Bankasamsærið um auðkennislykilinn

Bankarnir og sparisjóðirnir komast upp með samsæri gegn almenningi á meðan stjórnvöld og fjölmiðlar sofa á verðinum. Samráð fjármálastofnana um að þvinga alla notendur heimabanka til að nota auðkennislykil stríðir gegn heilbrigðum viðskiptaháttum og er óskammfeilin aðför að einstaklingsfrelsi.

Auðkennislykillinn er afurð sem verður til í versta heimi af öllum hugsanlegum, þar sem Stóri bróðir og auðvaldið taka höndum saman um að hafa vit fyrir almenningi. Aukennislykilinn sem við verðum öll að bera á okkur sýnir svo ekki verður um villst að Íslendingar dagsins í dag eru sauðfé, sjórnvöld eru smalinn í þjónustu feita hreppstjórans sem slefar gulli um leið og hann telur ærnar sínar og heitir Glitnir Spron Kaupþings-Landsbankason.

Sagnfræðingar framtíðarinnar munu klóra sér í kollinum og spyrja hvernig í veröldinni tiltölulega upplýst þjóð lét drýldna bankastráka troða upp í sig rafeindalykli og kyngdi þegjandi og hljóðalaust.

Til upprifjunar, þeim sem vita ekki um veröld sem var, byggja bankaviðskipti hjá siðmenntuðum þjóðum á trausti. Í tilfelli heimabankaþjónustu treystir bankinn viðskiptavini sínum að fara vel með notendanafn og leyninúmer sem veita aðgang að viðkomandi reikningum. Eins og gengur og gerist standa ekki allir undir traustinu, og sumir eru bara kjánar, upplýsingarnar fara á flakk og óprúttnir aðilar komast í annarra manna reikninga.

Bankarnir gætu sem best skilið sauðina frá höfrunum og hengt bjálfabjöllu, auðkennislykil, framan á þá sem sí og æ misferst. Engu tali tekur að krækja bjálfabjöllunni á hvern og einn.

Í kynningarriti með auðkennislyklinum er svohljóðandi málskrúðsfjóla:

Lykilinn er í takt við nýjustu tækni og ströngustu öryggiskröfur á markaðnum og eykur öryggi við innskráningu í netbanka til muna.

Jafnvel bankastrákarnir, blautir á bakvið eyrnu eins og þeir eru, hljóta að vita að nýjasta tækni í dag er úrelt á morgun. Hvað ætlar samansúrraða bankamafían að taka næst til bragðs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Það er enginn neyddur til að nota heimabanka eða nota auðkennislykil.  Öllum er velkomið að sinna sínum bankaviðskiptum upp á gamla mátann hjá næsta gjaldkera.

Hitt er annað mál að gagnsemi auðkennislyklanna er takmörkuð.  Meira um það síðar...

Púkinn, 13.2.2007 kl. 08:43

2 identicon

Ég hefði nú haldið að það væri líka neytendum til gagns að gera það erfiðara að brjótast inn í heimabanka, skoða þar upplýsingar og millifæra peninga af reikningum.  Voðalega er þetta neikvæður heimur sem blessaður bloggarinn býr í, hann hefur bókstaflega allt á hornum sér.

Vilhjálmur (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 11:14

3 identicon

Palli minn, ef þetta er þér um megn að notast við einfaldan rafrænan lykil til að auka annars arfaslakt bankaöryggi á íslandi (Svíþjóð var farinn að notast við einnota lykla á síðustu öld í bankaviðskiptum á netinu). Þá held ég nú bara að þú ættir að tölta útí næsta útibú, fá þér kaffisopa og rabba við gjaldkerann á meðan þú rækir erindi þín í bankanum.

A (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 11:46

4 identicon

Já, það er ég viss um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu skoða þetta mál gaumgæfilega og skrifa um það langar ritgerðir. Svakalega áhugavert.

P. s. Eru bara strákar í bönkunum?

M (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 15:25

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Sennilega er enginn sem les skilmálana sem fylgja þessum lyklum, sem reyndar eru settir í umferð með UNDANÞÁGU frá Samkeppniseftirlitinu.
Verð á auðkennislykli
Notendur greiða ekkert fyrir fyrsta auðkennislykilinn. Ef lykill týnist er hægt að fá nýjan lykil gegn vægu gjaldi.
Kostnaður við notkun auðkennislykils
Notkun á auðkennislyklinum er gjaldfrjáls, engin færslugjöld eru innheimt.
En þegar lykillinn er virkjaður þá skrifa menn undir
1.     Gjöld vegna notkunar auðkennislykils greiðir handhafi samkvæmt verðskrá hlutaðeigandi sparisjóðs á hverjum tíma. Sparisjóðnum er heimilt að færa gjöld vegna notkunar auðkennislykils af viðskiptareikningi hans. Um þá gjaldtöku fer samkvæmt viðskiptaskilmálum netbanka hlutaðeigandi sparisjóðs.

Er skylda að nota auðkennislykilinn?

Framan af verður valkvætt að nota auðkennislykilinn en að öllum líkindum verður þetta skilyrt fyrir alla notendur í náinni framtíð.

Annars staðar stendur

Á tímabilinu 29. janúar til 28. febrúar verður gerð sú breyting að öllum notendum netbanka verður gert skylt að nota auðkennislykilinn við innskráningu í netbankaEn geta bankar lokað fyrirvaralaust á þessa þjónustu? Sbr. 11. gr. í skilmálum um netbanka

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er sex mánuðir.

Grímur Kjartansson, 13.2.2007 kl. 15:25

6 identicon

Þessi auðkennislykill er óþolandi. Ef það væri einhver banki sem væri auðkennislyklalaus þá myndi ég færa mín viðskipti þangað.

Orri (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 20:55

7 Smámynd: Kristján Pétursson

Er sammála þér Páll í öllum atriðum um þennan auðkennislykil.Góð grein.

Kristján Pétursson, 13.2.2007 kl. 22:14

8 Smámynd: Óttarr Makuch

Ég er þér hjartanlega sammála Páll um þennan blessaða auðkennislykil, enda hreint ótrúlegt hvað samkeppniseftirlitið getur verið sofandi, engu líkara en það sé jafn sofandi og talsmaður neytenda!

Óttarr Makuch, 13.2.2007 kl. 22:44

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég er yfirleitt sammála Páli en ekki núna. Auðkennislykillinn er aukin vernd gegn njósnaforritum sem eru að verða alger plága. Hingað til að bankarnir borið allt bankasvindl og ég veit ekki ennþá um að einstaklingar eða fyrirtæki hafi borið skaða af stolnum úttektum.

Mér finnst eðlilegt að þeir viðskiptavinir bankanna sem vilja nota rafrænar færslur hjálpi bankakerfinu að auka öryggi viðskipta.

Ég fæ á tilfinninguna að Páll hafi verið í einhverri ótengdri ólund þegar hann skrifaði þetta. Ég skal játa að stundum er ég sjálfur undir sömu sök seldur. 

Haukur Nikulásson, 13.2.2007 kl. 22:56

10 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Það sem ég var að gagnrýna, og kannski með óþarfa ólund, er þessi miðstýrði áætlunarbúskapur sem birtist í því að þvinga alla notendur heimabanka að auðkennislykil.

Ég veit ekki betur en að rafræn viðskipti, t.d. í netverslun, gangi ágætlega fyrir sig án auðkennislykla. Bankarnir hafa ekki sýnt fram á að það sé nauðsyn að taka þessa lykla í notkun. Mér dettur helst í hug að einhver sniðugur markaðsmaður hafi selt þeim hugmyndina.

Bankarnir ætla svo að bíta höfuðið af skömminni með því að láta okkur greiða fyrir þvingunarúrræðið, samanber athugasemd Gríms Kjartanssonar hér að ofan. Sérstakt fyrirtæki hefur verið stofnað um útgerðina, Auðkenni hf., og það verður einokunarfyrirtæki með blessun stjórnvalda.

Þetta er ótækt.

Páll Vilhjálmsson, 13.2.2007 kl. 23:17

11 identicon

Afhverju segiru bankastrákar.... eru ekki einhverjar stelpur þarna líka? Nei bara spyr ;)

Bestla (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 09:48

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Páll,

Njósnaforrit sem geta étið aðgangsheiti og lykilorð í tölvum ERU nú þegar mikið vandamál. Auðkennislykilinn er ekki hægt að skanna með neinu njósnaforriti og því eykur þetta verulega öryggi í færslum.

Sem betur fer ganga netviðskipti öllu jöfnu eðlilega fyrir sig og það gerir t.d. akstur líka. Samt er okkur gert skylt að nota öryggisbelti. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru út um allt í samfélaginu og þetta er bara viðbót. Öryggismál eru eins og tryggingar nauðsynleg leiðindamál.

Haukur Nikulásson, 14.2.2007 kl. 11:12

13 Smámynd: Púkinn

Varðandi njósnaforritin vill Púkinn benda á það sem hann skrifaði hér.

Púkinn, 15.2.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband