Fjögur ár í lífi Samfylkingar

Fyrir fjórum árum, í febrúar 2003, mældist Samfylkingin með 38 prósent fylgi og var enginn flokkur með meira fylgi. Í tæpt ár hafði flokkurinn klifrað upp úr 21 prósent og endaði í kosningunum með 31 prósent greiddra atkvæða. Núna mælist flokkurinn með 22 prósent fylgi og hefur frá í maí í fyrra sigið niður úr 30 prósentum.

Forysta Samfylkingarinnar þarf að spyrja sig hvað hún gerði rétt í aðdraganda þingkosninganna fyrir fjórum árum og hvað hún hefur gert rangt síðustu misserin. En kannski þarf að leita lengra aftur til að skýra núverandi stöðu.

Samfylkingin var stofnuð til höfuðs Sjálfstæðisflokki Davíðs Oddssonar og þegar hann hvarf úr brúnni var eins og Samfylkingin hefði misst andstæðing til að fylkja sér gegn. Sögulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengt sambærilegu hlutverki og jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum lengst af á síðustu öld, verið hryggstykkið í stjórnmálakerfinu og byggt upp velferðarþjóðfélagið.

Frjálshyggjan sem gróf um sig í Sjálfstæðisflokknum á síðasta fimmtungi aldarinnar var, með réttu eða röngu, skrifuð á reikning Davíðs. Eftir stendur fremur huggulegur borgaralegur flokkur með rétt einstaklingsins til orða og athafna í öndvegi en jafnframt hlynntur félagslegu réttlæti.

Á tímabili reyndi Samfylkingin að gera sig að sjálfstæðisflokki vinstrimanna. Það tókst ekki, og gat ekki lukkast, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn býr að langri sögu málamiðlana helstu hagsmunaafla íslensks samfélags. Flokkurinn er vettvangur málamiðlana sem stór hluti þjóðarinnar treystir í ljósi reynslunnar. Samfylkingin gat ekki steypt saman sögu þeirra þriggja stjórnmálaafla sem lögðu saman í púkkið fyrir sjö árum, til þess var saga hvers og eins of sérstök.

Það er kenning í stjórnmálum sem segir að árangur í kosningum ráðist ekki af kosningabaráttunni heldur af starfinu á kjörtímabilinu. Meinið hjá Samfylkingunni er að hún hefur aldrei starfað sem stjórnmálaflokkur, aldrei farið í umræðuna hvernig flokkur hún eigi að vera og aldrei fundið sér málefnagrunn. Í dag er Samfylkingin Evrópuflokkur, á morgun skattalækkunarflokkur og í næstu viku flokkur velferðarkerfisins. Það vantar samfellu og það skortir samræmi. Almenningur fær á tilfinninguna að flokkurinn segi það sem þykir henta hverju sinni. Það vekur ekki traust.

Samfylkingin er kosningabandalag um völd. Og ef ekki er einum höfðuandstæðingi til að dreifa, samanber Davíð Oddsson fyrir síðustu kosningar, er fátt til bjargar. Stjórnmálaflokkur fær ekki kjörfylgi út á valdafíkn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skynsamlegar skýringar Páll.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 10:14

2 Smámynd: Snorri Bergz

Amm, meikar sens. "Stjórnmálaflokkur fær ekki kjörfylgi út á valdafíkn" er sennilega hnitmiðuð greining á vanda Samfó.

Snorri Bergz, 6.2.2007 kl. 11:06

3 Smámynd: Ólafur Als

Páll, hér er vel komist ad ordi. Ad vísu tel ég ad flokkur geti fengid töluvert fylgi út á andúd á Sjálfstædisflokknum. Öfundin er öflugt fyrirbæri og jafnadarmenn á Íslandi hafa horft tárvotum augum til Skandinavíu í langan tíma. Pirringurinn á gódu gengi Sjálfstædisflokksins hefur valdid óþægindum og heilabrotum sem taka á sig stundum furdulegar myndir. Ein er sú, ad kratar hegda sér jafnan eins og þeir hafi aldrei komid nálægt valdi. Ekki ósvipad og gledikonan sem hélt ad ef hún hætti atvinnu sinni myndi hún eftir tiltekinn tíma breytast í hreina mey. Getur ekki verid ad jafnvel jafnadarmenn þreytast á ad lofa sjálfan sig?

- kvedja úr Danaveldi

Ólafur Als, 6.2.2007 kl. 11:46

4 identicon

samfylkinguna vantar stefnu eda ad hun tharf ad auglysa stefnu sina MUN betur. Vonandi skyrist thad a naestu manudum, ekki var nu mikid um stefnu i profkjorum samfylkingarinnar nema svona almennt hjal um ad gera allt betra ;)

petur (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 14:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband