Samfylkingarfélagi: nóg komið af ESB-aðdáun Jóhönnu Sig.

Vita skal formaður minn, háttvirtur forsætisráðherra, það, að Steingrímur Jóhann er ekki einn um að kljást við óróleika í sínum flokki út af ESB-aðildarferlinu. Það er nóg til af fólki í Samfylkingunni, sem eru andstæðingar þess, og er farið að ofbjóða áróðurinn og aðdáunin á ESB, þar á meðal ég, sem segi þvert nei við ESB-aðild, bæði vegna sjávarútvegsins og fiskveiðanna og alls annars. Við höfum einfaldlega ekki efni á þessu á þeim tímum, sem nú eru uppi á Íslandi, og höfum annað þarfara við peningana að gera en fleygja þeim í peningahítina ESB. Mál er að linni.

Á þessa leið mælist Guðbjörgu Snót Jónsdóttur í grein sem birtist á heimasíðu Heimssýnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er ánægjulegt til þess að vita, að til skuli vera fólk innan Samfylkingarinnar sem hugsar sjálfstætt.

Lengi vel hélt ég að þetta væri alltsaman viljalaus hjarðdýr, en það er augljóslega rangt hjá mér.

Kannski á þá Samfylkingin von um að verða alvöru flokkur einhvern tímann.

Jón Ríkharðsson, 29.5.2011 kl. 12:45

2 identicon

Í Samfylkinginunni líkt og öðrum flokkum er fólk með mismunandi skoðanir á mönnum og málefnum, þótt fari kannske ekki mikið fyrir þeim, sem hafa andstæðar skoðanir við flokkinn. Hins vegar er sannleikurinn sá varðandi ESB-málin, að þau kljúfa alla stjórnmálaflokka í tvennt, líka Samfylkinguna, þótt þar inni tali þeir hæst, sem fylgja forustunni að málum í þeim efnum, og fari minna fyrir hinum. Ég hef alltaf verið eindreginn andstæðingur ESB-aðildar, allt frá því minnst  var á það fyrst að fara þar inn, enda hefur mér alltaf fundist hagsmunum Íslendinga vera best borgið utan ESB, a.m.k. hvað sjávarútveginn og fiskimiðin varðar. Við eigum ekki að gefa það frá okkur, sem hefur haldið lífinu í þjóðinni frá aldaröðli og allur efnahagur Íslands hefur byggst á allt frá upphafi. Á þeim tímum, sem við lifum núna, þurfum við á fiskveiðum og sjávarútveg að halda til að styrkja þjóðarbúið, hvað sem hver segir um það, og eigum ekki að fleygja því frá okkur í sameignarbúskap ESB. Þess vegna er ég ósátt við stefnu míns flokks í ESB-málunum, og hugsa þar líkt og faðir minn, fyrsti formaður Sjómannasambands Íslands og miðstjórnarmaður í Alþýðuflokknum sáluga, sem lét aldrei flokkshagsmuni ráða, ef ráðist var að hagsmunum þeirra, sem hann stóð í forsvari fyrir, og ól mig upp í að verða aldrei flokksþý, heldur fylgja minni eigin sannfæringu og berjast fyrir henni, hvað sem það kostaði. Það hef ég ævinlega gert, og vil líka verja hagsmuni sjómanna, fiskveiðanna og sjávarútvegsins, hvað sem það kostar. Fólk á líka að þora að segja sína skoðun umbúðarlaust, hvað sem hver segir, og hver sem stefna flokks þess er. Svo einfalt er það mál.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband