Sunnudagur, 28. ágúst 2011
Kvótahopp og 300 þúsund Evrópumenn
Kvótahopp er það kallað þegar eitt ríki í Evrópusambandinu kaupir fiskiskip í öðru ríki Evrópsambandsins til að komast yfir kvóta. Evrópusambandið stjórnar öllum fiskveiðum aðildarríkja sinna og úthlutar kvóta til hvers ríkis.
Mótsögnin í stefnu sambandsins er sú að yfirþjóðlegt vald, sem sambandið tók sér einhliða rétt áður en fiskveiðiþjóðirnar Danmörk, Bretland, Írland og Noregur sóttu um ESB-aðild upp úr 1970, er framselt til þjóðríkja sem hvert og eitt otar sínum tota. Evrópusambandið stefnir að afnámi þjóðríkja. Samrunaferlið gengur út á það að þjóðríkin verði héruð í Stór-Evrópu.
Í gær varð ítarleg umræða kvótahopp í athugasemdum við þessa færslu. Af textanum má ráða að þar ræddu kunnáttumenn um fiskveiðistefnu ESB og hvernig hún blasir við okkur. Aðildarsinninn ,,hrafnaflóki" leggur áherslu á í lokafærslu sinni að
þróun sjávarútvegsstefnunnar sýnir ljóslega að engar reglur eru meitlaðar í stein. Stefnan hefur tekið breytingum og undanþágur hafa verið gerðar til að ná fram sáttum og koma til móts við ólíka hagsmuni aðildarríkja.
Þessi orð væru réttmæt ef Evrópusambandið stefndi að fullveldi aðildarríkja sinna. En það er öðru nær; Evrópusambandið vinnur markvisst að því að draga úr fullveldi aðildarríkjanna með því að auka valdheimildir sínar á kostnað aðildarríkja.
Ef Íslendingar skyldu slysast inn í Evrópusambandið værum við í augum embættismanna í Brussel 300 þúsund Evrópumenn í samfélagi 500 milljóna íbúa Evrópusambandsins. Hagsmunir Íslendinga-héraðsins væru léttvægir í samanburði við hagsmuni Spánar-héraðs þar sem búa 46 milljónir.
Með inngöngu í Evrópusambandið afhentu Íslendingar Brussel opinn víxil að fiskimiðum landsins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.