Sunnudagur, 4. september 2011
Ómar, Einar þveræingur og fullveldið
Ómar Ragnarsson bloggar um landakaup útlendinga og biður um dýpri umæðum um langtímahagsmuni Íslendinga. Ómar vitnar til orða Einars þveræings sem talaði gegn því að Ólafur digri Haraldsson Noregskonungur fengi Grímsey að gjöf snemma á 11. öld. Grímsey var almenningur og eyjan því til ráðstöfunar samkvæmt almannavilja.
Í Heimskringlu er þingræða Einars þveræings
Þá svarar Einar: "Því em eg fáræðinn um þetta mál að engi hefir mig að kvatt. En ef eg skal segja mína ætlan þá hygg eg að sá muni til vera hérlandsmönnum að ganga eigi undir skattgjafir við Ólaf konung og allar álögur hér, þvílíkar sem hann hefir við menn í Noregi. Og munum vér eigi það ófrelsi gera einum oss til handa heldur bæði oss og sonum vorum og allri ætt vorri þeirri er þetta land byggir og mun ánauð sú aldregi ganga eða hverfa af þessu landi. En þótt konungur sjá sé góður maður, sem eg trúi vel að sé, þá mun það fara héðan frá sem hingað til þá er konungaskipti verður að þeir eru ójafnir, sumir góðir en sumir illir. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir þær er til lýðskyldu megi metast. En hitt kalla eg vel fallið að menn sendi konungi vingjafir, þeir er það vilja, hauka eða hesta, tjöld eða segl eða aðra þá hluti er sendilegir eru. Er því þá vel varið ef vinátta kemur í mót. En um Grímsey er það að ræða ef þaðan er engi hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla eg mörgum kotbóndunum muni þykja verða þröngt fyrir durum."
Þegar erlendir kaupendur íslenskra jarða koma í hrönnum verður þröngt fyrir dyrum kotbænda. Við höfum fullveldið til að stemma stigu við kaupum útlendinga á íslensku landi. Við eigum að beita fullveldinu til að tryggja hagsmuni óborinna kynslóða Íslendinga sem eiga þá kröfu á hendur núlifandi Íslendingum að landið sé áfram í höndum þjóðarinnar.
Athugasemdir
Í raun ætti það að vera greypt í þjóðarvitundina og óþarft að eyða miklum tíma í að velta þessu fyrir sér. En það er til marks um brenglaða siðferðisvitund stjórnmálastéttarinnar, áróðursfjölmiðlanna og forsetans hvernig málum er nú komið
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.9.2011 kl. 12:53
Hvað skyldi Einar hafa haft að segja um kratismann okkar almennt með óhefta alþjóðahyggju og réttarframsal?
Halldór Jónsson, 4.9.2011 kl. 12:56
Sagði hann þetta kallinn já. Og hver eru upptökur af því.
Þetta er auðvitað skáldskapur. Hvernig halda menn að þessi ,,ræða" hafi munast orði til orðs í 200 ár eða meira.
Sá sem skrifaði Heimskringlu skáldaði þetta bara upp enda hugmyndin sem ræðan innifelu arfavitlaus.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2011 kl. 13:00
Ómar hvort sem þetta er skáldskapur eður ei, er þónokkur sannleikur í þessum orðum.
kallpungur, 4.9.2011 kl. 13:08
Ómar, minnisglöpin eru einkenni nútímans þar sem heilinn hefur ekki undan að sía út gagnslausar upplýsingar. Munnmælin sem gengu frá manni til manns til forna voru örugglega orðrétt eftir höfð
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.9.2011 kl. 13:16
Ómar.
Vissulega eru Íslendingasögurnar að stæðstum hluta skáldskapur enda að stæðstum hluta ritaðar eftir munnmælum 200 árum eftir að þær áttu að hafa skeð. Svo er einnig um mörg önnur stórrit, s.s. bíblíuna, kóraninn og fleiri rit, skáldskapur að stæðstum hluta en með góðri meiningu.
Sammerkt þessum ritum öllum er að þau eru rituð til að flytja boðskap og oftar en ekki er sá boðskapur til hins betra.
Við Íslendingar notum oft Íslendingasögur til að styðja okkar mál, ekki bókstaflega heldur sem myndlíkingu. Í gegn um árin hafa þeir menn sem geta vitnað til þeirra sagna, sínu máli til stuðnings eða skrauts, verið taldir meiri málflutningsmenn. Um það má vissulega deila.
Það er mikill sannleikur sem fram kemur í ræðu Einars þverærings, hvort sem það voru hans orð eða einungis skáldorð söguritarans. Það skiptir nefnilega ekki mestu máli hvort einhver góður landnámsmaður segir góð orð eða hvort þau koma frá góðum sagnaritara, merkingin er hin sama.
Gunnar Heiðarsson, 4.9.2011 kl. 13:33
þetta var í raun smáatriði þarna með Grímsey. Ólafur helgi vildi líka gerast Herra eða Konungur yfir Íslandi, að því er skrásetjari Heimskringlu vill meina. Samkv. sömu heimild átti Ólafur helgi mikla bandamenn á Íslandi td. Guðmund rika og hann hefði auðveldlega getað fengið land hjá þeim bandamönnum sínum. Ef hann hefði viljð. Og alveg útí hött að falast eftir þessu útskeri.
Sá sem skrifar Heimskringlu skáldar auðvitað upp ræðustúfinn og líklega er Nefjólfsson líka skáldskapur enda hálf ævintýranlegur karakter. Allt meir og minna skáldskapur. Staðreynd.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.9.2011 kl. 13:53
Mér finnst engu skipta hvort Einar Þveræingur var til eða ekki. Boðskapurinn er skýr.
Halldór Jónsson, 4.9.2011 kl. 21:41
Það á alls ekkert að selja svona stór landssvæði nema Íslenskum ríkisborgurum.
Gunnar Waage, 5.9.2011 kl. 02:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.