Fimmtudagur, 30. júní 2011
Ný könnun: meirihlutinn vill draga ESB-umsókn tilbaka
Meirihluti landsmanna vill draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu tilbaka, samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Heimssýn. Spurningin var eftirfarandi: ,,Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu?
51,0 prósent sögðust hlynnt því að umsóknin yrði dregin tilbaka.
10,5 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg
38,5 prósent sögðust andvíg því að umsóknin yrði dregin tilbaka.
Könnunin var gerð 16. til 23 júní. Fjöldi svarenda var 820.
Athugasemdir
Mjög fróðlegt. Gaman væri að fá nákvæmar upplýsingar um könnunina. 1. Hversu stórt var úrtak? 2. Hvert var svarhlutfall? 3. Hver eru vikmörk? 4. Hvernig var skipting eftir aldri og hver var skipting í karla og konur? 3. Hvernig var skipting eftir menntun og búsetu?
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 11:18
Hrafn viltu bara ekki fá líka þyngd, skóstærð og hvenær menn kúkuðu síðast?
Ómar Gíslason, 30.6.2011 kl. 11:28
Ómar minn, þú verður að hafa þín áhugamál sjálfur. Til þess að geta metið kannanir verður að útskýra allt það sem ég spurði um og reyndar ýmislegt fleira. Ef þú hefur áhuga getur þú fundið margvíslegt efni um aðferðafræði kannana á netinu. Félagsfræðingarnir Þorlákur karlsson og Þórólfur Þórlindsson eru þekktir íslenskir fræðimenn á þessu sviði. Kynntu þér efnið. Þú hefur bara gott af því.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 11:42
Skrýtið Hrafn hvernig svarhlutfall, vikmörk og úrtak verða allt í einu mikilvæg þegar það hentar ekki málstaðnum. Það er alveg sama hvernig þú reynir að teygja þetta með vikmörkin, meirihlutinn er á móti. Miðað við hvernig ég hef séð áður frá Gallup þá myndi ég ætla að úrtakið hafi verið um 1200 manns, tilviljunarkennt úr þjóðskrá með jafnri aldursdreifingu og kynjahlutfalli. Svarhlutafall miðað við það er um 68%. Sé ekki alveg hvað menntun og búseta skiptir máli nema þú viljir hækka hlutfall íbúa í 101.
Meirihluti Íslendinga er á móti ESB umsókninni. Er ekki kominn tími á að viðurkenna það?
Rúnar Már Bragason (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 12:07
Ég samhryggist þér ekki Hrafn.
En þegar 820 svara eru vikmörkin ekki afskaplega stór. Í það minsta ekki til að breyta afgerandi niðurstöðu í standard Gauss kúrfu. Það getur þú líklega reiknað út sjálfur.
Þrátt fyrir að vera líklegast úr félagsfræðideild Háskóla Íslands.
jonasgeir (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 13:38
Hvernig væri að Páll Vilhjálmsson kæmi með allar nauðsynlegar upplýsingar? Ég get ekki eytt tímanum í það að elta pólitíska garðdverga.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 13:58
Ég reyndi að kynna mér á netinu, hvað Þorlákur Karlsson og Þórólfur Þórlindsson hafa að segja um aðferðafræði í pólitískum skoðanakönnunum, fyrst Hrafn vísar sérstaklega til netsins og þeirra. Í fljótu bragði finn ég ekki, að niðurstöður þeirra liggi á slíkum glámbekk. Ef Hrafn veit betur, leiðbeinir hann okkur lesendum vafalaust með góðum krækjum. Stærð úrtaks er reyndar nauðsynlegur fróðleikur. Hin atriðin hjá Hrafni skipta minna máli, til dæmis ekki spurt að menntun, aldri eða kynferði í kjörklefa, ekki enn.
Til hamingju, Íslendingar, með þessar niðurstöður. En það þarf að vara sig, því að áróður fyrir ESB er massívur í fjölmiðlum og hjá útsendurum þess og keyptum áhangendum, ekki sízt gömlum og nýjum styrkþegum í háskólasamfélaginu. Og auraráðin hjá ESB eru of mikil fyrir sanngjarna umræðu í svona litlu landi.
Ég er með Google Reader áskrift að Vísindavef HÍ, og þar hafa á undanförnum níu dögum hrannast inn eitthvað 35 greinar, sem á einhvern veg tengjast ESB, reyndar vistaðar á öðrum vef hjá HÍ. Þetta er samkvæmt samningi við núverandi meirihluta á Alþingi, og mér finnst það tortryggilegt. Hver skyldi svo borga fyrir þessa þjónustu? Kannski frændinn í Brussel.
Sigurður (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 13:58
Í Bítið - Þorlákur Karlsson dr í aðferðafræði ræddi áræðanleika skoðanakannana...
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 16:57
Fróðleg grein
skoðanakannanir
Þegar stórt er spurt
Þetta segir Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, sem hefur áralanga reynslu af gerð skoðanakannana. Þessu veldur mjög flókin aðferðafræði slíkra rannsókna. Að mörgu þarf að hyggja og víða er hægt að gera mistök sem valda skekkju í niðurstöðum. Þorlákur segir að stór vandi við að meta niðurstöðu spurningakönnunar sé að til þess þurfi að kafa ofan í tök rannsakanda við undirbúning könnunar, söfnun svara og framsetningu niðurstaðna. Hann segir það oft torvelda matið að upplýsingar um gerð könnunar liggi ekki á lausu.
"Þegar upplýsingar um gerð könnunar fylgja ekki með niðurstöðu er ráð að efast um áreiðanleika hennar. Vöntun slíkra upplýsinga kann að stafa af því að fagmaður hafi ekki unnið að könnuninni eða að rannsakandi vilji dylja vonda aðferðafræði," segir Þorlákur og bætir við að stundum sé við fjölmiðla að sakast en þeir sjái ekki alltaf ástæðu til að birta upplýsingar af þessu tagi. "Fjölmiðlar vilja fréttir, það er ósköp eðlilegt, og kjósa því stundum að veifa röngu tré en öngvu."
Þorlákur segir að almenningur eigi undantekningarlaust að fá að vita hvernig könnun er gerð. Innihaldslýsingin sé algjört lykilatriði. Hvað er úrtakið stórt, hversu hátt er svarhlutfallið, hvernig voru spurningar orðaðar og hvenær var könnunin gerð? "Það er eins með skoðanakannanir og það sem við borðum, við viljum vita hvað er í því áður en við látum það ofan í okkur."
Þrír lykilþættir
Þorlákur nefnir þrjá þætti sem geta haft mikið að segja um áreiðanleika niðurstöðu könnunar. Þessir þættir snúa að úrtaki, gerð spurningalista og framsetningu niðurstaðna.Þegar álykta ber um það hvaða stjórnmálaflokk stór hópur manna ætlar að kjósa í næstu Alþingiskosningum er, að sögn Þorláks, nóg að spyrja brot kosningabærra Íslendinga. Þetta brot er kallað úrtak. Þorlákur segir þrennt skipta mestu máli við að endanlegur hópur þeirra sem svara sé gott úrtak eða góður fulltrúi allra kosningabærra manna en það er skilyrði áreiðanlegrar niðurstöðu. Þetta er stærð úrtaks; að fá sem flesta í úrtakinu til að taka þátt í könnun og gerð úrtaks.
Hvað stærðina snertir segir Þorlákur mikilvægast að ná tali af nokkuð stórum hópi manna en mun minna máli skipti hve stórt úrtakið sé sem hlutfall af kosningabærum Íslendingum. Góð stærð sé til dæmis 1.000 til 2.000 manns. "Það skiptir nánast engu máli hvort við ætlum að álykta um skoðanir allra Kópavogsbúa, Íslendinga eða Kínverja – þetta er traust stærð," segir hann og bætir við að það breyti engu sem nemur um áreiðanleika könnunar hvort úrtakið er 2.000 eða 10.000 manns.
Að sögn Þorláks ræðst stærð úrtaks af þeirri óvissu í niðurstöðu sem menn sætta sig við og hana er tiltölulega auðvelt að reikna.
60–70% svarhlutfall viðunandi
Brýnt er að sem allra flestir í skilgreindu úrtaki svari könnun, að brottfall sé sem minnst. Þorlákur segir að ávallt skuli setja markið hátt og halda í lágmarki fjölda þeirra sem næst ekki í eða neita að taka þátt en 60–70% svarhlutfall sé viðunandi.Til að ná sem bestum árangri við gerð könnunar þarf framkvæmdaraðilinn helst að gefa sér nokkra daga, óraunhæft er að mati Þorláks að ná 60–70% svarhlutfalli á einum degi. "Fyrir vikið eru kannanir sem gerðar eru á einum degi oft og tíðum ekki nógu áreiðanlegar, a.m.k. myndi ég ekki treysta þeim."
Hann nefnir sem dæmi könnun á tómstundum Íslendinga og útiveru þeirra. Hringt er í 2.000 manna slembiúrtak á laugardegi þar sem sól skín í heiði og uppskeran verður um 500 svör. "Þarna er eins víst að útivistarfólk hafi ekki verið heima og því hefur þetta háa brottfall, 75%, gert niðurstöður þessarar "rannsóknar" marklausar," segir Þorlákur og bætir við að þarna hefði þurft að gefa sér nokkra daga til að ná sambandi við sem flesta í úrtakinu.
Helsta skýringin á sveiflum milli kannana er að sögn Þorláks sú að annaðhvort hafi úrtakið ekki verið nógu stórt eða svörunin ekki nægilega góð.
Þriðja atriðið tengt úrtakinu sem skiptir höfuðmáli við gerð skoðanakönnunar er hvernig úrtak er valið. Þorlákur segir að bestu úrtökin séu svokölluð slembiúrtök en tilviljunaraðferð er þá beitt við að velja fólk í úrtakið. Hending ræður þá hver lendir í úrtakinu og hver ekki. Íslendingar eiga þjóðskrá og segir Þorlákur upplagt að styðjast við hana í þessum efnum. Þetta þýðir vitaskuld að rannsakandi verður sjálfur að velja úrtakið, þátttakendur mega ekki velja sig sjálfir. Sjálfvalið úrtak kann nefnilega að gefa afar skakka mynd af þeim sem því er ætlað að spegla og Þorlákur segir margar kannanir því miður byggjast á þessari aðferð og geldur varhuga við því að gleypa við niðurstöðum þeirra. Munur á niðurstöðum þessara tveggja úrtaka er frá því að vera tæplega 3 prósentustig upp í næstum 46 prósentustig, samkvæmt rannsóknum Gallup.
Gríðarlega mikilvægt er, að sögn Þorláks, að halda sig við hið upphaflega úrtak, bæta ekki nýju fólki við í stað þess sem illa gengur að ná í. "Það er nauðsynlegt að hanga á úrtakinu eins og hundur á roði."
Gjarnan er talað um vikmörk í könnunum en þau segja til um á hvaða bili búast má við að tiltekin niðurstaða, t.d. fylgi flokks, sé meðal þjóðarinnar miðað við tiltekna vissu. Langalgengast er að miða við 95% vissu.
Að mati Þorláks eru það lágmarksupplýsingar að geta þess á hvaða bili vikmörkin eru í könnuninni almennt. "Oft eru þau sýnd við hverja tölu, eins og þau eru reiknuð. Það er nákvæmara en stundum stirðbusalegt. Menn ættu a.m.k. að fá á tilfinninguna hver vikmörkin eru í könnuninni. Þá er rétt að taka skýrt fram að vikmörk ætti einungis að reikna í niðurstöðum sem byggjast á slembiúrtökum."
Orðalag spurninga mikilvægt
Margt ber að varast við gerð spurninga, svarkosta þeirra, ásamt röð spurninga og uppsetningu listans, svo sem að orða spurningar skýrt, hafa þær í jafnvægi og forðast leiðandi orðalag. Bestu aðferðafræðina þegar kemur að því að spyrja fólk hvað það ætli að kjósa segir Þorlákur vera að byrja á einfaldri spurningu: "Ef kosið væri í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?" Ef ekki fæst svar við henni er spurt áfram: "En hvaða flokk er líklegast að þú munir kjósa?" Ef svarið kemur ekki enn er gripið til þriðju og síðustu spurningarinnar: "Er líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?"Þorlákur hafnar því að lokaspurningin sé leiðandi. Ástæðan er sú að reynslan sýni að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé stöðugra en hinna flokkanna og því megi með þessum hætti auka nákvæmni könnunarinnar. Ef svarandi telur líklegra að hann muni kjósa annan flokk en Sjálfstæðisflokkinn án þess að svara því nánar dreifist atkvæði hans hlutfallslega á hina flokkana. "Þetta er aðferð sem hefur sannað sig og gefist vel. Hún kom upphaflega frá Félagsvísindastofnun."
Mynd getur sagt meira en þúsund orð
Að endingu getur Þorlákur um framsetningu niðurstaðna en á dögum fjölhæfra myndforrita á borð við Excel er auðvelt að setja niðurstöðu rannsóknar og upplýsinga almennt fram á áhrifaríkan hátt, þannig að mynd segi meira en þúsund orð. Hann segir ekki sama hvernig þetta er gert og misnotkun geti verið til muna áhrifaríkari en rétt notkun, enda sé leikurinn oft og tíðum til þess gerður.Grundvallaratriðið í framsetningu er, að mati Þorláks, að lægsta sýnda gildið á hinum lóðrétta ási myndar (Y-ási) sé núll, hvort sem niðurstaðan er sýnd á súluriti eða línuriti. "Mynd er oft ætlað að sýna hlutfallslegan mun eða breytingu í einu vetfangi og til þess að gera það á óbrenglaðan hátt verður að vera hægt að bera hlutfallslega saman mismunandi súlur eða halla á línu. Það er aðeins hægt ef grunnpunktur er núll." (Sjá súlurit hér til hliðar.)
Aðferð Capacent Gallup
Í Þjóðarpúlsi Capacent Gallup eru mánaðarlega birtar tölur um fylgi flokka á landsvísu. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir rannsóknastjóri segir fylgistölurnar byggjast á stóru úrtaki, yfirleitt 2.500–3.000 manna tilviljunarúrtaki 18–75 ára fólks af landinu öllu. Hún segir Capacent Gallup leggja áherslu á að ná sem hæstu svarhlutfalli, helst yfir 60%.Miðað við 60% svarhlutfall eru svarendur á bilinu 1.500–1.800 manns. Óvissa í niðurstöðum er því tiltölulega lítil, yfirleitt á bilinu +/-1,0 til +/-2,5 prósentustig þegar fylgi flokka er skoðað á landsvísu.
Hitt þarf þó að hafa í huga að þar sem Capacent Gallup styðst ávallt við einfalt tilviljunarúrtak eru langflestir svarendur af höfuðborgarsvæðinu, um og yfir 60% úr Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi. Í fámennari kjördæmum eru svarendur sem taka afstöðu því oft ekki nema 100–150 og er þar því mikil óvissa um fylgi flokka, mest +/-10,0 prósentustig. "Mæling, byggð á 150 svörum, sem sýnir 15% fylgi við tiltekinn flokk þýðir í raun að við getum með 95% vissu gert ráð fyrir að raunverulegt fylgi flokksins í viðkomandi kjördæmi sé á bilinu 9,3–20,7%. Það gefur því augaleið að varhugavert er að nota þessar tölur til þess að álykta um líklegan fjölda þingmanna, til þess þarf að taka mun stærra úrtak úr hverju kjördæmi fyrir sig," segir Guðbjörg Andrea. Til þess að álykta um einstök kjördæmi eru því gerðar sérstakar kannanir með um 800 manna úrtaki. Í þeim fylgiskönnunum sem gerðar eru í aðdraganda kosninga er tekið úrtak úr hópi allra Íslendinga 18 ára og eldri en ekki miðað við 18–75 ára eins og venja er í Þjóðarpúlsinum.
Guðbjörg Andrea segir mismunandi hvað Capacent Gallup er lengi að gera könnun og fer það eftir því hvaða könnun er um að ræða. "Almennt söfnum við 400 svörum á viku í Gallupvagninum en ákváðum að fjölga þeim svörum um helming til þess að geta látið Morgunblaðið og RÚV fá fylgið til að birta vikulega fram að kosningum, samkvæmt samningi sem gerður var á dögunum. Núna erum við því eina viku að safna 800 svörum. Þegar kemur að því að gera kannanir í kjördæmunum tökum við 800 manna úrtak og söfnum svörunum á 4 til 5 dögum."
Þegar spurt er um hvaða flokk fólk hyggst kjósa notar Capacent Gallup þrjár spurningar.
Fyrst er spurt: "Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?" Ef ekki fæst svar er næst spurt: "En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?" Loks er spurt: "Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?"
Aðferð Félagsvísindastofnunar
Þegar Félagsvísindastofnun kannar fylgi flokka á landsvísu er venjan að nota 1.200 manna úrtök. Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur hjá Félagsvísindastofnun segir að oft hafi úrtökin verið talsvert stærri eða allt að 2.400 manns ef greina á fylgi flokka mjög nákvæmlega t.d. eftir kjördæmum. Minni úrtök eru einnig notuð ef kanna á fylgi flokka í einstaka kjördæmum eða bæjarfélögum t.d. fyrir sveitarstjórnarkosningar. Úrtaksstærðin fer því eftir tilgangi og markmiði könnunar.Einar Mar segir að markmiðið sé að hafa svarhlutfall sem hæst og í fylgiskönnunum Félagsvísindastofnunar hefur svarhlutfall yfirleitt verið á bilinu 65% til 70%.
Þegar fylgi flokka er kannað notar Félagsvísindastofnun slembiúrtak úr þjóðskrá sem nær til fólks 18 ára og eldri.
Þar sem einstaka pólitískir atburðir geta haft fylgisbreytingar í för með sér segir Einar Mar að svörum sé safnað á sem stystum tíma svo slíkir atburðir hafi síður áhrif á niðurstöður. "Reynslan sýnir þó að til að ná viðunandi svarhlutfalli tekur tvo til fjóra daga að safna svörum."
Félagsvísindastofnun fylgir þeirri venju sem Ólafur Þ. Harðarson prófessor og einn af stofnendum stofnunarinnar kom á, að spyrja þriggja spurninga.
Fyrst er spurt: "Ef alþingiskosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?"
Þeir sem eru óákveðnir eru spurðir áfram: "En hvaða flokk eða lista telurðu líklegast að þú myndir kjósa?" Þeir sem eru enn óákveðnir eru þá spurðir. "En hvort heldurðu að sé líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista?"
Aðferð Blaðsins
Blaðið hefur birt niðurstöður úr tveimur könnunum á fylgi stjórnmálaflokkanna að undanförnu og hefur séð alfarið um framkvæmdina sjálft. "Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að leita til Capacent Gallup eða Félagsvísindastofnunar en ákváðum að annast framkvæmdina sjálf. Það er Heiða Björk Vigfúsdóttir blaðamaður sem hefur umsjón með þessum könnunum en hún er með BA-próf í félagsfræði og nam aðferðafræði við Háskóla Íslands," segir Trausti Hafliðason ritstjóri Blaðsins.Blaðið styðst við slembiúrtak úr símaskrá. Hringt er þangað til 800 einstaklingar með kosningarétt hafa svarað. Trausti segir að í könnunum Blaðsins hingað til hafi þurft að hringja í á bilinu 12 til 15 hundruð númer áður en svörin 800 náðust. Í könnuninni sem Blaðið greindi frá sl. fimmtudag svaraði 90,1% af þessum 800 spurningunni.
Blaðið framkvæmir kannanir sínar á einum degi og segir Trausti að það taki á bilinu fjórar til sex klukkustundir að ná þessum 800 svörum. Hann segir það bæði hafa kosti og galla að gera könnun á svona stuttum tíma "Könnun af þessu tagi er viðkvæmari fyrir því sem er að gerast nákvæmlega á þeim tímapunkti. Það er t.d. ekkert vafamál að brotthvarf Margrétar Sverrisdóttur úr Frjálslynda flokknum hafði áhrif á útkomu þess flokks í fyrstu könnuninni okkar í byrjun febrúar. Á móti kemur að kosningar til Alþingis fara fram á einum degi, ekki heilli viku eða mánuði," segir Trausti.
Blaðið spyr aðeins einnar spurningar: "Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til alþingiskosninga nú?" Trausti veit að bæði Capacent Gallup og Félagsvísindastofnun spyrja áfram ef svarandi er óákveðinn en segir að Blaðið hafi kosið að fylgja ekki því fordæmi.
Blaðið birti ekki upplýsingar um vikmörk í fyrstu könnun sinni en í könnuninni sem birt var í vikunni var vikmarka getið. Trausti segir það sjálfsagða þjónustu við lesendur að gera sem besta grein fyrir niðurstöðum og vikmörkin séu snar þáttur í því.
Vikmörkin í könnun Blaðsins sl.fimmtudag voru frá +/-2,2 til +/-4,6 prósentustig. Þetta þýðir að segja má með 95% vissu að fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem mældist með 43% fylgi í könnuninni, sé á bilinu 38–47%.
Trausti segir að Blaðið muni birta fleiri fylgiskannanir á næstunni en ekki liggur fyrir hversu margar þær verða. "Kannanir okkar verða þó færri en hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu."
Aðferð Fréttablaðsins
Fréttablaðið gerir sínar fylgiskannanir sjálft og hefur þann háttinn á að hringja uns svörin eru orðin 800 talsins. Svanborg Sigmarsdóttir blaðamaður, sem hefur umsjón með könnununum, segir að upp undir 90% hafi svarað í undanförnum könnunum. Um 55% taka afstöðu, þ.e. upplýsa hvaða flokk þeir myndu kjósa. Tæp 35% eru óákveðin, rúm 5% segjast ekki kjósa og rúm 5% neita að svara spurningunni. Svanborg reiknar með að hlutfall þeirra sem taka afstöðu muni aukast þegar líða dregur nær kosningum.Svanborg þekkir aðferðafræði skoðanakannana vel en hún er með meistaragráðu í stjórnmálafræði.
Fréttablaðið styðst við slembiúrtak úr símaskrá samkvæmt viðtekinni aðferð.
Kannanir blaðsins eru unnar á einum degi og segir Svanborg að yfirleitt taki um þrjár klukkustundir að ná 800 svörum.
Fréttablaðið spyr einnar spurningar: "Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga nú?"
Fréttablaðið mun gera kannanir á hálfsmánaðar fresti á næstunni en síðasta mánuðinn fyrir kosningar verða þær gerðar vikulega.
orri@mbl.is
Aðrar greinar
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 17:12
Vegna þess að lesefnið er mikið tók ég út stikkorð:--
Þorlákur segir að almenningur eigi undantekningarlaust að fá að vita hvernig könnun er gerð. Innihaldslýsingin sé algjört lykilatriði. Hvað er úrtakið stórt, hversu hátt er svarhlutfallið, hvernig voru spurningar orðaðar og hvenær var könnunin gerð? "Það er eins með skoðanakannanir og það sem við borðum, við viljum vita hvað er í því áður en við látum það ofan í okkur." ---
Gjarnan er talað um vikmörk í könnunum en þau segja til um á hvaða bili búast má við að tiltekin niðurstaða, t.d. fylgi flokks, sé meðal þjóðarinnar miðað við tiltekna vissu. Langalgengast er að miða við 95% vissu.
Að mati Þorláks eru það lágmarksupplýsingar að geta þess á hvaða bili vikmörkin eru í könnuninni almennt. "Oft eru þau sýnd við hverja tölu, eins og þau eru reiknuð. Það er nákvæmara en stundum stirðbusalegt. Menn ættu a.m.k. að fá á tilfinninguna hver vikmörkin eru í könnuninni. Þá er rétt að taka skýrt fram að vikmörk ætti einungis að reikna í niðurstöðum sem byggjast á slembiúrtökum."
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 17:19
Takk fyrir ábendingu um Bylgjuna, Hrafn. Fróðlegt hjá Þorláki (þótt hann gleymdi að nefna svarhlutfall, vikmörk, kynjaskiptingu, menntun eða búsetu). Hann talaði meðal annars um flökt á pólitískri afstöðu, sem þarf að hafa í huga, eins stór og fjársterk og áróðursmaskína ESB er hérlendis.
Sigurður (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 18:40
Sæll Sigurður, ef þú lest löngu greinina þá kemur allt fram þar. Áreiðanleg könnun sýnir afstöðu fólks á ákveðnum tíma. Skoðanir breytast og þess vegna þarf að gera kannanir með reglulegu millibili, sbr. fylgiskannanir stjórnmálaflokkanna.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 19:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.