Laugardagur, 23. apríl 2011
Evran, fjárhættuspil og fjárkúgun
Sendinefnd frá Brussel lendir í Aþenu 9. maí eða jafnvel strax 5. maí til að keyra heim þann boðskap að einhliða ,,endurskipulagning" skulda Grikkja kemur ekki til greina. Síðustu daga eru fréttir um að gríska ríkisstjórnin íhugi að framlengja einhliða lánum og ef til vill lækka höfuðstól þeirra um 30 prósent.
Grikkir eru tíu milljónir í 500 milljóna Evrópusambandi. Ekkert sem Grikkland gerði eða gerði ekki ætti að hafa áhrif á Evrópusambandið - stærð sambandsins og smæð Grikklands ætti að halda í skefjum grísku smiti, hvort heldur pólitísku eða efnahagslegu.
En vegna þess að myntin sem Grikkland notar, evran, er sameiginleg mynt 17 af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins skiptir höfuðmáli fyrir allt sambandið hvað verður um ósjálfbærar skuldir ríkissjóðs Grikklands.
Markaðir veðja á ,,endurskipulagningu" skulda Grikklands, en það þýðir í reynd gjaldþrot. Gangi það fram er meira en hugsanlegt að Írland, Portúgal og Spánn fylgi í kjölfarið og ,,endurskipuleggi" sínar skuldir. Afleiðingin yrði stórfellt gjaldþrot banka í Þýskalandi og Frakklandi.
Grikkir geta kúgað Frakka og Þjóðverja með hótun um gjaldþrot. Markaðir veðja á grískt gjaldþrot.
Evran, sem er pólitískt verkefni Frakka og Þjóðverja, getur ekki endað nema á einn veg.
Illa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.