Gjaldmiðill skapar ekki auð - og varla þjóðríki

Á bakvið umræðuna um að skipta út krónunni fyrir erlendan gjaldmiðil er víða að finna hugsunina ,,allt fyrir ekkert." Kostir gjaldmiðlabreytingar eru magnaðir upp og  ókostirnir ekki nefndir. Að sama skapi er skórinn níddur af krónunni og henni ekkert talið til tekna.

Gjaldmiðlar skapa ekki auð heldur miðla þeir verðmætum. Öll samfélög með fleiri íbúa en 100 til 150 þúsund reka eigin gjaldmiðil, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Tvær undantekningar eru því fyrirkomulagi að fullveðja þjóðríki reki eigin gjaldmiðil. Í fyrsta lagi stríð og allsherjarhrun innviða (Kosovo og El Salvador) og í öðru lagi að samrunaferli á borð við Evrópusambandið fái þjóðríki til að afleggja gjaldmiðla sína.

Evrópusambandið stendur fyrir tilrauninni um evruna, þar sem 17 ríki hófu fyrir áratug að reka sameiginlega mynt. Tvísýnt er um framtíð evru-samstarfsins í ljósi þess að fjölmörg jaðarríki s.s. Írland, Grikkland, Portúgal og Spánn eiga í verulegum vanda innan samstarfsins.

Ríki sem ætluðu að taka upp evru, t.d. Danmörk, Svíþjóð og Pólland hafa slegið þeim áformum á frest sökum óvissunnar um framtíð myntsamstarfsins. Þessar þjóðir eru þegar í Evrópusambandinu og frestun þeirra á upptöku evru er í þagu þjóðarhagsmuna.

Ísland stendur hvorki frammi fyrir allsherjarhruni innviða samfélagsins né er Ísland aðili að Evrópsambandinu - þrátt fyrir umsóknina.

Eina rökrétta niðurstaðan af umræðunni um gjaldmiðlamál á Íslandi er að til millilangs tíma, fjögur til sex ár, er óhugsandi annað en að krónan verði gjaldmiðill okkar. Jafnframt er óhugsandi að Ísland taki upp erlendan gjaldmiðil án þess að ákveða samhliða að taka þátt í samrunaferli þjóðríkja.

Eina tilraunin með samrunaferli þjóðríki, sem nú stendur yfir, er Evrópusambandið. Að fjórum til sex árum liðnum verður skýrara hvort evru-samstarfið mun leiða til nýsköpunar þjóðríkja á meginlandi Evrópu. Tækist það væri um sögulegt nýmæli að ræða.

Við skulum hinkra við og sjá hvort frændþjóðir okkar, Danir og Svíar, láti sannfærast um framtíð evru-þjóðríkisins og láti gott heita að verða héröð í Stór-Evrópu. Þangað til skulum við standa álengdar rétt eins og við gerðum í 30 ára stríðinu, Napoleónsstyrjöldunum, og heimsstyrjöldunum tveim. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það er ágætt að hafa samkeppni í þessu:

  • Króna áfram?
  • Kanadadollar?
  • Evra?

Vegna "jólasveinaháttar" í efnahagsmálum - hefur krónan sífellt verið þynnt út - sem gjaldmiðill - nánast stanslaust frá 1944. Af hverju?

Af hverju hefur ekki verið  unnt að draga úr þessari útþynningu krónunnar?

Líklegt svar: Vegna þess að fjármálaákvæði stjórnarskrár - 40. og 41. gr. hafa ekki verið virtar - nema annað slagið.

Skársta tímabilið er t.d. þegar Friðrik Sophusson var fjármálaráðherra - svo þegar góðæri var hér 2000-2007 - þá var fraið að "taka stöðu" í krónunni og veðja á hana "í báðar áttir".

Hvernig að að koma í veg fyrir slíka spákaupmennsku braskara - ef gjaldeyrishöft verða afnumin aftur??  Hvernig?

Það er ekkert fyndið að vera bara "krónuvinur" og hafa jafnvel ekkert hugleitt þessi mál í alvöru Páll!

Á að setja kíkirinn fyrir blinda augað aftur og gefa skít í afleiðingarnar?

Ég er persónulega á því að Kanadadollar sé besta lausnin - því ég sé ekki að hægt sé að treysta Íslenskum stjórnmálamönnum og  ráðgjöfum þeirra í efnahagsmálum fyrir því að geta ráðið við krónuna.

Eini m0guleikinn sem ég sé - er enn þá harðari fjármálaákvæði - og mjög strangar reglur í bankamálum þar sem allt brask væri bannað og læst fast.

Er það hægt? Eru ekki óskistir krónunnar svo hroðalegir - ða menn bara vilja ekki sjá það.  Ég sé ekki hvernig það á að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls með krónuna.

Ókostirnir við Kanadadollar eru eflaust einhverjir. En hverjir eru ókostirnir.  Er það kostur erð ókostur að geta ekki fellt gengið?

ER þetta ekki bara spurning um alvöru skiptimynt en ekki einhverja bölvaða tilfinningavellu?

Evran virðist mér sísti möguleikinn - vegna stirðbusaháttar ESB um að við megum ekki taka upp Evru á forsendum EES samningsins sem hefði verið möguleika.

Ég geri þessar kröfur um gjaldmiðilinn.

  • Frjálsa utanríkisverlsun  - ekki höft í gjaldeyrisviðskiptum.
  • Lágir vextir á húsnæðislánum
  • Stöðugleiki.

Þetta þarf allt að gerast á minna en 2 árum.

Ég sé ekki möguleika á að krónan geti þetta.

Þá er bara að ræða þetta opinskátt - en ekki með einhverri glýu í augunum yfir "ágæti" krónunnar - þó það hafi verið hægt að fella hana eftir allt klúðrið 2008.

Höfum bara þessa þrjá möguleika í umræðunni - og enga þöggun um að útiloka  einn eða neinn möguleikann þí Evra sé aftast í rökræðunni - vegna þess hve langan tíma  það tekur.  Við höfum engan tíma! 

Bara höfum nú tíma í alvöru rökræðu um kosti og galla þessara þriggja möguleika.

Kristinn Pétursson, 18.3.2012 kl. 10:08

2 identicon

Nú fara fastir liðir eins og venjulega að vakna og taka til við að rakka niður þennan pistil (sem er ágætur) og dásama Evruna, sem er svo sterk að hægt er að metta fimm þúsundir með þremur fiskum og fimm brauðum (ef þeim er skipt í evrur). Þeim láist venjulega að útskýra hvernig þetta er gert, nema þá að það sé í virkilega góðu samstarfi við æðri máttarvöld. En peningar vaxa ekki á trjám, heldur með vinnu og framleiðslu og peningurinn verður að vera í tengslum við þessa þætti til að virka.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 10:12

3 identicon

Hvað heitir gjaldmiðill Liechtenstein?

Unknown (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 10:29

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Svissneskur Franki.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.3.2012 kl. 10:51

5 identicon

Kristinn: Það er spurning hvort útþynningin sé alslæm. Maltverska líran hélt verðgildi sínu og vel það gagnvart bresku pundi eftir sjálfstæði. Hinsvegar hefur framþróun verið hæg og það vantar enn aðeins upp á að Maltverjar hafi náð Bretum hvað varðar lífskjör.

Þegar binding íslensku krónunnar við þá dönsku var rofin var Ísland fátækasta land Evrópu. Í rauninni var Ísland á svipuðu róli efnahagslega og nýlendur Evrópuríkja í Asíu. Við höfum síðan fellt gengið og klórað okkur áfram á útflutningi og erum núna, þrátt fyrir hrun, í hópi ríkustu Evrópulanda.

Líklega erum við núna komin á þann stað í þróuninni að við þurfum að leggja meiri áherslu á að gjaldmiðillinn haldi verðgildi sínu en það er hættulegur hugsunarháttur að líta á allt sem hefur tekist vel sem sjálfsagt og skoða bara það sem er verra sem ávöxt hagstjórnarinnar.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 10:51

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Mér sýnist af erindi á link að Grænhöfðaeyjar séu að gerast aðili að EU.

Skemtilegt hve fáninn er líkur íslenska fánanum:

http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/3/38/Flag_of_Cape_Verde.svg/510px-Flag_of_Cape_Verde.svg.png

þeir eru samt hluti af Afríkubandalögum en hafa verið að færa sig sífellt nær EU:

http://en.wikipedia.org/wiki/Cape_Verde%E2%80%93European_Union_relations

það vilja bókstafle allir vera í EU! Bókstaflega allur almenningur. Nema einhverjar sjallasérhagsmunaklíkur hér sem tekst að heilaþvo innbyggjara með yfirgengilegu bulli.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.3.2012 kl. 11:00

7 identicon

Þannig að þessi fullyrðing í blogginu eru röng:

"Öll samfélög með fleiri íbúa en 100 til 150 þúsund reka eigin gjaldmiðil, samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins."

Sama hvað AGS fullyrðir.

Margir munu segja að Liechtenstein sé öðruvísi en aðrar þjóðir.  Það segja margir líka um Ísland.

Unknown (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:16

8 identicon

Sorrý, í Liechtenstein búa jafn margir og í Kópavogi.  Þannig að ég hef rangt fyrir mér.

En góð hugmynd fyrir Gunnar og sjálfstæðismenn í Kópavoginn að gefa út eigin gjaldmiðil, "Kópinn".

Unknown (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:33

9 identicon

Skv. CIA World Factbook eru íbúar Liechtenstein 36.713.

Égh þykist nokkuð viss um að 37.000 sé minni tala en 100.000.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:35

10 identicon

Grænhöfðaeyjar eru nú sem betur fer ekki alveg eðlilegt viðmiðunarland nema kanski í heimi krata sem vilja helst að allir hafi það jafn ömurlegt, því þá er summa hamingju allra svo auðveld að mæla....  (Sænskur heimspekingur skrifar svo).

Það þynna allir út sína pappírspeninga.  Líka í Kanada.  Gallin er að Seðlabanki kanada fengi þann "hagnað" allan á kostnað ósjálfstæðra meðhlaupara eins og Íslendinga væri sú raunin.

Það er mikill kostnaður. Og eiginlega óþarfur.  Það þarf bara fólk með vott af skynsemi í fjármálastjórnina sem er ekki jafn lánaglatt og flestir kratar.

jonasgeir (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 11:41

11 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Góður pistill en þó eru villurnar nokkrar eins "alsherjarhrun innviða samfélagsins". Mér finnst þú Páll orða vel nákvæmlega það sem skeð hefur á Íslandi. Innviðir samfélagsins sem eru lang morknir og fúnir hafa nú hrunið þegar á reyndi. Ísland í dag.

Vaðrandi krónuna þá hefur okkar litla króna verið notuð sem frjálst veiðileyfi á Launamenn í landinu eins og verið er að gera einmitt núna. Í stað þess að örva atvinnulífið með því að afnema EINOKUN smellur svipan enn einu sinni í rassgatið á Launþegum og lifeyrisþegum sem eiga að bera allan þungan af því að rétta þjóðarskútuna af og borga skuldir óreyðumanna í útgerðinni sem fá milljarða afskriftir á sama tíma og gengi krónunnar er notað til að moka undir rassgati á þeim.

 Sannleikann kæru kjósendur biðjið um sannleikann.

Ólafur Örn Jónsson, 18.3.2012 kl. 11:53

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Þannig að þessi fullyrðing í blogginu eru röng:

"Öll samfélög með fleiri íbúa en 100 til 150 þúsund reka eigin gjaldmiðil.."

Auðvita er það bull. það er þumalputtaregla að þegar Andsinnar segja eitthvað - þá er það 100% bull.

Í þessu tilfelli tekur um 5 sekúndur að sína fram á bullið:

http://en.wikipedia.org/wiki/Monetary_union

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.3.2012 kl. 12:13

13 Smámynd: Kristinn Pétursson

Samkeppni um þessi þrjú sjónarmið - það fer lítið fyrir rökstuðningi hér í aths um kosti og galla þessara þriggja leiða.

Ég hef ekkert á móti krónunni - ég sé bara ekki hvernig hægt verður að afnema gjaldeyrishöftin og hafa vexti til húsnæðislána jafn lága og á Kanadadollar.

Auðvitað eru líka gallar á Kanadadollar - en við verðum að fá að geta rætt það  mál án einhverra fordóma.

Söfnum saman kostum og göllum þessara þriggja leiða:

Króna:

  • Við getum á "sjálfstæðan hátt"  fellt gengið
  • Vísitla
  • Háir vextir
  • Verðbólga
  • ?

Svo er það Evra:

  • Hvenær er það hægt? 6 ár ??? 
  • lægri vextir - já eftir 6 ár
  • minni verðbólga - eftir 6 ár

Kanadadollar:

  • Lægri vextir - strax og myndbreyting er gerð.
  • Verðbólga - engin eftir myntbreytingu
  • Tími - eitt ár
  • Stöðugleiki Já
  • Gengisfelling - ekki hægt.

Svona sé ég þetta - skrástalendingin er Kanadadollar -  en hverjir eru gallarnir við það?

Samkeppni er besti drifkraftur framþróunar - áfram með samkeppni um hver er besta leiðin í þessu.... áfram með umræðuna um þessa þrjá möguleika.

Kristinn Pétursson, 18.3.2012 kl. 16:52

14 identicon

Kristinn: Hvað gerist ef það eru lægri vexti á húsnæðislánum og jafn mikið af húsnæði?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 17:40

15 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það hækkar trúlega eitthvað verð fasteigna og þannig lagast aftur staða heimila landsins

Kristinn Pétursson, 18.3.2012 kl. 18:00

16 identicon

Húsnæðiverð myndi hækka og þannig yrði tilfærsla í eitt skipti frá þeim sem eru að koma inn á húsnæðismarkað til þeirra sem eitthvað eiga í húsnæði. Húsnæðiskaup yrðu ekki ódýrari til lengdar litið.

Fyrir mitt leiti þætti mér það heiðarlegra að leggja bara skatt á ungt fólk til styrktar hinum eldri.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.3.2012 kl. 18:06

17 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Í umræðum um hinn „hand-ónýta gjaldmiðil", íslensku krónuna er oft minnst á það að hún hafi fallið í 1/2000 af hinni dönsku síðan leiðir skildu einhverntíman snemma á síðustu öld. Af þessu eru svo dregnar ýmsar ályktanir. Nú er það svo að lífskjör manna í Danmörku og Íslandi eru nokkuð áþekk, í grófum dráttum má segja að hver vinnandi maður ráði yfir íbúð og bíl. Hvernig ætli ástandið væri ef krónan hefði ekki fallið svona? Ætti maður þá 2000 íbúðir? og jafnmarga bíla?

Ég held að ef við ætlum að taka upp stöðugan gjaldmiðil þurfum við fyrst að leggja af ýmsa ósiði eins og langvarandi halla á ríkissjóði og viðskiptum við útlönd. Og kjarasamninga sem ekki er innistæða fyrir. Að því loknu þyrftum við ekki að taka upp annan gjaldmiðil, okkar væri orðinn stöðugur.

Hvað varðar hættu af spákaupmennsku má benda á að í kreppunni síðla árs 2008 hækkaði japanskt jen upp úr öllu valdi af því að spákaupmenn töldu jenið öruggt skjól. Japanskur útflutningur leið hins vegar fyrir hækkunina. Og ekki er jenið „lítill" gjaldmiðill.

Hólmgeir Guðmundsson, 18.3.2012 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband