Frjálshyggja, valdahyggja og frjálslynt íhald

Frjálshyggjan átti stjórnmálasviðið frá 1980 til 2010, beggja vegna Atlantsála. Reagan, Thatcher, hrun kommúnistaríkjanna og meint kreppa velferðarríkisins teppalögðu sigurgöngu óheftrar markaðshyggju sem leiddi til yfirgengilegrar græðgi og botnlausrar heimsku. Undirmálslánin í Bandaríkjunum og fall Lehmans bræðra setti stopp á frjálshyggjuna.

Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi frjálshyggjuna hér á landi. Samfylkingin tók upp frjálshyggju en kenndi hana við Blairisma og framsóknarmaðurinn Finnur Ingólfsson var ekki frábitinn frjálshyggjunni eins lengi og hann græddi á henni sjálfur. Frjálshyggjan varð að valdahyggju. Bæði valdhafar og verðandi valdhafar tileinkuðu sér frjálshyggju.

Samfylkingin varð meiri frjálshyggjuflokkur en móðurflokkurinn. Jón Ásgeir fjármagnaði Samfylkinguna og Björgólfur Guðmundsson flutti hátíðarræðu á landsfundi Samfylkingarinnar.

Morgunblaðið, Skafti Harðarson og aðrir áhugamenn um klassíska frjálshyggu freista þess að skilja á milli sín og hinna sem tileinkuðu sér frjálshyggju valdanna vegna. Fyrirfram er þetta tapaður slagur. Sósíalistar voru í sömu sporum eftir innrásina í Tékkóslóvakíu 1968. Rökin eru um það bil þau eins: hugmyndafræðin er góð en útfærslan misheppnaðist.

Frjálshyggjan sem hugmyndafræðilegt afl dó með Lehman bræðrum 15. september 2008.

Ómögulegt er að spá um hvaða hugmyndafræði verður hinn nýi sannleikur. Hugmyndalegt forræði tekur áratugi að mótast.

Á hinn bóginn er nokkurn veginn augljóst hvaða leið hægrimenn eiga að fara til að halda í kjósendur. Það er leið Merkel í Þýskalandi sem má kenna við borgaralegt frjálslyndi í einn stað og annan stað fjárhagslega íhaldssemi.

Sarkozy í Frakklandi er svo hrifinn af pólitískri uppskrift Merkel að hann bað hana að koma yfir bæjarlækinn að berjast með sér í forsetakosningunum. Merkel þáði en svo fann Sarkozy það út að þýska frjálslyndið var full mikið af því góða fyrir Frakka. Til að ná þjóðernissinnum um borð þarf Sarkozy að herja á útlendinga.

Staðbundnar aðstæður ráða útfærslunni á frjálslyndu íhaldsstefnunni. Á Íslandi, til dæmis, er ESB-umsóknin í sama hlutverki og útlendingurinn í frönsku kosningabaráttunni: persona non grata.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Je minn!! Persónan hans Nonna graða,ha verður fjör,vinnumetta.

Helga Kristjánsdóttir, 1.4.2012 kl. 12:12

2 identicon

Fyrsta hreina vinstri stjórnin festir kvótakerfið í sessi og Natóþingmaðurinn Birgitta hefur áhyggjur af því að Obama ráðist gegn sér. Menn sjá hvorki til hægri né vinstri þegar þeir eru á bólakafi í hugmyndafræðilegu foraði.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 12:38

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það eina sem gerðist á Íslandi á ríkisstjórnarárum DO var að íslenskt hagkerfi færðist úr því að líkjast Rússlandi og að því að líkjast Þýskalandi, Danmörku, Frakklandi og öðrum Vestur-Evrópuríkjum. Meiri var nú frjálshyggjan ekki.

Mér hefur líka mistekist að sjá nákvæmlega hvað það er við frjálshyggjuna sem hvatti ríkisvaldið til að einoka peningaútgáfu. Því ef það er frjálshyggja, þá get ég því miður ekki kallað mig frjálshyggjumann.

Geir Ágústsson, 1.4.2012 kl. 13:35

4 identicon

Ja hérna! Þetta er góður pistill hjá þér Páll.

Og með þessari góðu viðbót Geirs Ágústssonar hér að ofan þá er þetta lestur dagsins sem þarf að melta...

Sigurður Herlufsen (IP-tala skráð) 1.4.2012 kl. 15:39

5 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Góður pistill Páll !

En að frjálshyggjan ætti sviðið 1980 til 2010 er nú kannski ekki alveg satt, því raunverulegri frjálshyggju hefur hvergi verið beitt né sleppt lausri í nokkru landi enn (kannski eins gott líka) þetta sem þú með réttu kallar "valdahyggju" var bara gefið þetta nafn, gjarnan af svokallaðri "akademíuelítu" sem fannst hún vera sett til hliðar, en studdi í raun og veru sukkið, sukkið sem fólst í þessu samspili valdagráðugra pólítíkusa og óabyrgra braskara, sem vissu fyrirfram hvert átti að senda reikninginn þegar bólan sprakk.

"Frjálshyggjan sem hugmyndafræðilegt afl með Lehman bræðrum 15. september 2008." skrifar þú Páll ! og er að sumu leiti satt, eitthvað dó allavega, vonandi segi ég nú bara, ef menn vilja kalla það frjálshyggju þá gerir það ekkert til, en á meðan sama fólkið er við völd, sömu braskararnir með það í vasanum, er ég hræddur um að sagan endurtaki sig, hvað það verður kallað þegar allt fer í hrun næst, reikningurinn svo greiddur með lífskerðingum almennings, nei ! ég veit ekki hvaða nafn óskapnaðurinn fær þá, "frjálshyggjunafnið" er dautt, en við finnum eitthvað annað nafn.

Sjálfur óskapnaðurinn sem þú heldur að hafi "dáið" með Lehman bræðrum 15 sept. 2008, er enn á lífi, liggur lágt í landinu eins og er, en er tilbúinn fyrir nýjan umgang.

En góður pistill Páll, mjög góður.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 1.4.2012 kl. 16:39

6 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Frjálshyggjunni er kennt um margt. Hún á að vera stefna græðgisins.

Græðgin fylgir manninum og er hluti af honum.

Misjafnlega mikil milli einstaklinga, en ekki er hún bundin við stjórnmálastefnur sem slíkar.

Ég sé græðgina vaða áfram í öllum flokkum, en birtingarmynd hennar mismunandi skær.

Hún er vissulega skær meðal bankarekenda, en þar er aðeins um að ræða meira tækifæri til að láta hana grassera.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 1.4.2012 kl. 17:54

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Fólk vill hafa frelsi til athafna, búsetu, atvinnu, hugsunar, tjáningar, hreyfingar og samskipta.  Slíkt frelsi er talið sjálfsögð mannréttindi, enda varið í öllum alvöru stjórnarskrám. 

Þannig frelsi skilgreinir alla sem frjálslynda og frjálshyggjufólk.  

Óheft frjálshyggja, sem miðar að afnámi reglna, hafta og eftirlits  og stuðlar að óstjórnlegri græðgi og "valdahyggju" verður sjálfdauð, en dauðastríðið smitar langt út fyrir eigin raðir.  

Ný hugmyndafræði þarf að vera manneskjulegri, vingjarnlegri og skynsamlegri gagnvart náttúru og mannfólki. 

Góður pistill Páll.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.4.2012 kl. 19:31

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég get ekki beðið eftir að Ábyrgðarkver Gunnlaugs Jónssonar verði komið í hendur sem flestra (http://sogurutgafa.is/abyrgoarkver.html). Það mun einfalda alla umræðu á Íslandi og greiða úr þeim mikla frumskógi skilgreininga sem er í gangi þar sem gjörólíkir hlutir eru jafnvel kallaðir sömu nöfnum, blaðamönnum til mikils ruglings.

Geir Ágústsson, 2.4.2012 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband