ESB-hnúturinn á Íslandi og neitunarvald Samfylkingar

Stjórnmálakerfið hér á landi er lamað vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Af fjórum stjórnmálaflokkum á alþingi eru þrír andvígir aðild, rétt eins og afgerandi meirihluti þjóðarinnar. Einn flokkur er hlynntur aðild, Samfylkingin. Umsóknin var engu að síður send sumarið 2009 vegna þess að Vinstri grænir sviku yfirlýsta stefnu sína.

Samfylkingin heldur að hún geti snúið taflinu sér í vil og unnið lönd af Sjáflstæðisflokknum, eftir að formaðurinn þar á bæ ákvað vonum seinna að gíra andstöðuna upp til samræmis við samþykktir landsfundar. Þingmaðurinn Magnús Orri skrifar í Fréttablaðið í dag að Samfylkingin sé á leið á miðjuna að sækja fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Sömu skoðun útvarpaði Árni Páll í síðustu viku.

Vígstaðan í Evrópuumræðunni ræðst af tvennu, innanlandspólitík annars vegar og hins vegar stöðunni í Evrópu. Yfirvegun er smátt og smátt að taka við óráðinu sem einkenndi innanlandsástandið eftir hrun. Og það var einmitt í móðursýkinni miðri sem umsóknin var send til Brussel. Frá Evrópu munu eingöngu neikvæðar fréttir koma næstu árin, hvað aðildarumræðuna hér heima áhrærir. Vandræðin sem evru-samstarfið hefur ratað í mun einfaldlega ekki verða leyst nema á löngum tíma og með tilheyrandi hörmungum.

Í stuttu máli: vígstaða aðildarsinnar á Íslandi er gjörtöpuð. 

Samfylkingin mun enn um sinn dvelja í afneitun og ímynda sér að málstaður aðildarsinnar batni og skili sér í atkvæðafylgi. Það er aftur sérstakt rannsóknarefni hvers vegna afneitun Samfylkingar á pólitískum veruleika á Íslandi brýst fram sem neitunarvald á alþingi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Páll

Þetta ESB þrátefli hefur náð nýjum hæðum með neitun Merkel á Evrópuskuldabréfum og því er ekkert eftir nema kraftaverk.

Eitt er það sem Össur hefur aldrei svarað né nokkur annar í samninganefndinni okkar er á hvaða launatöxtum eigum við að fara þarna inn komi til þess?  Við hlið Þjóðverja eða Austur-Evrópu?   Þetta skiptir höfuðmáli og þarf að ræðast opinberlega.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband