Breiðavík, ofbeldisfrásagnir og fjölmiðlar

Hversu mörg viðtöl við grátandi fullorðna karlmenn þarf maður að sjá til að sannfærast um að vistheimilið Breiðavík var vettvangur níðingsverka? Eykur það skilning á ástandinu að kynferðislegir tilburðir voru hafðir í frammi við húsdýr staðarins? Er frétt að einhver hafi sloppið að mestu óskaddaður á líkama og sál frá Breiðavík?

Skammturinn af ofbeldis- og nauðgunarsögum í Breiðavík í fjölmiðlum undanfarna daga er ríflegur. Má biðja fjölmiðla um að grafast fyrir um skýringar á ástandinu og hvers vegna það var látið viðgangast jafn lengi og raun var á? Fleiri frásagnir um misþyrmingar bæta ekki skilning okkar á tilveru drengja á vistheimilinu.

Breiðavík er á ábyrgð samfélagsins og góðu heilli hafa yfirvöld ákveðið að gera úttekt á málinu. Fjölmiðlar gerðu vel í því að halda yfirvöldum við efnið og flytja fréttir af undirbúningi úttektarinnar og framvindu.

Það versta sem fjölmiðlar gerðu væri að fara i samkeppni um hver byði upp á hryllilegustu frásögnina. Slík samkeppni gjaldfellir blæbrigði mennskunnar mitt í allri ómennskunni og það væri illa gert gagnvart drengjunum í Breiðavík, lífs og liðnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: áslaug

Bíddu nú hægur! Ertu að kvarta undan því að þurfa að lesa þessar ömurlegu lýsingar af því sem átti sér stað þarna fyrir vestan? Vera má að fjölmiðlar keppi um þessar frásagnir en það er nú einu sinni þeirra eðli og við verðum að umbera það. Það má bara ekki láta fjölmiðlum það eftir að gera upp mál á borð við Breiðavík, Byrgið og Heyrnleysingjaskólann. Ef ekki væru fjölmiðlar, eða öllu heldur "bloggið", þá væri nú erfitt fyrir almenning að taka þátt í þessu nauðsynlega uppgjöri. Eigirðu bágt með að lesa það sem skrifað er um Breiðavík væri ráð að hlusta bara á útvarpið og lesa það sem birtist í blöðum og sjónvarpi.

áslaug, 7.2.2007 kl. 00:58

2 identicon

Ertu enn við sama heygarðshornið? Ertu húmanisti og jafnaðarmaður? 

Má biðja fjölmiðla um að grafast fyrir um skýringar á ástandinu og hvers vegna það var látið viðgangast jafn lengi og raun var á?

Hvaða ástandi? Er eitthvað sérstakt afmarkað ástand varðandi Breiðavík sem er fullljóst? Býrð þú yfir þeirri vitneskju? Það er náttúrulega augljóst að öll kurl eru langt því frá komin til  grafar í þessu máli.

En þú ert líklega kominn með uppí kok af öllum þessum skít. Vilt bara að þetta snúist um pólítík og að menn verði dregnir til ábyrgðar fyrir að: það var látið viðgangast jafn lengi og raun var á.

Aftur spyr maður bara:  Það hvað?

Til að hreinsa skít, þarf maður að vita hvar hann er.... 

Enn og aftur sami formalisminn og skortur á samúð .... 

Jóhann Sigurfinnur Bogason (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:24

3 identicon

Hvað er að því að sjá fullorðinn karlmann gráta? Hvers vegna ætti ekki að sjást svo ekki verði um villst hverjar afleiðingar uppeldismeðferðin hafði? Á bara að búa til lista með nöfnum þeirra sem enn lifa og láta þá fá pening og segja: Jafnaðu þig nú á þessu, góði minn. Það þarf að hreinsa út og sú hreingerning þarf að vera samvinnuverkefni samfélagsins. Og ég verð að biðja þig að ígrunda betur yfirlýsingar þínar í máli Breiðavíkur; til þessa hafa þær ekki beinlínis bætt neinu af viti í umræðuna.

Bárður R. Jónsson 

Bárður R. Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 01:31

4 identicon

Sammála þetta fer að verða nóg, hef alltaf áhyggjur af þessari fínu línu á milli þess að upplýsa fólk og velta sér upp úr sársauka annarra.  

Þó er afar áhugavert að heyra frásagnir sem hafa annan vinkil eins og t.d. frá móður mannsins sem fyrirfór sér.  Því óneitanlega fær maður það á tilfinninguna að ástæðan fyrir því að þetta viðgekkst svo lengi hafi verið sú að þessir drengir áttu sér ekki málsvara, fjölskyldur þeirra hafi verið "minnimáttar".  Tíðarandinn hafi á einhvern hátt leyft það að vellíðan þeirra og heilbrigði hafi ekki verið sérlega ofarlega á listum ábyrgðar- og ráðamanna. 

Vissulega þarf þó að opna þetta mál og skoða söguna - samfélagið skuldar þessum drengjum það að gangast við þessu.

Óskráður (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 16:19

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Því miður þá tilheyrir hryllingurinn mennskunni og með því að sýna afleiðingar hryllingsins í sjónvarpi verðum við vonandi betur á verði gagnvart honum.

Svava frá Strandbergi , 7.2.2007 kl. 16:49

6 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Allir vissu um hryllinginn en....Enginn þorði að segja neitt... Fjölmiðlar hafa skyldur í að upplýsa hverskonar sakamál sem stjórnvöld reyna að þagga niður.

Sendi slóðina, http://mal214.googlepages.com

Guðrún Magnea Helgadóttir, 7.2.2007 kl. 18:15

7 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Sammála, þessar hryllingssögur mega ekki snúast upp í andhverfu sína og verði framhalds "spennumynd með hryllingsívafi." "eða kosningaslagur" um hver er bestur?!!!

Las inn á netinu nýustu "siðfræðina" í ljósmyndun. Viðkomandi ljósmyndari tók mynd af bílslysi bara til mynda slysið áður en hann gringdi á sjúkrabíl.  "Góð fréttamynd"

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 7.2.2007 kl. 21:52

8 identicon

Algjört grundvallaratriði í fréttaflutningi af Breiðavíkurheimilinu er að yfir hundrað drengir voru vistaðir þar á vegum barnaverndarnefndar í Reykjavík. Yfir hundrað drengir. Og þú kvartar yfir því að þrjár eða fjórar hryllingssögur séu sagðar í fjölmiðlum. Telur þetta kapphlaup um krassandi tragedíur.

Persónulega vona ég að þú þurfir að engjast yfir fjölmörgum í viðbót, því ég tel þessi orð þín vanvirðingu við þá sem þurftu að þola misþyrmingarnar. Pyntingarsögurnar eru svo margar vegna þess að þolendurnir eru svo ótrúlega margir.

Þetta mál verður ekki afgreitt með einni dæmisögu og stuttu svari frá pólitíkusum. Þetta er svo MIKLU stærra mál en svo að það sé hægt að afgreiða með einni frásögn.

Markmið fjölmiðla hefur verið að draga upp sem skýrasta mynd af því ástandi sem ríkti á Breiðavík og til þess þarf meira en einn mann. Að þessu sinni er ekki viðeigandi að tala um tilfinningaklám þegar fullorðnir karlmenn sjást gráta í viðtölum. Öðruvísi hefur engum tekist að ræða um þessa atburði. 

Þú getur ekki með nokkru móti sagt að nú sé kvótinn veiddur. 

Þóra Tómasdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 23:40

9 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Ég hef ekki notað orðið tilfinningaklám í þessu samhengi, held reyndar að ég hafi aldrei notað orðið. Ég er að reyna að segja að þegar maður heyrir meira og minna sömu hryllingsöguna aftur og aftur og fær lítið af samhengi og baksviði sögunnar þá missir sagan marks nema sem hryllingur. Væntanlega eru flestir þeirrar skoðunar að æskilegt sé að upplýsa í breidd og dýpt hvað gerðist í Breiðavík. Takist það má væntanlega draga lærdóm af. Það sem er í húfi er æra og mannorð fjölmargra einstaklinga, hér á ég bæði við drengina sem voru í vist og starfsfólk allt. Eftir að það er upplýst að níðingsverk voru framin á drengjum þarf að taka umræðuna á næsta stig og spyrja hvernig þetta gat gerst og hvers vegna það var látið viðgangast. Hverjir brugðust skyldu sinni og hvers vegna? Ég er ekki að mælast til þess að frásögnum einstaklinga um misþyrmingar og ofbeldi sé sópað undir teppið heldur vara við því að gera Breiðavíkurmálið að uppboðshaldi á hryllingssögum.

Páll Vilhjálmsson, 8.2.2007 kl. 00:19

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Eina ástæðan fyrir því að nú á að fara að gera upp þessa fortíð er sú að fleiri en einn og fleiri en tveir sögðu sögurnar. ÞAРsannfærir menn um að taka verður þetta alvarlega. Ef bara hefði komið ein eða tvær sögur hefði ekkert gerst. Fjöldi frásagnanna veldur því einmitt að sögurnar missa EKKI marks. Annars hefðu þær bara verið "afgreiddar." Er ekki hægt að skilja þetta!

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.2.2007 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband