Sunnudagur, 10. mars 2013
Leiðin frá Evrópu
Á víkingaöld, um 800 til 1050, sigldu norrænir menn vestur yfir haf til Færeyja, Íslands, Grænlands og meginlands Ameríku í nokkurri vissu um að geta snúið aftur. All nokkrir ákváðu búsetu í þessum löndum í stað þess að snúa tilbaka og eru Færeyjar og Ísland enn byggð norrænu fólki.
Víkingaöldin í evrópskri sögu er á milli hruns Rómarveldis og hámiðalda þegar lénsskipulagið fær þann svip sem það heldur fram að frönsku byltingunni seint á 18. öld.
Íslendingar fóru á mis við lénsveldið og stéttskiptinguna sem þeirri samfélagsgerð fylgir. Ægivald kaþólsku kirkjunnar var okkur líka nokkuð framandi, sem sést á því að íslenskum prestum og biskupum hélst á konum þótt kirkjan bannaði fjölskyldulíf klerka.
Samfélagið sem norrænir menn byggðu hér á landi var ólíkt því evrópska. Hér þróaðist hvorki hámenning né lágmenning, líkt og víðast á meginlandinu, heldur þjóðleg menning sem byggði ekki á aðgreiningu þjóðfélagshópa eða stétta heldur einsleitni. Félagsleg mismunun á grunvelli stétta var okkur framandi.
Leiðin frá Evrópu skilaði okkur samfélagi sem ekki hentar að setja í lítinn kassa hjá Evrópusambandinu.
Rennir stoðum undir sólstein víkinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Algjörlega ósammála þessu mati þínu.
Við Íslendingar erum Evrópuþjóð og við sem þjóð eigum heima í ríkasta og flottasta klúbbi í heimi, ESB, og þar eigum við að taka okkur stöðu sem þjóð meðal þjóða og tryggja um leið sjálfstæði okkar og fullveldi um ókomin ár.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 10.3.2013 kl. 19:53
Lénsskipulagið hét vistarbönd á Íslandi. Við sluppum ekki við kúgunina.
Steinarr Kr. , 10.3.2013 kl. 20:40
Megin stofn íslendinga kom hingað fyrir árið þúsund, en megin stofn Bandaríkjanna og Kanada komu þangað frá Evrópu fimm öldum senna, Við erum því í engu tilliti meiri Evrópumenn en þeir.
Við vorum svo lánsöm að geta hjálpað Bandaríkja mönnum og Bretum við að bjarga Evrópu frá sjálfri sér, og það er ekki að vita nema það gerist í hið þriðja sinn og því engum til hags að sleppa þeirri stöðu.
Hrólfur Þ Hraundal, 10.3.2013 kl. 20:43
Ekkert XL. Friðrik, þú veldur mér vonbrigðum, miklum vonbrigðum. Þar fyrir utan er skæði Þorvaldur mikli í flokknum.
Elle_, 10.3.2013 kl. 21:10
Alveg burtséð frá aðild eða ekki aðild að ESB er það staðreynd að 95% bænda á Íslandi á 18. öld voru ánauðugir leiguliðar.
Embættismenn og stórbændur voru íslenskur aðall sem fékk öll fríðindi fyrir syni sína í dönskum skólum en sluppu við að senda synina í stríð fyrir kónginn eins og dönsku aðalsmennirnir urðu að gera.
Ef leiguliði gerði jarðarbætur á koti sínu fékk hann ekkert í sinn hlut, eigandinn hirti ágóðann.
Það er ekki lengra síðan þetta ástand ríkti, að afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, var sendur sem ánauðugur vinnumaður frá 18 ára aldri gangandi yfir óbrúaðar ár alla leið frá Síðunni í Skaftafellssýslu suður í Garð á Rosmhvalanesi til þess að vinna í verinu yfir vertíðina og ganga sömu leið til baka í vertíðarlok til að færa húsbónda sínum afraksturinn.
Um miðja 19. öld voru menn dæmdir sakamenn fyrir það að hafa farið inn á afrétt í óleyfi húsbóndans.
Og enn eru til leifar af fríðindum íslenska aðilsins. Þegar sonur minn fór til náms í háskólanum í Horsens í Danmörku gróf hann það upp, að enn eru í gildi veruleg fríðindi fyrir syni Íslendinga, sem fæddust sem þegnar Danakonungs!
Sem þýðir að forréttindi íslenska aðalsins, sem ég telst til að þessu leyti, verða í gildi þar til mín kynslóð er öll komin í gröfina !
Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 22:41
Það er merkilegt hvað stór hluti af málflutnngi ESB andstæðinga sannast hrein og bein lýgi — hér gerir Páll það eina feðrina enn og Ómar og hver einasti sagnfræðingur landsins staðfestir lýgina.
Það er auðvitað þess vegna sem þeir vilja ekki að samningum verði lokið og umræðan þurfi þá að fara fram um staðreyndir en ekki hreinan tilbúning þeirra.
Helgi Jóhann Hauksson, 11.3.2013 kl. 00:55
Leiðinn frá Evrópu,er leiðin heim og verður það alltaf. Þótt margir hafi verið leiguliðar á jörðum sínum,sjómenn fiskað upp a lítinn hlut, þá varð hér til þjóðleg menning,ólík þeirri á meginlandi Evrópu.Hernig sem lífið gekk fyrir sig fyrr á öldum,varð til harðgert ósérhlífið fólk,hrjúft en hjartahlítt. Það hafði ekki hátt,þekkti ekki græðgi en laumaði spyrðu við húskofa ekkjunnar,eða barnmörgu fjölskyldunnar,svo lítið bar á.
Í dag er allt kallað forréttindi,ef íslenskur sjómaður fær skattafslátt,ef útgerðarmaður fiskar og rekur fyrirtæki sitt með hagnaði,ef bóndi fær styrki.Öfundin er allra kennda svæsnust og nærir vitringana sem vilja nota gráðuga,ja samkvæmt færslu Friðriks (,ríkasta og flottasta,klúbb í heimi) til ná sér niðri á þeim sem hafa mannað forsætisráðuneitið undanfarin 16,ár. Það heitir að tryggja fullveldið um ókomin ár! En munið fullveldið er rammíslenskt og við deilum því ekki með neinum,um ókomin ár.
Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2013 kl. 04:12
Leiðin(n)
Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2013 kl. 04:15
Ómar segist kominn af ánauðugum bændum en á efri árum er hann talinn til forréttindastétta. Þar með staðfestir hann greiningu mína að félagslegur hreyfanleiki var meiri á Íslandi en í lénskerfi Evrópu.
Páll Vilhjálmsson, 11.3.2013 kl. 07:02
Hvaða fullveldi ert þú að tala um Helga?
1262 gekk Ísland Noregskonungi á hönd með undirrituna Gamla sáttmála.
1350 varð Noregur og þar með Ísland hluti af Kalmarssambandinu og í framhaldi urðu Noregur og Ísland hluti af Danmörku.
1904 fær Ísland ákveðna heimastjórn en Ísland er áfram hluti Danmerkur og danski kóngurinn er þjóðhöfðingi Íslendinga. Frá 1350 voru alla tíð danskir hermenn á Íslandi og hér var danskur ríkisstjóri sem stjórnaði Íslandi frá Bessastöðum í umboði danska kóngsins.
1942 er Ísland hertekið af Betum og í framhaldi Bandaríkjamönnum.
1944 segir Ísland sig úr lögum við Dani og gera það þegar allir vissu að að Þjóðverjarvoru að yfirgefa Danmörku fyrir tilstuðlan Breta og Bandaríkjamanna sem leist ekkert á að Danir myndu stjórna öllu Norður Atlandshafinu eftir stríð með Færeyjar, Ísland og Grænland sem hluta að Danmörku.
2006 yfirgefur bandaríski herinn Ísland. Þá í fyrsta sinn frá 1262 er enginn erlendur hermaður undir vopnum á Íslandi, hermenn sem frá 1262 hafa stjórnað því sem þeir vildu stjórna á Ísland.
2007 þá má segja að Ísland sé frjáls fullvalda þjóð sem ráði sínum málum sjálf.
2008 missir Ísland efnahagslegt sjálfstæði sitt og lendir í höndum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Um ókomin ár mun sjóðurinn stjórna því sem hann vill stjórna eða þar til við höfum greitt til baka þau lán sem hann hefur lánað hingað.
Við Íslendingar höfum verið hluti af erlendum ríkjum eða hersetin frá 1262 að einu ári undanskildu. Ég hef því aldrei skilið þessa umræðu um fullveldi Íslands og sjálfstæði og ég skil ekki hvaða fullveli og hvaða sjálfstæði við erum að fórna þó svo við göngum inn í ESB og gerumst þar þjóð meðal þjóða. Í mínum huga þá væri sjálfstæðisbaráttunni endanlega lokið gerðum við það og sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar endanlega tryggt.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.3.2013 kl. 07:15
Sagnfræðiþekking Páls er ekki upp á marga fiska - sem sést af því að hann telur víkingatímabilið hafa verið milli hruns Rómarveldis og hámiðalda. Hann hefur einnig lítinn skilning á lénsskipulagi.
Víkingaöldin snérist um viðskipti fyrst og fremst - tækniþekkingin og fólksfjöldinn var afleiðing stóraukinna viðskipta á norðanverðu meginlandi Evrópu, samhliða ríkjamyndun á svæðinu. Frakkar á 7. og 8. öld, Bretar og Danir á 8. og 9. öld, mynda ríkjaheildir í fyrsta sinn. Fólksfjöldi vex hratt m.a. vegna tækniframfara í landbúnaði, og viðskipti stóraukast.
Danskir veiðimenn sigldu norður með Noregsströndum og þaðan til Íslands og þróuðu nýja skipategund sem opnaði fyrir viðskipti um allt norðanvert Atlantshafið. Þurrkaður fiskur, pelsvara, skinnavara, rostungstennur. Allt voru þetta verðmætar viðskiptavörur sem verslað var með allt suður til Miðjarðarhafs og jafnvel lengra.
Lénsskipulag reis í mörgum Evrópulöndum sem afleiðing af vopnaþróun, þar sem þungvopnaðir riddarar urðu undirstaðan í hernaði eftir því sem leið á miðaldir. Bretar fóru aldrei þessa leið og sluppu því við lénsskipulagið, en Frakkar, Þjóðverjar og sérstaklega Pólverjar fóru lengst í þessu skipulagi. Undir lok miðalda var lénsskipulagið að mestu horfið aftur, skiptin milli miðalda og nútíma snýst að mestu um endurheimt konungsvalds frá aðalnum (sbr. greifastríðin dönsku) og ef Pólland er undanskilið var lénsskipulagið horfið úr Evrópu fyrir 400 - 500 árum.
En Ísland var vissulega sérstakt á evrópskan mælikvarða. Hér var einstök stjórnskipan sem byggði á hreppunum og þekkist hvergi annars staðar. Hrepparnir eru eldri en kristnitakan og í tíundarlögum fengu þeir umráð yfir fátækratíund, eina land í heiminum þar sem kirkjan deildi tíund með veraldlegu valdi. Ísland var einnig frábrugðið að því leyti að hér var yfirleitt alltaf skortur á vinnuafli og offramboð af mat. Nánast öll önnur Evrópuríki voru yfirleitt með offramboð af vinnuafli og matvælaframleiðsla á mörkum þess að geta fætt alla íbúa.
Aðall með forréttindi er ekki það sama og lénsskipulag. Ísland hafði aldrei aðal með "forréttindi", þ.e.a.s. sérstaka stöðu gagvart lögum. Hér var aldrei stéttaskipting í líkingu við það sem þekktist annars staðar, en auðvitað voru til ríkir einstaklingar og ættir sem gátu hegðað sér eins og væru þeir aðall.
En Ísland er fyrst og fremst byggt af einstaklingum sem voru á kafi í alþjóðaviðskiptum, með sterk tengsl við Evrópu. Óhamingja Íslands var að þjóðin sjálf missti stjórn á viðskiptum með auðlindir sínar. Hvort aðgangur að Evrópubandalaginu sé til góðs eða ills fyrir Íslendinga er algjörlega óháð öllum viðvaningslegum sagnfræðivangaveltum, það er varla málstað andstæðinga til framdráttar að bera slíkar á borð.
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.3.2013 kl. 07:16
Friðrik heldur að það hafi verið erlendir hermenn á Íslandi frá 1262. Þetta er alrangt, Norðmenn beittu aldrei hervaldi hér (þeir beittu fyrir sig Íslendingum ef þurfa þótti) og fyrsta tilraun Danakonungs til að beita hervaldi á Íslandi er ekki fyrr en um 1550 (og fór illa fyrir fyrstu hermönnunum sem hér höfðu vetursetu - þeir voru allir drepnir fyrir aðild sína að aftöku Jóns Arasonar).
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.3.2013 kl. 07:19
Staðreyndir skipta engu máli þegar tilgangurinn helgar meðalið.
Jón Ragnarsson, 11.3.2013 kl. 10:35
það er alveg óljóst hvort hreppar nái aftur fyrir kristnitöku og það var ekkert neitt sérstaklega frábært við þá.
Ennfremur var ekkert ,,nánast alltaf offramboð á mat". þá hefðu menn nú varla hrunið niður úr hungri og matarleysi í gegnum aldirnar.
Jafnframt var auðvitað stéttaskipting hér eins og tíðkaðist á þessum menningarsvæði og ef eitthvað er harkalegri og miskunarlausari.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.3.2013 kl. 11:15
Sæll Friðrik,ég er svolítið sein. Fullveldið sem við höfum í dag,,,,ég get ekki gert að því þótt þú skiljir það ekki. Ég upplifði hersetuna,þeð get ég sagt þér að bresku hermennirnir voru skjálfandi á beinunum,þegar fulltrúi hins íslenska fullveldis,kallaði offiserann á sinn fund,það var á smá stað út á landi. Bretinn með byssu,en sá íslenski með valdið,sem allar þjóðir viðurkenndu. Fyrirgefðu seinaganginn,en var ekki við hér í dag.
Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2013 kl. 18:45
Sæll Brynjólfur.
Ég legg til að þú lesir bókina "Hernaðarsaga Íslands" efir Birgi Loftsson og Ómar Gíslason. Þú getur keypt bókina hér:
http://skemman.is/stream/get/1946/8809/23800/3/PeturGI_BAritgerd.pdf
Og jafnvel BA ritgerð Péturs Guðmundar Ingimarssonar, "Vopnaburður Íslendinga og landvarnir á tímum sjálfstæðisbáráttunnar á 19 og 20 öld", hún er ókeypis, sjá hér:
http://skemman.is/stream/get/1946/8809/23800/3/PeturGI_BAritgerd.pdf
Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.3.2013 kl. 19:09
Sæl Elle
Það hefur aldrei staðið til að standa undir þínum væntingum eða annarra þegar kemur að því að kynna sér mál eins og aðild að ESB og Icesave og mynda mér í framhaldi af þeim athugunum mínar eigin skoðanir...
Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.3.2013 kl. 19:14
Setti þarna tvisvar inn sama linkinn. Hér er hægt að kaupa á netinu bókina "Hernaðarsaga Íslands".
http://www.bokin.is/product_info.php?products_id=12216
Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.3.2013 kl. 19:22
Nei, Friðrik, auðvitað ekki, en mér bara brá, ég vissi ekki að þú ættir til slík ómerkilegheit að fara að berjast gegn fullveldi landsins og það kom mér á óvart. Eitt er að skoða það, hitt er forherðing.
Elle_, 11.3.2013 kl. 22:19
Vandamálið er náttúrulega að harkalegri sögufölsun hefur verið haldið að innbyggjurum varðandi íslandssöguna.
Nánast fram til 1900 (og í sumum tilfellum framyfir 1900) erum við að tala um bláfátækt og snautt almúgafólk sem örsmá innlend elíta réði yfir að öllu leiti. (Auðvitað var einhver tröppugangur eða valdapyramydi niðrávið).
Bláfátækt og snautt í skilningi fyrri tíma er handan okkar skilnings beisiklí. Við erum að tala um að þeir al-snauðustu og al-fátækustu, sem voru talsvert stór hluti innbyggjara um 20-30% að meðaltali, voru eins og hver annar búfénaður í augum elítunnar og ráðandi innlendra afla. þrælar bara. Og réttlausir.
Það var í raun ekki unnin bragarbót á þessu og málum þokað fram á við fyrr en með tilkomu Jafnaðarmanna í byrjun 20. aldar - gegn harkalegri mótstöðu og yfirgangsofbeldi Sjalla og kjánaþjóðrembinga sem börðust gegn öllum réttarbótum almenningi til handa - rétt eins og þeir berjast nú á móti ESB.
Jafnframt er það rangt að kaþólski siðurinn varðandi presta hafi ekki náð hingað. Í fyrstu fylgdi ísland norræna munstrinu því viðvíkjandi enda hjónaband álitið viðskiptasamningur fyrst og fremst.
Augljóst er að fáir hafa heyrt minnst á Árna Þorláksson sem tók þesi mál í gegn hérna á 13. öld og fylgdi þar þróun í Noregi.
Fyrr á tíð bárust allir straumar frá Evrópu hingað upp. það var barasta þróun. Rétt eins og aðild Íslands að ESB er þróun. Óhjákvæmileg þróun.
Framkvæmdir hérna uppi í fásinni og einangrun voru stundum einkennilegar og ruglingslegar og allskyns undanþágur og sérlausnir og önnur forneskja var knúin fram - svo sem að mega bera út börn þegar kristni var lögtekin.
það er ekkert merkilegt eða frábært við ísland fyrr á tíð umfram önnur lönd eða svæði. Ekki nokkur hlutur.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.3.2013 kl. 23:37
Þetta til upplýsingar þeim sem vilja vita meira: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1240271/
Lesið helst greinargerð Leó Kristjánssonar jarðfræðings neðst.
Steinninn í flakinu á Ermasundi er að gerðinni "Iceland Spar", en það finnst annars staðar en á Íslandi. Í lok 16. aldar hafa menn geta náð í það í öðrum löndum en Íslandi.
FORNLEIFUR, 14.3.2013 kl. 09:43
Það er rangt, það sem sonur Ómars Ragnarsson gróf upp í Horsens (enda drengurinn ekki fornleifafræðingur). Eini rétturinn sem Íslendingar fæddir fyrir 1944 hafa í Danmörku samkvæmt stjórnarskrá, er að gerast Danir ef þeir vilja, með öllum þeim réttindum sem það veitir , t.d. hörkuatvinnuleysi!!!
Ómar þú getur enn orðið Dani og þannig komist express í "ESB-sæluna".
Eftri núverandi hörmungastjórn væri það kannski best fyrir gamlingja, því hér er enn ekki búið að drepa velferðaþjóðfélagið.
Ég verð bara að segja það, ef enginn hefur sagt það áður. Ómar Ragnarsson hefur ekki vit á öllu.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 14.3.2013 kl. 09:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.