Innri og ytri rök ESB-umræðunnar

Þjóð sem stendur frammi fyrir spurningunni um aðild að Evrópusambandinu sækir rökin með og á móti í eigin sögu og staðfestu annars vegar og hins vegar til stöðu og framtíðarhorfa Evrópusambandsins.

Innri rök Íslands fyrir aðild að Evrópusambandinu eru veik. Þegar forræði íslenskra mála var í okkar höndum farnaðist okkur best. Frá landnámi og fram á 13. öld var blómlegt í landinu þar sem menntun og menning stóð jafnfætis því sem best gerðist erlendis. Niðurlægingartímabil Íslands hefst með Gamla sáttmála við Noregskonung og heldur áfram nær óslitið til seinni hluta 19. aldar. Víst er að erlend yfirráð réðu ekki ein og alfarið um eymdina á Íslandi. En þegar bjargirnar voru allar sóttar yfir hafið til meginlands Evrópu var ekki beinlínis sterk hvötin til sjálfsbjargar.

Á seinni hluta 19. aldar rofaði til hjá Íslendingum og við byggðum upp samfélag dagsins í dag samhliða því sem við tókum forræði okkar mála í eigin hendur með innlendu löggjafavaldi frá 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918 og lýðveldi 1944. Án fullveldis hefðum við ekki ná yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni á aldarfjórðungstímabili eftir seinna stríð.

Íslandi vegnar vel á alla helstu mælikvarða sem lagðir eru á velsæld þjóða. Prófsteinn á innviði okkar, sem við höfum byggt upp í tæp hundrað ár, var hrunið 2008. Þjóðfélagsgerð okkar stóðst prófið. Þökk sé sjálfstæðum gjaldmiðli var hagkerfið lagfært nýjum veruleika eftirhrunsins með snöggum hætti þar sem allir þjóðfélagshópar urðu að leggja sitt af mörkum.  Atvinnuleysi varð aldrei meira en um tíu prósent og liggur núna við fimm prósentin. Við búum við hagvöxt og efnahagshorfur eru stöðugar.

1100 ára reynsla er einboðin: Íslendingum farnast betur þegar helstu valdheimildir eru á Íslandi.

Ytri rök fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru jafnvel einn veikari en innlendu rökin. Evrópusambandið er stofnað eftir tvær heimsstyrjaldir þar sem stórríki álfunnar, Frakkland og Þýskaland, tókust á. Eftir seinna stríð var Evrópa klofin í tvennt. Á heimsvísu var Evrópa niðursetningur á milli tveggja heimsvelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Kjarnaríki ESB og stofnaðilar voru Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Holland, Belgía og Lúxemborg. Tveggja þátta þróun hófst á síðasta þriðjungi síðustu aldar. Í fyrsta lagi stækkun sambandsins með upptöku æ fleiri landa og í öðru lagi ,,dýpkun" samstarfsins með því að flytja stöðugt fleiri valdheimildir frá aðildarríkjum til stofnana ESB.

Evrópusambandið telur núna 27 ríki sem deila hvorki sameiginlegri stjórnmálamenningu né standa þau saman um eina framtíðarsýn. 17 af þessum 27 ríkjum búa við einn og sama gjaldmiðilinn, evru. Allt frá 2008, í bráðum fimm ár, hefur evran verið í kreppu sem ekki tekst að leysa. Kreppan felst í því að samkeppnishæfi jaðarríkja eins og Írlands, Portúgals, Spánar, Ítalíu og Grikklands er miklu verri en kjarnaríkjanna í norðri. Jaðarríkin þurfa á gengisfellingu að halda á stærðargráðunni 25 til 70 prósent.

Í myntsamtarfi kemur gengisfelling ekki til greina og þá er eftir hinn kosturinn: að ríku ríkin í norðri, s.s. Þýskaland, Holland, Austurríki og Finnland niðurgreiði lífskjör í suðri, líkt og þekkist í Bandaríkjunum þar sem alríkisstjórnin miðlar skattfé frá ríkum fylkjum til fátækari.

Kjósendur í Norður-Evrópu finna ekki til þeirrar samkenndar með íbúum Suður-Evrópu sem er forsenda fyrir varanlegum millifærslum á fjármunum. En vegna þess hve mikið er í húfi verður að láta eins og ekki sé þörf á þessari samkennd og búa til lausnir ,,að ofan."

Evrópusambandið reynir hvað það getur til að halda evru-samstarfinu á lífi. Í umræðu undanfarinna ára eru tvær niðurstöður gefnar. Í fyrsta lagi að til að bjarga evrunni verður að búa til sameiginlegt ríkisvald, nokkurs konar Stór-Evrópu, sem hefði vald til stýra ríkisfjármálum evru-ríkja. Stór-Evrópa verður til smátt og smátt, fyrst með ríkisfjármálabandalagi svo kemur bankabandalag og svo framvegis. Í öðru lagi er það gefið að þau ríki sem einhvers mega sín og standa utan evrunnar, s.s. Bretland, Danmörk, Svíþjóð og Pólland, munu ekki taka þátt í mótun Stór-Evrópu utan um gjaldmiðilinn. Útkoman úr björgunarleiðangri evrunnar er slíkri óvissu háð að það er ekki forsvaranlegt að veðja á að gjaldmiðlasamstarfinu verði bjargað.

Evrópusambandið er tilraun sem staðið hefur yfir í liðlega hálfa öld. Öldungis óvíst er hvernig þeirri tilraun reiðir af. Á meðan ríki sem eru í Evrópusambandinu treysta sér ekki til að ganga til samstarfs um evruna er harla langsótt að Íslendingar ættu lýsa sérstöku trausti á kjarnasamstarf ESB-ríkja og leita eftir inngöngu.

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er misskilningur sem þarf að leiðrétta.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill og tek undir hann.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2012 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband