Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
Kennarar eru varavinnuafl heimilanna
Á meðan grunnskólakennarar eru varavinnuafl heimilanna verður á brattan að sækja í kjarabaráttunni. Það skortir á að litið sé á grunnskólakennslu sem alvöru starf og þar af leiðir að alvöru laun eru ekki í boði.
Það stendur upp á kennara og samtök þeirra að gera landsmönnum grein fyrir mikilvægi grunnskólakennslu. Á síðustu áratugum þegar kvenkennaravæðing grunnskólans stóð yfir sömdu kennarar um frídaga í stað launahækkana. Það var rökrétt framhald af þeirri afstöðu margra kvenkennara að þeir væru varavinnuafl heimilisins sem ynni samhliða heimilisstörfum fyrir aukatekjum á meðan karlinn skaffaði aðaltekjurnar.
Eftirhreytur af gömlu samningunum eru starfsdagar þar sem skólum er lokað til að kennarar geti sinnt endurmenntun sinni. Það þekkist ekki hjá öðrum starfsstéttum þjóðfélagsins að vinnustöðum sé skipulega lokað til að starfsmenn endurmennti sig. Líkt og aðrar stéttir ættu kennarar að geta lagt stund á endurmenntun án þess að skella í lás.
Ekkert fer eins í taugarnar á foreldrum og starfsdagar grunnskólakennara. Og það vita kennarar ósköp vel og óskiljanlegt hvers vegna þeir hafa ekki samið um breytingar á þessu fyrirkomulagi.
Leið grunnskólakennarar til betri starfskjara er að gera menntun barna að baráttumáli sínu. Tillögur um betri skóla eiga að koma frá þeirri stétt sem gerst þekkir til, kennurum. Með því að gera menntun barna að alvörumáli í þjóðfélagsumræðunni verður kennslan alvörumál. Þar er kominn grundvöllur til að krefjast alvöru launa.
Athugasemdir
Orð í tíma töluð (rituð). Man eftir því fyrir margt löngu þegar Guðmundur heitinn jaki var foringi í verkalýðsstétt sagði eitthvað á þá leið. Að kennarar sætu á bakinu á lálaunamönnum þegar þeir gerðu kaupkröfur.
Veit ekki hvor svo er ennþá, en ef, þá ættu þeir að setja markið hærra í kaupkröfum og láta lálaunafólkið í friði.
Sigríður Laufey Einarsdóttir, 14.2.2007 kl. 02:45
Skemmtilega athyglisvert það sem þú segir hér... Má ekki frekar ætla að einmitt samfélagði hafi ekki litið á kennslu sem alvöru starf og því hafi leið kvenna sem leituðu út á vinnumarkaðinn til að hafa eitthvað fyrir stafni litið til grunnskólastarfsins sem eitthvað sem gæti komið sér vel. Við skulum ekki gleyma því að þessar konur voru klárar konur og margar miklir snillingar þrátt fyrir að fyrirvinnan hafi verið karlinn þeirra! Sjálf er ég grunnskólakennari sem myndi gjarnan vilja sjá stéttina hætta að telja mínúturnar og skilgreini sig upp á nýtt. Þar liggur meinið. Við erum nefnilega fagstétt sem vitum mæta vel hvað skiptir máli í menntun barna fyrir þeirra framtíð. Sara Dögg
Sara Dögg (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 09:42
Það er löngu kominn tími á að allir skólar hér á landi verði einkareknir og kennarar semji sjálfir um sín kjör. Bæði fáum við þá hæfari kennara til starfa og þeir fá hvatningu til að standa sig betur.
Var ekki annars kómískt þegar fulltrúi kennara nefndi að þeir kæmu illa út í samanburði við fóstrur í Reykjavík!
Björn Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 12:52
Reyndar eru þessir starfsdagar notaðir til alskyns undirbúnings og í rauninni nauðsynlegt fyrir kennara að vera stundum á vinnustaðnum án nemendanna. Það er hins vegar mjög merkilegt að í nágrannalöndunum gerir fólk þetta á kvöldin og á laugardögum.
Þóra Guðmundsdóttir, 14.2.2007 kl. 19:35
Það er ótrúlegt að kennarar og leikskólakennarar skuli ekki hafa gert sér grein fyrir hvað þessir "starfsdagar" eru mikið böl fyrir foreldra. Sérstaklega þar sem starfsdagar skóla og leikskóla eru aldrei á sama tíma. Af hverju er ekki hægt að nelga það inn í skóladagatal allra skóla og leikskóla í Reykjavík að hafa þessi starfsdaga á sömu dögum fyrir alla skóla? Enn betra væri náttúrulega að þessir starfsdagar væri á kvöldin eða um helgar og kennarar fengju bara yfirvinnu. Það myndi nú rífa launin aðeins upp og þá allir sáttir. Ekki satt?
snorri (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 23:58
Ég er sammála umræðunni um starfsdaga. Er með 4 börn, þar af eitt á grunnskólaaldri (er í 2 bekk), hin 3 í leikskóla. Að meðaltali þarf ég að gera einhverjar ráðstafanir 2 sinnum í mánuði vegna þessara frídaga, þá tek ég ekki með jóla- og páskafrí. Ef ég myndi taka mér frí í vinnu þá væru þetta 20 dagar miðað við að grunnskólinn sé í 10 mánuði á ári. Þar með er ég nánast búin að fullnýta minn orlofsrétt, og hvað þá með sumarfríið? Á ég bara að sleppa því?
Sigríður Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 12:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.