Syndin, verðbólgan og sterka krónan

Evran er að bráðna í verðbólgu, segir forsíða Spiegel. Þjóðverjar kunna öðrum þjóðum verr að meta verðbólgu og munu gera uppreisn gegn stjórnvöldum sem þynna út verðmæti gjaldmiðilsins. Þýskir fjölmiðlar halda almenningi vel upplýstum um hverju er um að kenna.

Fyrsta syndin var að brjóta sáttmálann um að engu ríki yrði bjargað frá gjaldþroti, segir Die Welt. Núna er kominn varanlegur björgunarsjóður til að niðurgreiða óráðssínu Suður-Evrópu. Þjóðverjar munu bera kostnaðinn, bæði óbeint með verðbólgu og hærri lántökukosnaði og í beinhörðum peningum sem renna úr þýska ríkiskassanum til fátækari þjóða Evrópusambandsins.

Þótt vandi evrunnar sé sýnu stærstur, vegna þess að Evrópusambandið stendur og fellur með gjaldmiðlinum, þá eru aðrir stórir gjaldmiðlar í verulegum erfiðleikum. Skuldastaða Bandaríkjanna er slík að tiltrú á dollarann er veik og væri enn minni ef dollarinn nyti ekki samburðarins við evruna. Því að þrátt fyrir allt efast enginn um tilvist Bandaríkjanna þótt dollarinn sé undir ágjöf.

Bandaríkin gripu til þess ráðs að prenta peninga til að freista þess að koma atvinnulífinin úr hægagangi. Fyrr heldur en seinna leiðir það til verðbólgu. Bretar eru undir sömu sökina seldir. Í Telegraph tekur Liam Halligan á peningaprentun með þessum orðum

A "backdoor bail-out" for politically connected banks, this ridiculous and historically unprecedented policy will ultimately bring only higher inflation and much steeper future borrowing costs. Reducing what you owe your creditors via a combination of deliberately-created inflation and currency debasement seriously harms any sovereign borrowers' long-term reputation. Yet we are continually told that QE is "positive" and "growth-boosting", all of which is total nonsense.

Peningaprentun er skipulögð útþynning á gjaldmiðli í þágu efnahagslegra markmiða s.s. hagvaxtar. Íslendingar hafa í gegnum tíðina beitt gjaldmiðlinum í þágu efnahagslegra markmiða, t.d. að taka á sig högg þegar aflabrestur verður. Nýfengin reynsla af hruninu er annað dæmi um krónuna sem verkfæri til að þjóna öðrum markmiðum en verðstöðugleika.

Dollarinn, evran og pundið munu láta á sjá á næstu misserum og árum þegar kostnaðurinn við peningaprentun engilsaxa annars vegar og hins vegar björgunarkostnaður evru-samstarfsins kemur fram.

Íslenska krónan mun styrkjast í samanburði við stóru gjaldmiðlana. Bæði mun raungildi krónunnar styrkjast og ekki síður almenn tiltrú á gjaldmiðlinum. Eins og allir vita nema heimskasta fólkið í hagfræðiumræðunni, og það er allt í Samfylkingunni, eru gjaldmiðlar hlutfallsleg verðmæti en ekki algild. Verðfall eins gjaldmiðils leiðir til hækkunar annars - að öðru óbreyttu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Fínn pistill. Næst á dagskrá hjá þér væri að komast að því hve mikið SÍ hefur prentað af íslenskum krónum undanfarin 4-6 ár. Það er beint samhengi milli peningamagns í umferð og verðbólgu. Verðbólga er besti vinur þeirra sem þurfa að greiða af verðtryggðum lánum eins og margir finna á eigin skinni.

Seðlabankar heimsins eru rót þess vanda sem að heiminum stafar og í raun orsök hans. ECB prentaði rúma trilljón evra frá des. 2011 - mars 2012 og ætlar sér að halda því áfram. Bandaríski seðlabankinn hefur þrefaldað peningamagn í umferð í forsetatíð Obama og var að hefja QE3. Hverjar skyldu nú vera afleiðingar þess? Lítum á olíuverð sem allir segja að hafi hækkað: Árið 2006 gat maður keypt 4 gallón af bensíni í USA fyrir silfurúnsu. Í febrúar 2012 var hægt að kaupa 11 gallón af bensíni fyrir sömu silfurúnsu. Olía hefur s.s. ekki hækkað í verði sé miðað við góðmálma, hún hefur lækkað. Olía hefur hækkað mikið ef miðað er við dollara og evrur. Framleiðendur olíu vilja skiljanlega fá eitthvað fyrir sína vöru en hér er skýrt dæmi um skaðsemi peningaprentunar seðlabanka heimsins.

Þessi gengdarlausa peningaprentun seðlabanka heimsins er auðvitað ekkert annað en þjófnaður, þeir peningar sem sauðsvartur almúginn á rýrna stöðugt í verði og þar með versna okkar kjör. Seðlabanka heimsins þarf að leggja niður eða í það minnsta vængstífa verulega. Seðlabankar heimsins skipta sér líka að því hve mikið kostar að fá peninga að láni, það hefur sömuleiðis reynst afar illa eins og allar miðstýrðar efnahagsáætlanir.

SÍ tekur kinnroðalaust þátt í stjórnmálum hér þó hann eigi að heita hlutlaus, nýleg skýrsla SÍ um peningastefnu hér (sjá fína grein Lofts Þorsteins í mbl þann 29. sept) er dæmi þess sem og ofmat SÍ á getu okkar til að greiða Icesave. Af hverju má ekki skera niður í SÍ?  

Hvers vegna prenta seðlabankarnir peninga? Þeir halda að með því að auka peningamagn í umferð og auka framboð lánsfjár á lágum vöxtum megi koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur. Það er augljóslega rangt, útkoma þessarar tilraunar var fyrirsjáanleg en er núna orðin að sögulegri staðreynd. Í Evrópu hefur ECB lánað bönkum fé á ca. 1% vöxtum og þeir lána svo aftur ríkisstjórnum landa sinna þetta fé á ca. 4-5% og græða auðvitað á því og borga sér bónusa fyrir frábæran rekstur. Hegðun ECB veldur því að stjórnmálamenn neyðast ekki til þess að draga saman opinbera geirann því ECB sér til þess að þeir geta stöðugt bætt við skuldaklafann sem næsta kynslóð þarf svo að borga.

Stór opinber geiri = lægri laun og lægra atvinnustig en hægt væri með minni opinberum geira. Þetta er vandi Evrópu og USA. Bandaríkjamenn munu ekki þola fjárhagslega annað kjörtímabil með Obama, hann hefur bætt næstum 6 trilljónum dollara við skuldir þeirra sem er meira en Bush forveri hans gerði á 2 kjörtímabilum. Ef Obama vinnur þýðir það að Bandaríkjamenn fara að lenda í svipuðum málum og sumar Evrópuþjóðir eru í núna eftir 3-4 ár eða svo.

Stór opinber geiri hamlar verðmætasköpun innan einkageirans, sömu sögu er að segja af þeim skuldaklafa sem Seðlabankar heimsins geta þakkað sér. Tökum einfalt dæmi, ef hagkerfi vext um 2% á ári er það 35 ár að tvöfalda stærð sína, 35 ár að verða tvöfalt ríkara. Ef hagkerfi vext um 4% á ári er það tæp 18 ár að tvöfaldast að stærð. Á þessum 35 árum hefur hagkerfið sem óx um 4% á ári fjórfaldast að stærð og er þvi orðið tvöfalt ríkara en hagkerfið sem óx um 2% á ári. Þetta er sláandi munur. Munurinn á kjörum íbúa þessara tveggja hagkerfa er einnig sláandi. Íbúar ríka hagkerfisins geta miklu frekar leyft sér að taka sér frí o.s.frv.

Hér þarf að lækka verulega skatta og segja upp hundruðum opinberra starfsmanna árlega næstu 4-6 árin. Þá getur einkageirinn tekið við sér, farið að framleiða verðmæti og farið að ráða fólk á góðum launum. Ríki og sveitarfélög eru helsti dragbíturinn á bætt kjör almennings. Verst hve fáir gera sér grein fyrir því :-(

Helgi (IP-tala skráð) 7.10.2012 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband