Þriðjudagur, 6. nóvember 2012
ESB-sinnar verða ,,viðræðusinnar''
Þeir sem einu sinni töluðu fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu eru hættir því. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður svarar ekki fyrirspurn flokkssystur um afstöðuna til ESB-aðildar. Aðrir ESB-sinnar kynna sig núna undir þeim formerkjum að þeir séu ,,viðræðusinnar" sem vilja ljúka aðildarviðræðum.
,,Viðræðusinnar" skauta framhjá þeirri staðreynd að Evrópusambandið tekur aðeins við nýjum aðildarríkjum á forsendum aðlögunar. Það felur í sér að umsóknarríki taki jafnt og þétt upp lög og reglur sambandsins jafnhliða aðlögunarviðræðum.
Evrópusambandið varar við því að nota orðið ,,samningaviðræður um aðlögunarferlið. Í útgáfu sambandsins, ,,Understanding Enlargement, the European Unions Enlargement Policy (Stækkun útskýrð, stefna ESB í stækkunarmálum) segir eftirfarandi
Hugtakið ,,samingaviðræður getur verið misvísandi. Aðlögunarsamningar einblína á skilyrði og tímasetningar á því hvenær og hvernig umsóknarríki lagar sig að reglum ESB - sem telja um 100 þúsund blaðsíður. Og þessar reglur (einnig þekktar undir nafninu acquis, sem er franska fyrir ,,það sem hefur verið samþykkt) eru ekki umsemjanlegar.
Evrópusambandið býður ekki upp á skemmri skírn inn í sambandið.,,Viðræðusinnar" halda fram blekkingu um að óskuldbindandi aðildarsamningur sé í boði. Ítrekaðar deilur á alþingi um leyndarferli Össurar og félaga staðfesta það að með aðlögun er reynt að gera Ísland jafnt og þétt aðildarríki Evrópusambandsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.