Miðvikudagur, 15. ágúst 2012
Evrópska frásögnin og Ísland
Evrópusambandið byggir á frásögn um tilurð og vandræði álfunnar. Sagan byrjar með þúsund ára ríki Rómarveldis og ímynd um sameiginlega menningu. Hrun Rómarveldis um 500 e. Kr. var upphaf miðalda þar sem sótt var að kristni úr suðri af múslímum og heiðnum víkingum úr norðri.
Karlamagnús keisari bræddi saman rómversk-germanska vígstöðu í Vestur-Evrópu með Aachen sem höfuðborg, skammt frá Brussel. Sonarsynir Karlamagnúsar skiptu með sér ríkjum um miðja 9. öld og varð sú skipting grundvöllur Frakklands og Þýskalands.
Miðöldum lauk með trúarbragðastyrjöldum og sterku kaþólsku Frakklandi en veiku Þýskalandi sem sundrað var í fjölda smáríkja. Sambúðarvandi stórríkja Evrópu var að nokkru fluttur út, með nýlendubraski í vestri og þýskum landvinningum í austri.
Seint á 19. öld verður Þýskland þjóðríki með því að sigra frænda Napoleóns fyrsta og nafna. Frakkar og Þjóðverjar voru höfuðandstæðingar í tveim styrjöldum á 20. öld sem báðar eru kenndar við heimsstríð.
Í heimsstríðunum missti Evrópa heimsvaldastöðu sína og tvíveldin Sovétríkin og Bandaríkin urðu allsráðandi.
Eftir seinna heimsstríð var hornsteinn lagður að Evrópusambandinu. Samvinna skyldi koma í stað stríðsátaka. Við erum enn í þessari frágsögn og vitum ekki hverjar lyktir verða.
Evrópska frásögnin gefur Evrópusambandinu sögulegt og siðferðilegt lögmæti. Ísland á fjarska lítið sameiginlegt með evrópsku frásögninni.
Ísland byggðist um það bil þegar sonarsynir Karlamagnúsar skiptu með sér Vestur-Evrópu. Íslenska frásögnin er um frjálshuga norræna menn sem leituðu uppi ónumið land og byggðu þjóðfélag án konungsvalds. Framlag Íslands til heimsmenningarinnar er bókmenntir um samfélag án ríkisvalds.
Þegar frá leið landnámi varð Ísland harðbýlla og missi sjálfstæði sitt til Noregskonunga sem fleyttu yfirráðum yfir okkur til Danmerkur í gegnum Kalmarsambandið. Ísland varð hornkerling með 50 þúsund hræður sem rétt skrimtu við miðaldaaðstæður þótt nýöld væri gengin í garð víðast í Vestur-Evrópu.
Um miðja 19. öld óx þeirri sannfæringu Íslendinga ásmegin að aðeins með forræði eigin mála væri hægt að skapa hér burðugt þjóðlíf. Sjálfstæðisáfangar náðust á 100 árum, frá 1874 þegar þjóðin fékk stjórnarskrá til 1975 þegar landhelgin var færð út í 200 mílur í óþökk gömlu stórveldanna í Evrópu, Bretlands og Þýskalands.
Þegar Ísland var hjálenda evrópsks smáríkis var það fátækt og forsmáð. Með fullveldi og forræði eigin mála tókst að renn stoðum undir samfélag sem stenst samjöfnuð við það sem best gerist í víðri veröld.
Íslendingar eiga öllu að tapa með aðild að Evrópusambandinu.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Páll.
En getur þú upplýst hvernig yfirráð yfir Íslandi fluttust frá Noregi yfir til Danmerkur? Var það ekki í gegn um einhverja giftingu?
Þorsteinn H. Gunnarsson, 15.8.2012 kl. 13:00
Jú, Þorsteinn, Margrét fyrsta Danadrottning er talin höfundur Kalmarsambandsins sem allmennt er talið standa frá 1397 til 1520 og í voru konungsríkin þrjú Noregur, Danmörk og Svíþjóð. Fylgilendur voru Færeyjar, Ísland, Grænland, Hjaltlandseyjar, Orkneyjar og Finnland. Mægðir komu töluvert við sögu tilurðar Kalmarsambandsins eins og gjarnan gerðist með ríkjamyndanir á þessum tímum.
Sumir ala mér sér draum að endurvekja Kalmarsambandið. Norræna ráðherraráðið keypti skýrslu um það frá sænskum dálkahöfundi fyrir nokkrum árum.
Páll Vilhjálmsson, 15.8.2012 kl. 13:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.