Miðvikudagur, 30. nóvember 2011
Blogg, peningar og heimska
Grunur leikur á að ekki sé allt með felldu í heilabúi íslenskra auðmanna. Gunnlaugur Sigmundsson auðgaðist fyrir útrás með framsóknarhætti. Vensl einkarekstrar, stjórnmála og opinberra fjármuna leiddu til þess að Gunnlaugur eignaðist Kögun. Um það mál var nokkuð fjallað á sínum tíma og almennt viðurkennt að Gunnlaugur hafi ekki goldið þess að vera framsóknarmaður.
Teitur Atlason bloggari tók upp því að ræða Kögunarauð Gunnlaugs. Menn eins og Teitur þjóna sama hlutverki í opinberri umræðu og hýenur á gresjum Afríku; þefa uppi hræ til að éta. Gunnlaugi fannst Kögunarhræið vera sitt en ekki annarra og stefndi Teiti fyrir meiðyrði.
Auðmaður sem stefnir bloggara fyrir umræðu ræðst á málfrelsið. Þegar um er að ræða opinber umsvif en ekki einkamál er umræða réttmæt - og það hvernig Kögun komst í eigu Gunnlaugs er opinbert mál. Auðmaðurinn sem notar peninga til að þagga niður í gagnrýni verður að gera ráð fyrir að gagnrýnin færist í aukana.
Teitur tók ekki aðförinn þegjandi og beitti því vopni sem hann á samkvæmt stjórnarskrá - málfrelsinu. Gunnlaugur varð voða hissa að Teitur lyppaðist ekki niður og tók að senda Teiti nafnlaus sms-skeyti hvers efni þolir ekki dagsljósið. Nafnlaus óhroði er aðferð aumingja til að koma skoðunum á framfæri.
Teitur kærði smáskilaboðin til lögreglu og Gunnlaugur sá fram á afhjúpun. Gunnlaugur skrifar kjökrandi grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segist sorrí yfir óbirtingarhæfu nafnlausu smáskilaboðin sem hann sendi. En svo toppar hann lítilmennsku sína með því að segjast halda meiðyrðamálinu gagnvart Teiti til streitu.
Hversu mikið getur smátt minnkað?
Athugasemdir
Það eru sem sagt menn eins og Gunnlaugur sem koma óorði á alla nafnleysingja. Hver hefði trúað þessu?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.11.2011 kl. 08:55
Sá er nú búinn að skíta í deigið.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.11.2011 kl. 09:12
Frábær grein! Þessi maður er algjörlega búinn að skjóta af sér fæturnar! Hversu mikið getur smátt minnkað eiginlega?
Skúli (IP-tala skráð) 1.12.2011 kl. 19:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.