Ekki-ríkisstjórnin

Hugmyndir eru pólitískt fjármagn stjórnmálanna. Flokkar og sjórnmálamenn sem eru með hugmyndir eiga betri möguleika að ná eyrum almennings og þar með atkvæðafylgi en þeir hugmyndasnauðu. Pólitískar hugmyndir eru tvíþættar. Þær eru ástandsgreining annars vegar og hins vegar stefnumarkandi.

Stundum skaffar veruleikinn skýra ástandsgreiningu. Hrunið 2008 sagði allt sem segja þurfti um ástandið 2009 og 2010. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var stofnuð til að verða pólitískt afl. Fyrsta hreina vinstristjórnin skyldi breyta þjóðfélaginu varanlega.

Þegar til átti að taka var engum stefnumarkandi hugmyndum til að dreifa hjá ríkisstjórn Jóhönnu. Hvor um sig flokkurinn tefldi fram hugmyndum sem ýmis voru of almennar til að hafa slagkraft, norræna velferðarstjórnin hans Steingríms J., eða gengu í berhögg við grundvallarhagsmuni þjóðarinnar, umsókn Samfylkingarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Stjórnmálaöfl sem ekki skilgreina sig sjálf með því að setja fram pólitískar hugmyndir verða ofurseld skilgreiningum andstæðinga sinna.

Hugmyndafátækt ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar segist fjármálaráðherra og formaður annars stjórarflokksins, Steingrímur J. Sigfússon, íhuga að selja stóran hlut í Landsbankanum, sem þartil fyrir skömmu átti að vera í ríkiseigu og vera hornsteinn í endurreistu bankakerfi. Og hvernig og hvers vegna ætlar Steingrímur J. að selja? Svarið er þetta: ,,Menn geta treyst einu: það verða ekki vinnubrögðin frá 2002 sem verða viðhöfð."

Núna er liðið á árið 2011 og Steingrímur J. lofar því að gera ekki eins og 2002. Hér talar pólitísk eyðimörk. 

Ekki-stjórnmál eru vísasti vegurinn til að tapa ríkisstjórnarvöldum og verða hornkerling í stjórnarandstöðu. Sennilega veit Steingrímur J. það innst inni að þar er hann best geymdur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband