Mánudagur, 9. apríl 2012
ESB veit ekkert um Ísland, líkt og Danir forðum
Aðalsamningamaður Íslands í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, Stefán Haukur Jóhannesson, viðurkennir að áhrifamenn í Evrópusambandinu vita mest lítið um íslenska hagsmuni. Stefán Haukur lét þessi orð falla í þætti Jóns Baldurs Lorange Nei eða Já í Útvarpi Sögu
Það vill nú svo til að það er ekki svo mikið þekking iðulega á okkar sjávarútvegsmálum innan ESB. Þegar við byrjum á því að útskýra málin þá vex skilningurinn og menn átta sig betur á okkar sérstöðu, til dæmis að okkar efnahagslögsaga liggi ekki að efnahagslögsögu neins aðildarríkis innan ESB og að stærsti hluti stofnanna er staðbundinn og eingöngu veiddur af Íslendingum. Og fyrir utan það að við erum að reka sjávarútveg með sjálfbærum hætti og svo framvegis og svo framvegis. Jafnframt eru menn oft að misskilja eða þekkja ekki nógu vel sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, oft lykilmenn í aðildarríkjunum.
Ísland er útsker 300 þúsund manna þar sem aðalatvinnuvegurinn er sjávarútvegur en sú atvinnugrein er skilgreind sem hliðarbúgrein landbúnaðarins í Evrópusambandinu. Ráðandi öfl í Evrópusambandinu þekkja ekkert til íslenskra aðstæðna og ekki einu sinni til sjávarútvegsmála í ESB - enda hvorutveggja smámál.
Þegar Ísland var hjálenda Dana, frá dögum Kalmarssambandsins á 14. öld og til 1918, réðu embættismenn í Kaupmannahöfn úrslitum íslenskra mála. Þessir embættismenn komu aldrei á útskerið og þekktu ekki til aðstæðna hér á landi.
Ísland var geirfuglafyrirbæri í Danaveldi. Hjálendan var sniðug eign en skipti engu mál sem slík. Í Evrópusambandinu fær Ísland álíka stöðu. Ísland fengi sex þingmenn af 750 á Evrópuþinginu ef landið yrði aðili að ESB, sem gerir 0,8 prósent áhrif. Í ráðherraráðinu, þar sem allar helstu ákvarðanir eru teknar, er atkvæðum skipt eftir fólksfjölda aðildarþjóða. Ísland mun fá 0,06 prósent áhrif í ráðinu (við erum 320 þúsund/íbúar ESB eru 500 milljónir).
Við eigum skýra kosti að velja á milli. Að vera fullvalda þjóð meðal þjóða og skapa okkur framtíð á eigin forsendum eða segja okkur til sveitar hjá Evrópusambandinu þar sem Ísland verður hornkerling.
Athugasemdir
Þetta er nefnilega einmitt kjarni málsins.
Vel getur verið að oft vanti Íslendinga aga í stjórn eigin mála. Það liggur í augum uppi.
Málið er þó að Ísland er 2000 kílómetra í burtu frá Brussel og enn lengra frá Berlín. Hinir reglusömustu og öguðustu bírókratar koma aldrei til að mögulega geta komið á móts við Íslendinga í nokkrum málum. Meira að segja þó svo vel vildi til að besti vilji væri til staðar. Hvað segir familia Makríll okkur?
Hvað vita Íslendingar um Rómafólkið eða Svartfjallaland?
Passar sama brókin öllum þó hún sé vel bróderuð með reglugerðum?
Ég segi fyrir mig að mér þykir henta best að hafa eitthvað um mitt brókarval að segja. Hafi ég valið vitlaust get ég þó í það minsta eitthvað gert í málunum sjálfur.
jonasgeir (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 11:24
Enn mun meiri ástæða fyrir því að Íslendingar fái sérsamninga vegna sjávarútvegsins líkt og aðrar þjóðir hafa fengið sérsamninga varðandi eigin auðlindir.
Gott að ESB andstæðingar séu farnir að horfast í augu við þetta.
Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 11:51
Ekki nóg með það, heldur myndu ESB þjóðir yfirtaka fjármál Islands algerlega og vaða um allt eins og eldur í sinu. Kaupa og yfirtaka stofnanir og fyrirtaeki landsins. Rétt eins og att hefur sér stað í Danmörku.
Björn Emilsson, 9.4.2012 kl. 12:07
Danakonungar gátu leyst íslenzk mál með lögum og tilskipunum, sem aðeins giltu á Íslandi. Það yrði ekki þægilegt fyrir Brusselvaldið, sem getur að minnsta kosti ekki veitt neina undanþágu frá sínum 90.000 blaðsíðum af regluverki. Danakonungar höfðu einfalda stjórnsýslu, svo að íslenzk mál voru aðallega á einum eða tveimur stöðum í kerfinu, oft í höndum íslenzkra eða langreyndra embættismanna, sem þar störfuðu. ESB hefur marga kommissara, sem er skipt um á nokkurra ára fresti, passa vel upp á sína málaflokka og vita ýmist lítið eða ekkert um Ísland. Að öllu athuguðu: Ef aðeins væri um það tvennt að ræða að biðja Margréti drottningu að gerast einvaldur á þessu landi eða innlima það í ESB, lízt mér mikið betur á fyrri kostinn. Svona miklu finnst mér skipta að sigrast endanlega á áhrifum Samfylkingarmanna í öllum flokkum á íslenzk þjóðmál.
Sigurður (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 13:21
Páll segist ekki vera Baugsmiðill.
En er hann á ESB ritlaunum eins og Björn Bjarnason?
Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 14:10
0,06 % Áhrif...?
Einmitt...!
Til hvers var farið í þá sjálfstæðisbaráttu sem Fjölnismenn & co hófu ef svo á að selja sjálfstæðið fyrir ódýrari mat, lán og þjónustu...? Til að verða feitur þræll efnahagsbandalags sem er fyrirmunað að skilja þær aðstæður sem við frónbúar lifum við...?
Já, nei takk... Sama og þegið...
-
Það kostar að vera sjálfstæð þjóð útí ballarhafi...
Það kostar líka að reka þjóðfélag sem byggist á hugmyndinni um lýðræði... (Maður heyrir, og les, stundum í fólki sem sér samt í kostnaðinn við svoleiðis rekstrarfyrirkomulag... Pældu í því...!)
-
Ég veit ekki hvort það koma svona reglulega tímabil forheimsku, fasisma og andþjóðfélagslegra hugsana upp hjá okkur mannfólkinu... En í byrjun síðustu aldar þótti það fínt og hið ágætasta mál að hafa svipaðar skoðanir og maður heyrir núna í umræðunni...
-
Allt bákn er fasískt í eðli sínu... Og mun allaf vera...
Sá fasismi verður ekkert betri þótt hann sé "glasseraður" með loforðum um ódýrari lán og matarinnkaup... Hann er andlýðræðislegur...!
Sævar Óli Helgason, 9.4.2012 kl. 15:59
Smá leiðrétting til handa Sævari; bákn er í eðli sínu "sósíalískt" - hvort heldur það byggist á þjóðernissósíalisma, byltingarkenndum sósíalisma eða einhverjum öðrum isma sem klæðir valdhafana og sækir siðferði sitt í algilda visku. Kommúnismi, fasismi, nasismi - allt greinar á sama meiði.
Ólafur Als, 9.4.2012 kl. 17:54
Já, er það ekki. ESB menn þekkja ekkert til íslenskra aðstæðna. Ísland er svo flókið, svo “sophisticated”, að fáfróðir útlendingar munu seint átta sig á okkar “sérstöðu”. Að vísu gerðum við það ekki sjálf og keyrðum því allt í þrot. En það skiptir engu máli, við erum búinn að gleyma því. “We are different”, sagði forseta ræfillinn. Og hann hafði nefnilega rétt fyrir sér.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 18:21
Haukur er svo klár og passar virðist vera sérlega vel í reglugerðarbrækur milljónasamfélagana, en ég myndi þó frekar segja um Íslendinga eitthvað svona;
Íslendingar eru ekki alveg eins. Sem betur fer. Og svei mér þá, það á við um fleiri þó nær séu Brussel.
(Og svona í forbifarti á Skandinavískunni. Við keyrðum allt í þrot segir hann. Samt er margt ennþá í góðu lagi og jafnvel miklu betra en í Evrópunni. -Hvernig getur það verið?).
jonasgeir (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 18:31
Hvernig í ósköpunum getur þú Ólafur Als flokkað eitthvert "bákn" einsog skrifræðisbáknið í Brussel sem sósíalískt eða eitthvað annað...?
Allt stjórnkerfi mannkynsins, allstaðar, er arfleið frá hinni fasíska stjórnkerfi konungsdæmanna og lénsskipulagsins... Þú veist þar sem einn réði og notaðist við ofbeldi, eða hótuninni, til að láta landslýð fylgja valdboði sínu... Það er að grundvelli fasismi...!
Við notumst ennþann dag í dag við svoleiðis gerræðislega stjórnsýslu þegar stjórnvöld, sama útfrá hvaða stjórnmálastefnu þau telja sig vinna, gera samfélaginu t.d einhverja lagabreytingu með, eða þarf að fylgja eftir með, valdboði... Til þess er t.d lögreglan sem er að sjálfsögðu fasískstofnun... Einsog allt ríkisbáknið...!
-
Við höfum oft í okkar stuttu valdasögu duflað við þennan fasisma... T.d þegar ríkisstjórn Íslands kallaði ekki saman Alþingi en setti samt aftur og aftur "bráðabirgðarlög..." Sem svo voru dæmd ólögleg þar sem ríkisstjórn Íslands má ekki setja lög... Til þess hefur hún ekki lagaheimildir... Þurfi að beita bráðabirgðarheimildinni í stjórnarskrá þá ber að kalla Alþingi saman um leið og henni hefur verið beitt og Alþingi verður að samþykkja notkun heimildarinnar og fastsetja svo lögin...
-
Svo held ég að þú sért ekki alveg að skilja, eða vilt misskilja, sósíalisma... Ert þá komin annsi nálægt áróðursbullinu í Fox-news... Horfir þú nokkuð mikið á þá sjónvarpsstöð...? Því það er slæmt mál...
Sósíalismi er lýðræðishugmyndin í öllu sínu veldi, jafnrétti borgarans o.sv.fr... T.d teljast allir forn- Grikkir og feður lýðræðisins til sósíalista... Eins er með feður kapítalismans, Adam Smith o.fl, þeir voru allir sósíalistar að reyna að leysa vandamál sem skortur skapaði í samfélaginu...
Sósíalismi ekki frekar en kapítalismi eða kommúnismi hefur ekkert að gera með hið fasíska-stjórnsýslubákn sem okkur virðist ómögulegt að sleppa við... Það verður líklega alltaf til...
Sævar Óli Helgason, 9.4.2012 kl. 18:48
Hvað Evrópu varðar er Ísland dularfulla landið.
Þar sem álfarnir búa, eldfjöllin gjósa, búpeningurinn gengur á beit á grænum völlum í yndislegu veðri, en mannfólkið hírist í snjóhúsum og semur ljóð og skáldsögur í eilífu skammdegi.
Vitaskuld á milli þess að á skáldin færist berserksgangur svo þau æði út á hafið og drepi þar allt kvikt. Eða ráðist í víking og steli sparifé erlendra sakleysingja.
Hvernig er hægt að ætlast til þess að embættismenn ESB skilji þessi ósköp?
Kolbrún Hilmars, 9.4.2012 kl. 19:10
Þakka pistilinn Páll,
kemur beint að kjarna málsins. Einfalt en skýrt. Best.
Auðvitað munu hagsmunir þeirra stærri ráða og hagsmunum þeirra minni verður kastað fyrir róða í ESB. Það er bara einfaldlega eðli stærri stjórnkerfa/samtaka að lúta lögmálum/vilja heildarinnar, hvort heldur menn vilji kalla þau socialistisk eða ekki í eðli sínu.
Að halda öðru fram er því miður bara einhvers konar Evrópu-naivismi, eða strútsblinda.
Okkur sem örþjóð væri hollast að fara að átta okkur á þessu og fara að hlúa betur að mögulegum kostum þeim sem felast í okkar míkrósamfélagi sem við erum og einhenda okkur í að fara að bæta lifnaðarhætti okkar út frá því og á okkar eigin forsendum. Í stað þess að ala á minnimáttarkennd landans með því að reyna að telja einum og öðrum trú um að við sem þjóð klárum okkur ekki utan bandalags Evrópu.
Við sem þjóð höfum fengið okkar lexíu með hruni banka og stjórnkerfis/stjórmála nú nýverið. Við höfum ekki bara tapað miklum peningum heldur einnig trúnni á stjórnkerfi og stjórnmálamenn þessa lands og samfara þessu var einnig hart vegið að sjálfstæði og stolti okkar sem þjóðar. Við fengum svo sem í staðinn smá skerf af auðmýkt og vonandi aukna respekt fyrir öðrum þjóðum sem margur landinn taldi vera okkur langtum síðri á flestum sviðum. Við vorum fyrir hrun líklega klárari en allir, en núna eftir hrun bara klárari en flestir, eða þá bara klárari en einhverjir, kannski. Mátti svosem á þar sjá, eða breyting verða.
Ekki skrýtið þó að úr þessum jarðvegi mundi þeim öflum ósjálfstæðis og minnimáttarkenndar gagnvart öðrum þjóðum vaxa fiskur um hrygg og fylgi við inngöngu í ESB mundi aukast að sama skapi. Áhrifin voru þó einnig tvíbennt, reiðin olli hjá sumum einnig ESB-fráhvarfi, sem því miður gæti orðið bara tímabundin þar til reiðin gengur yfir og “sáttin” tekur við í sorgarferlinu.
Öll sár taka tíma að læknast, svöðusár sem önnur. Gefum okkur tímann sem þarf en föllum ekki í þá freistni eða uppgjöf þess sem liggur tímabundið í valnum að halda það að við sem þjóð séum ófær um að standa ein að því að byggja okkur mannsæmandi og stolt samfélag, þó míkrósamfélag sé og algerlega fyrir utan ESB og önnur þjóðarbandalög.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 11.4.2012 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.