Þorsteinn, ESB-heilindi Jóhönnu og Árni Páll

Árni Páll er frambjóðandi samfylkingardeildar Sjálfstæðisflokksins til formennsku í krataflokknum. Þorsteinn Pálsson er hvað ötulastur talsmaður samstarfs hrunflokkanna og er þar fyrir utan stækur ESB-sinni.

Í helgarskammti Þorsteins, sem birtist í Fréttablaðinu, spyr hann um heilindi forsætisráðherra í ESB-málinu. Hann bendir á að Jóhanna tali aldrei fyrir ESB-aðild og sendir henni þessa pillu

Allir vita að tvíhliða fríverslunarsamningur við Kína er ósamrýmanlegur Evrópusambandsaðild. Þegar forsætisráðherra Kína kom í opinbera heimsókn nýlega lagði forsætisráðherra ofurkapp á að slíkur samningur yrði undirritaður áður en botn fæst í Evrópuviðræðurnar. Hvaða skilaboð voru send með því?

Þorsteinn telur Árna Pál líklegan að halda nógu lengi í ESB-umsóknina til að skapa samfylkingardeild Sjálfstæðisflokksins sóknarfæri. Hugmyndin er að eftir valdatöku Árna Páls í Samfylkingunni nái Þorsteinn og hans menn tökum á Sjálfstæðisflokknum og hrunflokkarnir steypi Íslandi í Evrópusambandið. Hugguleg framtíðarsýn eða hitt þó heldur.

 


mbl.is Útilokar ekki formannsframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Árni Páll er kokhraustur mjög þessa dagana, en þetta er eimitt sami Árni Páll sem fékk Árnapálslögin, smþykkt á Alþingi er hann var Viðskiptaráðherra, og þau lög brutu gegn stjórnarskránni,og eru búin að valda heimilum þessa lands ómældu tjóni, og þeir alþingismenn og ráðherrar sem verða uppvísir að því að brjóta Stjórnarskrána, eiga að hafa sóma í

sér til að segja af sér þingmennsku, til að þeir verði ekki rasskeltir í næstu Alþingiskosningum.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.8.2012 kl. 16:21

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Halldór það hefur aldrei verið dæmt að lög nr. 151/2010 stangist á við stjórnarskrá. Hinsvegar hefur verið dæmt að beiting þeirra til endurákvörðunar lána afturvirkt og með þeim hætti sem bankarnir hafa útfært það, sé ekki í samræmi við lög. Hér er vandamálið ekki að lögin sem slík séu endilega röng eða ógild, heldur að bankarnir kusu að rangtúlka þau og brjóta á rétti neytenda með þeirri aðferð sem þeir hafa beitt við endurútreikninginn.

Í dómi sínum í máli 600/2011 tekur hæstiréttur enga efnislega afstöðu til þess hvað lög 151/2010 þýða í raun og veru. Niðurstaða dómsins byggir ekki á þeim lögum heldur almennum samninga-, kröfu- og eignarrétti, sem um leið gerir fordæmisgildið mjög víðtækt. Það eina sem dómurinn segir hinsvegar um lög 151/2010 er að ef það væri rétt að túlka þau þannig að þau heimili afturvirka endurákvörðun, þá myndi það hvort sem er stangast á við stjórnarskrá og almennar réttarreglur um bann við afturvirkni og þar af leiðandi engu breyta um niðurstöðu málsins. Dómurinn segir ekkert um það hvort slík túlkun væri rétt eða röng, en það er aðeins ef hún væri rétt sem til álita kæmi hvort áðurnefndar afleiðingar þeirra stæðust stjórnarskrá. Í þessu tilviki skipti það hinsvegar engu máli því niðurstaða dómsins byggði einfaldlega ekki á þeim lögum eða neinni afstöðu til túlkunnar þeirra.

Það er mjög erfitt að fjalla um þessi mál vegna þess hve mikil misskilningur um þau hefur verið útbreiddur á opinberum vettvangi. Margt hefur verið sagt um lög 151/2010 sem er úr lausu lofti gripið, til dæmis að þau brjóti stjórnarskrá vegna afturvirkni. Séu þau skoðuð kemur hinsvegar í ljós að í þeim er hvergi kveðið á um afturvirkni, í þeim er ekki heldur kveðið á um seðlabankavexti í stað samningavaxta, og í þeim er skuldbreyting vaxta með höfupstólsfærslu hvergi heimiluð umfram það sem almennt gildir, sem þýðir að hún er í þessum tilvikum óheimil því ólöglegt lán er aldrei í vanefndum af hálfu neytanda heldur af hálfu veitanda. Sú reikniaðferð sem bankarnir fundu sjálfir upp og kusu að beita við þessa útreikninga, var einfaldlega þeirra eigin uppátæki sem þeir ákváðu að kenna (ranglega) við lög 151/2010. Að segja að lögin séu þess vegna vond er eins og að kenna árinni um þegar ræðarinn er illur. Þar með er ég þó alls ekki að reyna að afsaka neitt heldur þvert á móti.

Um lög 151/2010 er hægt að segja að þau séu vond að því leyti að þau auka flækjustig vaxtalaga og stuðla þannig að þeirri óvissu sem uppi er um úrlausn þessara mála. Í raun og veru voru þau líka óþörf því ekkert var því til fyrirstöðu að ráðist yrði í endurútreikninga á grundvelli óbreyttra laga. Ef lögin og sérstaklega greinargerðir með þeim eru skoðuð kemur í ljós að megintilgangur þeirra var alls ekki að tryggja neytendum ítrasta rétt sinn, heldur fyrst og fremst að jafna stöðu annars vegar þeirra sem voru með klárlega ólögleg gengistryggð lán, og hinsvegar þeirra sem voru með lögleg gjaldeyrislán. Þannig var eign bankanna í formi kröfuréttinda á grundvelli löglegra samninga tekin af þeim, og ef eitthvað er stjórnarskrárbrot þá er það einmitt slík eignaupptaka.

Til þess að komast hjá því að bankarnir sæki skaða- og eignarnámsbætur á hendur ríkinu vegna endurákvörðunar löglegra lánasamninga virðist sem einhverskonar óformlegt samkomulag hafi verið gert um að láta óáreitta þá útfærslu á endurútreikningi sem bankarnir fundu upp, og gera þeim þannig kleift að hlunnfara á móti þá sem voru með klárlega ólögleg lán til að bæta sér upp jöfnunina sem lögin fyrirskipa. Í þessu tilliti virðist þó sem enginn hafi áttað sig á því að þar með var ríkinu jafnframt bökuð skaðabótaskylda á hendur þeim neytendum sem þannig voru sviptir betri rétti sínum vegna ólöglegrar gengistryggingar. Þetta er eitthvað sem á eftir og mun reyna á í þeim málaferlum sem eiga eftir að fara fram áður en yfir lýkur, en það sorglega við það er að í öllum tilvikum er hætta á því að kostnaður vegna tjónsins endi hjá skattgreiðendum. Það er stóra vitleysan í þessu öllu saman sem hefði ekki getað átt sér stað án þessarar lagasetningar.

Þess má geta að Hagsmunasamtök heimilanna hafa kært alla stjórnendur bankanna sem bera ábyrgð á þessum ólöglegu lánveitingum, samtals eru fleiri hundruð manns tilnefndir í kærunni sem var beint til Sérstaks Saksóknara. Hann tók hinsvegar þá ákvörðun að vísa kærunni frá, og var sú ákvörðun kærð til Ríkissaksóknara sem staðfesti frávísunina. Með afgreiðslu þessari virðist sem saksóknari hafi tekið sér allt í senn: rannsóknarvald, saksóknarvald, og dómsvald, og brotið þannig mannréttindi þolenda hinna umræddu brota auk þess að styrkja aðeins skaðabótaskyldu ríkisins.

Í stuttu máli: velta tjóninu af ólöglegri bankastarfsemi yfir á almenning.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.8.2012 kl. 19:32

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Guðmundur,

mer finnst þú gleyma síðasta Hæstaréttardómi. Mér sýnist hann snúa við öllum áður gengnu dómunum og að allir réttorðaðir samningar með gengistryggingur séu góðir og gildir.

Guðjón bak við tjöldin lætur ekki að sér hæða.

Halldór Jónsson, 19.8.2012 kl. 21:35

4 identicon

Ég ætla bara rétt að vona, að þessum háu herrum komi ekki til hugar að koma með lög (einhverja lagaflækju) á verðtrygginguna þegar hún fer fyrir Hæstarétt, lög sem koma til með að flækja málið svo að það verði ekki nokkur leið að fara eftir þeim, samanber Árnapáls lögin 151/2010.

Því ég get ekki séð annað en að verðtryggðu lánin, séu jafn ólögleg og gengistryggðu lánin.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.8.2012 kl. 21:35

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Halldór Jónsson.

Ef þú ert að meina dóm um lán Íslandsbanka í sumar þá var það dæmt löglegt á þeirri forsendu að það hefði verið raunverulegt gjaldeyrislán en ekki gengistryggt krónulán. Það hefur lengst af verið löglegt að lána gjaldeyri á Íslandi og þessi tiltekni dómur breytti engu hvorki um þetta né það sem snýr að lánum í íslenskum krónum með ólögmætum gengistryggingarákvæðum.

Dómurinn snerist semsagt ekki um gengistryggingu, sem er ennþá jafn ólögleg og hún varð árið 2001 þegar heimild til notkunar hennar var afnumin.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2012 kl. 03:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband