Sunnudagur, 8. janúar 2012
Evru-kreppan: lýðræði eða fjármálaeinræði
Gagnkvæm gíslataka er stunduð á evru-svæðinu. Þjóðverjar taka björgunarsjóði evrunnar í gíslingu og segjast ekki borga meira nema evru-ríkin gefi eftir fullveldi sitt í auknum mæli til að hægt sé að miðstýra ríkisfjármálum í samræmi við þýskan aga. Á móti hóta jaðarríkin að fara í gjaldþrot og valda þar með keðjuverkun sem leiddi til fjöldagjaldþrota fjármálastofnana og Suður-Evrópuríkja.
Um helgina voru stóru þýsku fjölmiðlarnir með umfjöllun um evru-kreppuna og hvert hún stefni. Der Spiegel segir Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hafa gefist upp á Grikklandi. Haft er eftir fjármálaráðherra Grikklands að verði tekin upp drakma á ný myndi það þýða efnahagslegt afturhvarf til sjötta áratugsins.
Otmar Issing fyrrum aðalhagfræðingur Evrópska seðalbankans skrifar ritgerð í Frankfurter Allgemeine Zeitung, og fær sérstakt hrós frá ritstjórn þessarar háborgar þýskrar blaðamennsku. Issing er sagður trúverðurgri gagnrýnandi evru-samstarfsins en margur annar þar sem hann er í senn með yfirburða þekkingu á viðfangsefninu og vil gjarnan að evru-tilraunin takist.
Kjarninn í greiningu Issing er að pólitískar umbætur á evru-samstarfinu, aukin mistýring ríkisfjármála og svo framvegis, geti ekki bjargað evru-tilrauninni. Lýðræðislegt lögmæti slíkrar miðstýringar, segir Issing, er lítið sem ekkert og engar líkur að hægt sé að stýra efnahagskerfum á þessum forsendum.
Issing segir það ekki berum orðum, en það liggur í greiningunni, að til að bjarga evru-samstarfinu verði að farga lýðræðislegum stjórnarháttum og leiða til öndvegis fjármálaeinræði.
Issing sagði á síðasta ári að eina leiðin til að bjarga evrunni væri að Grikkland yfirgæfi evru-samstarfið og yrði gjaldþrota. Lýðræðislega leiðin er að þjóðir beri sjálfar ábyrgð á ríkisfjármálum sínum.
Die Welt segir frá drauga-bönkum og drauga-ríkissjóðum Suður-Evrópu sem Evrópski seðlabankinn fjármagnar gegn lélegum veðum. Þanþol Evrópska Seðlabankans sé komið að ystu mörkum.
Merkel kanslari Þýskalands og Sarkozy Frakklandsforseti hittast í næstu viku að ræða evru-kreppuna og undirbúa enn einn neyðarfund leiðtoga evru-ríkjanna, sem verður haldinn í lok mánaðarins. Þjóðerjar, aftur á móti, telja Sarkozy á útleið, að hann tapi fyrir frambjóðenda sósíalista í forsetakosningunum eftir tvo mánuði.
Tvíveldi Frakka og Þjóðverja í Evrópusambandinu byggir á persónulegu sambandi leiðtoga og helstu samverkamanna þeirra. Nýr Frakklandsforseti þýðir núllstillingu á leiðtogasambandinu sem þarf að byggja upp frá grunni. Á meðan kvarnast undan evru-samtarfinu vegna þess að tvíveldið hefur ekki komið sér saman um framtíðarpólitík evrusamstarfsins.
Allar líkur eru að Þjóðverjar séu búnir að ákveða að brjóta upp evru-samstarfið. Þeir eru með þrjár til fimm útfærslur, sú einfaldasta gera ráð fyrir að Grikkir einir fari út en sú flóknasta að nýtt myntbandalag, norður-evran, verði stofnað af Þjóðverjum, Austurríkismönnum, Hollendingum og Finnum. Frakkar og Suður-Evrópa héldu núverandi evru sem yrði gengisfelld um 30-50 prósent.
Lýðræðið skapar ólgu og óreiðu. Til lengri tíma er það samt sem áður farsælli lausn en einræði. Þjóðverjar vita það manna best.
Evran heldur áfram að hrapa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.