ESB-umsókin sekkur ríkisstjórninni

ESB-umsóknin gengur að fyrstu vinstristjórn lýðveldisins dauðri. Á Íslandi eru tvær hefðir vinstristjórnmála. Önnur er kratísk og höll undir alþjóðahyggju. Frá 1916 er Alþýðuflokkurinn heimili og varnarþing þessarar stefnu. Kratar sóttu styrk til norrænna jafnaðarmannaflokka og voru lengi á móti sambandsslitum við Dani og stofnun lýðveldis.

Alþýðuflokkurinn klofnaði 1930 með stofnun Kommúnistaflokksins, síðar Sósíalistaflokksins og þar á eftir Alþýðubandalagsins. Róttæka vinstrið var framan af sovétsinnað en sótti styrk í þjóðernishyggju eftir seinni heimsstyrjöld, - þegar kratar hættu norrænu daðri og urðu ameríkaniseraðir enda gaf það betur í aðra hönd.

Alþýðuflokkurinn var í hálfa öld smæsti flokkurinn í fjórflokkakerfinu. Frá og með stofnun Alþýðubandalagsins var róttæka þjóðernisvinstrið sterkara en kratíska alþjóðavinstrið. 

Þegar Samfylkingin var stofnuð um nýliðin aldamót var Alþýðubandalagið í upplausn. Flokkurinn hafði kosið sér veikan formann, Margréti Frímannsdóttur, vegna þess að stór hluti flokksmann var orðinn sólginn í stóran valdaflokk. Um svengd krata í völd og áhrif þarf ekki að fara mörgum orðum.

Samfylkingin var stofnuð sem stór flokkur en án málefna. Evrópusambandið svaraði þörf flokksins fyrir áróðursbarefli gegn móðurflokki íslenskra stjórnmála. Frá kosningum 2003 lamdi Samfylkingin á Sjálfstæðisflokknum með ESB-bareflinu. 

Kjósendur höfnuðu ESB-tilboði Samfylkingar, bæði í kosningunum 2003 og 2007. Sjálfstæðisflokkurinn gerði aftur þau reginminstök að efna til stjórnarsamstarfs við Samfylkinguna 2007 og þar með varð fjandinn laus.

Alþýðubandalagsmennirnir Steingrímur J. og Ögmundur stofnuðu Vinstrihreyfinga grænt framboð til að gera þjóðernissinnuðum pólitískt heimili og græningjum líka. Flokkurinn hafnaði ESB-aðild og ræktaði með sér íhaldsöm gildi.

Hrunið 2008 og niðurlæging Sjálfstæðisflokksins skóp vinstriflokkunum sögulegt tækifæri. Þeir áttu þess kost að hefja sig upp og finna nýjan samnefnara fyrir vinstripólitík á Íslandi.

Tækifærinu var sólundað með því að Samfylkingin tróð ESB-umsókninni ofan í kok Vinstri grænna.

 


mbl.is Endurskoði aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vá páll, ég hef ekki séð meira eggjahljóð á bloggi þínu frá því í fyrra þegar þú eyddir tugum dálkmetra í að segja okkur að evran væri hrunin, evran væri búið spil,  evran væri o.sv.fr. sennilega verður ríkisstjórnin á lífi um svipað leyti á næsta ári, svona eins og evran er í dag.

fridrik indridason (IP-tala skráð) 14.4.2012 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband