fjölda nemendadaga og settir inn starfsdagar. Hefur það m.a. í för með sér að þessi vinna er unnin jafnt og þétt en ekki í átaki á haustin eða vorin, og við það verður þessi vinna skilvirkari og marktækari.

Það er afar þreytandi, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að horfa upp á vinnuframlag kennara tortryggt opinberlega þegar það er sólu særra að laun miðað við ábyrgð og vinnuframlag eru smánarleg og til þess eins fallin að hrekja fólk úr stéttinni.

Agaðir kennarar sem notað hafa starfsdagana vel til þess að tryggja að þeir hafi allar upplýsingar við hendina í starfi sínu gætu þá freistast til að taka mun betur launuð störfin af hysknum blaðamönnum sem eru andlega latir þegar kemur að heimildavinnu. Gæfan forði okkur frá því að lati blaðamaðurinn taki starf kennarans í kjölfarið.

Ragnar Þór Pétursson

Ragnar Þór Pétursson, 21.2.2007 kl. 22:06

6 identicon

semsagt bara Agaðir kennarar sem nota starfsdagana vel. Fróðlegt.

skh (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 22:21

7 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Á nákvæmlega sama hátt og aðeins agaðir lesendur skrifa ígrundaðar athugasemdir.

Ragnar Þór Pétursson, 21.2.2007 kl. 22:25

8 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Það er skemmtilegt að fá gusur yfir sig frá jafn vel skrifandi manni og Ragnari Þór. Myndin sem hann dregur upp af kennarastarfinu er eflaust raunsönn, þótt mér sé til efs að kennarar undirbúi sig jafn ítarlega fyrir hverja önn og hann vill vera að láta. Kennarar koma sér upp verklagi og endurnýja námsefni jafnt og þétt. Vitanlega er heilmikil grunnvinna þegar menn byrja að kenna nýja námsgrein en það heyrir til undantekninga að kennarar taki að sér nýja námsgrein á hverri önn. Engu að síður er kennsla krefjandi starf og enginn ágreiningur milli mín og kennara um það.

Orð Ragnars Þórs um kröfu á hendur kennurum um áætlanagerð og mat eru athyglisverð og kalla á spurningu. Hvers vegna er þessi krafa um áætlanagerð og mat (og hvaða mat er verið að ræða um)? Væntanlega þjónar það einhverjum tilgangi?

En svo að það sé á hreinu með starfsdagana. Getur Ragnar Þór, eða annar kennari kunnugur, svarað því hvers vegna kennarar og samtök þeirra hafa ekki ljáð máls á því að leggja af starfsdaga þar sem nemendur eru sendir heim?

Páll Vilhjálmsson, 21.2.2007 kl. 22:56

9 identicon

Þú talar aðeins um starfsdagana, en hvað með vetrarfríin? Þú hlýtur að hafa eitthvað um þau að segja.

 Kv. Viddi kennari

viddij (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 23:11

10 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Óþægindin við starfsdagana er að þeir dúkka upp einn og einn. Vetrarfrí eru samfelld. Ég veit að starfsdagarnir eru settir á heimasíður skólanna en maður er ekki reglulega að fletta upp á skóladagatalinu.

Páll Vilhjálmsson, 21.2.2007 kl. 23:36

11 identicon

Kann að vera að kjaravandi kennarastéttarinnar liggi annars vegar í einsetningu skólans og hins vegar í því að þeir eru of uppteknir af öðru en því að kenna? Skólastarf hefur þróast mikið á undanförnum árum og margt af því hefur ekkert með hefðbundna kennslu að gera. Þurfa kennarar eitthvað að koma að tómstundastarfi eða ferðalögum nemenda? Geta ekki einhverjir utan skólanna skipulagt slík? Það er hálfsorglegt hvernig komið er fyrir þessari mikilvægu stétt á síðari árum, sem dró vagninn í íslensku þjóðfélagi, ásamt læknum og lögfræðingum, langt frameftir tuttugustu öldinni.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 23:48

12 Smámynd: Davíð Örn Jónsson

Það er endalaust hægt að tala um vandamál kennara.  Kennarar hafa léleg laun en það er líka ástæða fyrir því.  Ástæðan er þetta forna stéttarkerfi sem enn er notast við.  Mér finnst það algjörlega út hött að enn skuli vera samið um laun og vinnutíma í kjarasamningum.

Að láta stéttarfélag, sem oftast er stýrt af fólki með annarlega hagsmuni, semja um hámarkslaun og vinnutíma er fáránlegt.  Auðvitað á hver kennari að semja við sinn skólastjóra um laun og vinnutíma.

Það er ekki svo langt síðan ég var í þessu námi og ég get sagt það um íslenska grunnskólakerfið að það liggur í rústum.  Það þarf að endurskoða skipulagið, leggja niður þessa stéttarbaráttu kennara og endurskrifa námsefnið.  Það þarf að fá góða kennara til að kenna og losna við lélega kennara.

Því miður hefur engin íslenskur stjórnmálamaður þorað að hjóla í þessi mál og það bitnar bara á yngstu þegnum þjóðarinna sem og kennurum sem eiga ekki þola þessi lúsarlaun.

Davíð Örn Jónsson, 22.2.2007 kl. 02:07

13 Smámynd: Hafsteinn Karlsson

Sæll Páll

Mér sýnist vandamál þitt liggja í því að þú ert ekki viðbúinn því þegar tilkynning frá skólanum berst um starfsdag og ég skil svo sem að menn liggi ekki endalaust yfir skóladagatalinu. Ég vil benda þér á tvær leiðir til að einfalda málið og leysa:

1. Farðu yfir skóladagatalið í skólabyrjun og settu þá daga sem þú þarft að muna eftir í dagatalið í tölvunni, símanum eða því sem er á ísskápnum. Láttu tölvuna eða símann minna þig á með hringingu.

2. Semdu við skólann um að fá að hafa barnið í dægradvölinni eða skóladagvistinni þegar starfsdagur er og þú getur ekki leyst málið með öðrum hætti.

Það hefur ekkert verið til umræðu í kjaraviðræðum held ég að taka burt þessa starfsdaga og vinnuveitendur kennara eru ekkert á því, enda held ég að þeir átti sig á þörfinni. Ef foreldrar lenda í vandræðum með pössun, þá er hægt að leysa það á annan hátt og er víða gert s.s. með dægradvölinni.

Hvet til umræðu um kennsluna fremur um umbúðirnar og því hef ég boðið til málþings um skólamál á blogginu. Allir velkomnir. 

Hafsteinn Karlsson, 22.2.2007 kl. 07:00

14 Smámynd: Ragnar Þór Pétursson

Það læðis að mér sá grunur að málshefjandi miði hugmyndir sínar um kennslustarf við þá tíma þegar barsmíðar voru liður í betrun óknyttadrengja.

Það er löngu liðin tíð að kennarar þylji endurtekið efni upp við töflu. Með kröfu um einstaklingsmiðað nám þarf að huga að námi hvers einasta einstaklings. Það er því enginn hörgull á viðfangsefnum á starfsdögum. Fagkennari í meðalskóla er máske að kenna 100 nemendum í árgangi sama fagið. Margfaldaðu það með 5 eða 6 til að hafa yfirsýn yfir alla kennslu hans. Vissulega eykst hæfni hans með reynslu en það er einfaldlega ekki svo að þeir reyndustu og hæfustu sitji auðum höndum vegna þess að þeir geti það, þeir eru svona hæfir vegna þess að þeir leggja sig fram - og trúðu mér, þeim legst alltaf eitthvað til.

Málið snýst ekki um störf kennara. Málið snýst um það að þú ert ósáttur við óþægindin af því að börn fái ekki skólavist á starfsdögum. Það eru follkomlega skiljanlegar mótbárur af þinni hálfu, en koma kennurum sem slíkum ekki við.

Kennsla er ákveðinn fjöldi daga á ári. Að auki er þess krafist af kennurum (en starfið krefst þess ef vel á að vera) að unnið sé tiltekið magn af undirbúningi og mati. Það er alfarið mál sveitarfélaga hvað gert er við börnin á meðan kennarar sinna þessum störfum.

Sveitarfélögin gætu sem hægast skipulagt starfið þannig að nemendur sæktu námskeið eða færu í ferðalög nú eða bara í bíó þessa daga sem kennarar eru í öðrum störfum.

Það myndi að vísu kosta peninga. En að skólayfirvöldum átt þú að beina umkvörtunum þínum.

Ragnar Þór Pétursson, 22.2.2007 kl. 09:33

15 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég þakka Valdimar, Gústaf, Ragnari Þór, Vidda, Hafsteini og Davíð Erni athugasemdir.

Eftir því sem liðið hefur á umræðuna, sem hófst í öðru bloggi hér að neðan, hefur hún orðið staglkenndari og skal ég játa á mig minn hlut þar.

Starfsdagar sem voru hluti af minni upphaflegu gagnrýni urðu að aðalmálinu, sem er heldur leitt. Aftur: Ég ber stóran hluta ábyrgðarinnar á því.

Ég ætla að freista þess í væntanlegu bloggi að víkka sjónarhornið í umræðunni þótt ég taki þá áhættu að festast í hlutverkinu óvinur kennara númer eitt.

Bless í bili.

Páll Vilhjálmsson, 22.2.2007 kl. 17:01

16 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

 

Páll.

Komdu nú með launaupphæð sem þú telur sanngjarna fyrir kennarastarf frá 8 - 16.

Ég vill líka benda þér á að ég tel þá líka vera sanngjarna kröfu að ALLIR kennarar fái vinnuaðstöðu í skólahúsnæðinu, svona til að vinna aðra vinnu.

Svo vill ég líka finna út hvað þér finnst eðlilegt að kennarar kenni margar 40 mínútna kennslustundir á þessum tíma.  Við erum sennilega að tala um möguleika á 42 kennslustundum í vikunni.

Svo vill ég líka vita hvað þér finnst að ég sem skólastjóri eigi að hafa mikinn tíma til að funda með mínu fólki, þú sem hefur inn í skóla komið veist að þar er ríkjandi vinnuplan sem heitir stundatafla, þigg þínar ábendingar í því.

Ekki væri nú verra að vita hvað þér finnst að kennarar eigi að gera í vinnunni.  T.d. - eiga þeir að fara yfir verkefni, standa í foreldrasamskiptum, kynna sér nýjungar, búa til próf, fara yfir próf, undirbúa kennslu og samþættingu kennsluefnis.

Starfsdagar pirra þig.  Hvers vegna?  Ekki útaf því að kennarar vinni ekki þá daga, því get ég lofað.  Kennarar skila nær allir 8 - 16 vinnu á slíkum dögum, því þá er undirbúningstími þeirra og heimavinna felld að hluta inn í vinnudaginn.  Þannig að þú vilt frekar frá kennsludaga?  Er það kannski vegna þess að þá þarf að finna aðrar leiðir til að hafa ofan af fyrir börnum þínum.  Starfsdagar eru dagar þar sem skipulag skólans og verkefnavinna starfsfólks fer fram.

Þú sem náðir því að vinna hálfan vetur í grunnskóla veist náttúrulega allt um það að kennarar eru aðallega uppteknir við að kenna.  Annars ert þú að lýsa öðrum veruleika en ég veit til, eftir 13 ára starf í skóla. 

Bíð spenntur eftir því að heyra þínar hugmyndir.

Treysti því að þú sért ekki einn af þeim hverúlöntum sem tuðar bara upphátt, MJÖG hátt, án þess að vita forsöguna.

Þegar kjarasamningar kennara voru settir í þennan farveg var verið að koma til móts við kröfur, aðallega samfélagsins, um aukið þróunarstarf, aukin samskipti við heimilin, meiri upplýsingaskyldu auk lengingar skólaárs og skóladaga.

Vinnutímarammi kennara er umsamin af tveimur aðilum, margt í þeirra samningum koma frá þeim tíma þar sem vinnuveitendur tímdu ekki að borga í laun, en buðu upp á sveigjanleika í störfum. 

Út frá þessu þarf að vinna.  Alhæfingar og dónaskapur hjálpar engum.  Ég hef t.d. aldrei skilið hvers vegna flugmenn eru með hærri laun en kennarar.   Þeir vinna í ca. 10 mínútur á dag, setja svo á Auto-pilot.  Viddi Eiðamaður talaði um bóndann.  Snilld strákur!

Ég held nefnilega að það sé bara kominn tími á að vita hvaða peninga er verið að tala um.  Get vottað það að margir kennarar sem ég þekki eru að fá útborgað vel undir 200 þúsundum.  Yfirvinna meðtalin, langt undir!  Ég er sannfærður um það að ef að sveitarfélögin sýna fram á það að þeir séu til í að greiða verulega betur fyrir vinnutíma milli 8 og 16 munu menn taka því.

Vandamálið verður þá að mínu viti það að þar með er enginn sveigjanleiki gefinn fyrir vinnu umfram það.  Það þýðir þá að mjög margt mun tapast, því undirbúningur og úrvinnsla kennslunnar eru í dag orðinn stórir þættir starfsins, af eðlilegri og sjálfsagðri kröfu foreldra.

Ekki viljum við að skólinn verði bara dagvistarstofnun barna, þar sem hágæða kennsla og öflug nýsköpun skiptir engu máli?

Hvar lærðu útrásarsnillingarnir okkar að lesa og skrifa?  Maður þorir eiginlega ekki að tala um reikninginn.

Páll.  Tillögur takk.  Er í ágætri aðstöðu til að koma upplýsingunum áfram!

Magnús Þór Jónsson, skólastjóri í Snæfellsbæ.

Magnús Þór Jónsson, 22.2.2007 kl. 19:16

Magnús Þór Jónsson, 22.2.2007 kl. 19:21

17 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Magnús Þór

Ég er sammála að við ættum að leggja upphrópanir til hliðar í þessari umræðu. Ég var að setja blogg á síðuna þar sem reynt er að nálgast málið frá annari hlið.

Því miður get ég ekki komið með tillögu um hæfileg laun til kennara, til þess veit ég of lítið um launakjör almennt. En tek undir með þér að launin sem þú nefnir, aðrir kennarar hafa teflt fram í umræðunni, eru alltof lág.

Ekki heldur get ég komið með ráð til þín um heppilegan fjölda funda skólastjórnenda og kennara. Brjóstvitið segir mér þó að í litlum skólum þarf færri fundi en stórum. En það er kannski bara misskilningur.

Lifðu heill.

Páll Vilhjálmsson, 23.2.2007 kl. 00:50

18 Smámynd: Andrés.si

Magnús. Samt eru skóladagar sem sagt vinnu dagar kennara færi hér en erlendis, þar sem á meðal annars foreldraviðtöl tekur ekki heilan  dag heldur fer það fram amk 4 sinum á ári eftyr vínnu tíma foreldra. 

Andrés.si, 28.2.2007 kl. 04:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband