Sunnudagur, 27. janúar 2013
Krónan, stjórnarskráin og pólitíska upplausnin
Þróunarríki sem illa geta fótað sig sjálfstætt sökum veikra innviða eru líkleg til að skipta út gjaldmiðli sínum fyrir alþjóðlegan lögeyri. Bandaríkjadollar er venjulega fyrsti kostur en einnig eru dæmi um gjaldmiðlasamstarf nokkurra ríkja þar sem fyrrum nýlenduveldi er bakhjarl.
Þegar evrunni var hleypt af stokkunum, árið 1999, stórfækkaði gjaldmiðlum á einu bretti í einu af þremur sterkustu efnahagssvæðum veraldar. Verulegur kippur kom í pælingar hjá öðrum ríkjum, einkum í Suður-Ameríku, að skipta út eigin gjaldmiðli fyrir dollar. Þótt staðbundnar aðstæður hafi ráðið nokkru var eitt gjaldmiðlasvæði á meginlandi Evrópu án efa verulegur hvati. Um aldamóti kom út töluvert af efni sem ræddi kosti og galla gjaldmiðlaskipta.
Evru-svæði fór vel af stað en steytti á skeri upp úr 2008 þegar ljóst varð að einn gjaldmiðill fyrir virkaði ekki fyrir mörg ólík efnahagskerfi. Í fimm ár hefur Evrópusambandið glímt við evru-vandann og enn sést ekki móta fyrir varanlegri lausn.
Eftirspurn eftir inngöngu í evru-svæðið er engin. Þjóðir sem hafa skuldbundið sig að ganga inn, Svíþjóð og Pólland, láta sér ekki til hugar koma að efna þær skuldbindingar. Aðrar ESB-þjóðir sem hafa undanþágu frá evru-þátttöku, Bretar og Danir, munu ekki ganga inn í gjaldmiðlasamstarfið í fyrirsjáanlegri framtíð.
Afkimastjórnmál á Íslandi, einkum bundin við Samfylkinguna, halda því sjónarmiði á lofti að íslenska krónan sé ónýt og henni þurfi að skipta út. Orðræðan um ónýti krónunnar er samstofna umræðunni um að stjórnskipun lýðveldisins sé komið að fótum fram og þess vegna þurfi nýja stjórnarskrá.
Vinstriflokkarnir, Samfylking og VG, kynda undir upplausnarástandi enda var það pólitískt öngþveiti sem skóp þeim aðstöðu veturinn 2009 að taka hér völdin.
Þegar stjórnmálamenn sem ættu að vita betur taka undir sleggjudóma um ónýta krónu er ástæða til að staldra við. Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hlýtur að endurskoða hug sinn til krónunnar þegar hann áttar sig á samhengi hlutanna. Það er býsna langsótt að ætla sér að skipta um gjaldmiðil til að leysa smámál eins og afléttingu gjaldeyrishafta og verðtryggingu.
Ísland er ekki þróunarríki, þótt sumir stjórnmálamenn virðast halda það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.