Fimmtudagur, 6. október 2011
Frjálslyndi, hrun og eymd
Erlendis er frjálslyndri pólitík iðulega skipt upp í tvær megingreinar. Félagslegt frjálslyndi annars vegar og hins vegar efnahagslegt. Hér á landi er þverpólitísk sátt um félagslegt frjálslyndi, eða þar um bil. Það sést á umburðalyndi gagnvart samkynhneigð, kynjamálum öðrum og í trúmálum.
Efnahagsleg frjálslyndi er í Bandaríkjunum velferðarpólitík með öryggisneti fyrir þá verst settu. Í Evrópu er sambærileg stefna vægur sósíaldemókratismi.
Frjálslyndi á Íslandi er annarrar merkingar en erlendis. Íslensku auðmennirnir voru upp til hópa frjálslyndir; Jón Ásgeir, Hannes Smára, Pálmi í Fons, Björgólfsfeðgar, Exista-bræður og svo framvegis. Þekktir meðhlauparar auðmanna eru einnig fjarska frjálslyndir; Þór Sigfússon, Guðlaugur Þór Guðlaugsson, Þorsteinn Pálsson, Ólafur Stephensen og fleiri fræknir eru í þeim hópi.
Annar þekktur hópur frjálslyndra hérlendis er aðildarsinnar úr kreðsum samfylkingarliðs og sjálfstæðismanna.
Frjálslyndi á Íslandi er fjármálaleg og pólitísk ævintýrmennska undir merkjum hentistefnu þar sem siðvit er ofurselt gróðavoninni.
Félag frjálslyndra jafnaðarmanna endurreist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll.
Frjálshyggjan vill ekki að ríkið sé með puttana í öllu. Sá útbreiddi misskilningur ríkir hér að frjálshyggja hafi ríkt hérlendis á árunum fyrir hrun. Ég veit ekki um neinn stjórnmálamann undanfarin ár sem hefur verið frjálshyggjumaður. Lítum á eftirfarandi einföldu staðreyndir sem afsanna með öllu að hér hafi ríkt frjálshyggja:
1) Ríkið stækkaði um þriðjung á föstu verðlagi á árunum 1999-2007 og gengur það þvert á stefnu frjálshyggjumanna sem vilja að ríkið sé hvorki stórt né umsvifamikið.
2) Það er ekki frjálshyggja þegar ríkið hleypur undir bagga með illa reknum einkafyrirtækjum og bjargar þeim. Í frjálshyggjunni er ekki gerður greinarmunur á banka og bakaríi, illa rekið fyrirtæki á bara að fá að rúlla.
Margir frjálshyggjumenn vilja leggja niður seðlabanka heimsins enda eru seðlabankar ekkert annað en ríkisafskipti af fjármálalífinu og allir vita hve vel þau afskipti hafa komið út undanfarin ár. Hefur verið hlustað á það hérlendis eða erlendis?
Áróður vinstri manna um að hér hafi ríkt óheft frjálshyggja á árunum fyrir hrun er algerlega úr lausu loftin gripinn og sýnir í raun glögglega hve lítinn skilning þeir hafa á orsökum kreppunnar en fólkið í landinu finnur það nú á eigin skinni enda hafa vinstri menn engar lausnir, bara upphrópanir og innihaldslausar fullyrðingar.
Dæmin tvö hér að ofan sýna glögglega að hér ríkti ekki frjálshyggja þó sumir fullyrði það. Kannski sýna þessi dæmi að ef sama lygin er endurtekin nógu oft verður hún að sannleika en fullyrðingar um frjálshyggju hér á árunum fyrir hrun eru algerlega á skjön við veruleikann. Sumum er bara alveg sama um það.
Ég get ekki séð að frjálshyggja og ESB stuðningur fari saman, frjálshyggjan gengur út á frelsi en ekki miðstýringu. Er allt þetta reglugerðarfargan ESB merki um frjálshyggju? Þessa dagana er ESB að færast í áttina að enn frekari stjórnhyggju með umræðu um að Brussel þurfi að samþykkja fjárlög einstakra aðildarríkja. Það er ekki frjálshyggja. Þessi pistill þinn er því frekar furðulegur svo ekki sé fastar að orðið kveðið.
Helgi (IP-tala skráð) 7.10.2011 kl. 07:07
Já það eru öflugar áróðursmaskínur í gangi. Á Íslandi eru sigurvegarar síðustu kosningar að reyna að búa til lygasöguna.
Björn (IP-tala skráð) 8.10.2011 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.