Fimmtudagur, 7. apríl 2011
Nei er ábyrg afstaða gegn óábyrgum bönkum
Nei við Icesave er nei við bankastarfsemi sem einkavæðir gróða en lætur almenning bera tapið. Vegna mikilvægs hlutverks í samfélaginu hafa bankar tekið ríkisstjórnir í gíslingu. Íslensku bankamennirnir reyndu síðustu dagana fyrir hrun að beygja ríkisvaldið undir sig en höfðu ekki árangur sem erfiði.
Í Bretlandi og Hollandi voru ríkisstjórnir þvingaðar af þarlendum fjármálastofnunum að bæta innistæðueigendum Icesave-reikninganna tjón af gjaldþroti Landsbankans. Án samráðs við íslensk stjórnvöld var breskt og hollenskt almannafé notað til að kaupa tiltrú á bankastarfsemi sem ekki er traustsins verð.
Nei við Icesave er framlag Íslands til endurreisnar á heilbrigðri fjármálastarfsemi.
Skuld sem ekki er hægt að borga verður aldrei borguð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
> Án samráðs við íslensk stjórnvöld
Þetta er nú einfaldlega lygi.
Matthías Ásgeirsson, 7.4.2011 kl. 08:27
Páll, þú mátt ekki gleyma því að það hvíldi líka greiðsluskylda á tryggingasjóðunum í Bretlandi (FSCS) og Hollandi (DNB). Landsbankinn var með viðbótartryggingu hjá FSCS umfram 16.200 GBP upp í 35.000 GBP ef ekki 50.000 (fer eftir því hvenær talið er að Landsbankinn hafi fallið). Í Hollandi var bankinn með viðbótartryggingu hjá DNB umfram 20.887 EUR upp í 40, 50 eða 100 þúsund allt eftir því hvernig reglurnar hjá þeim virka. FSCS og DNB bar því samkvæmt tilskipun ESB að bæta innstæðueigendum tjón sitt. Þetta má lesa í Letter of formal notice sem ESA sendi íslenskum stjórnvöldum í fyrra vor. Einnig má fletta þessu upp á vef FSCS og í ársskýrlu DNB (hollenski seðlabankinn).
Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 09:34
Eigið þið Matthías og Marinó við að þið séuð ósammála fyrirsögn síðueiganda?
Og Marinó. Þýðir þetta ekki í raun að LB hafi verið trygður fyrir greiðslufalli og þessum sjóðum því verið skylt að greiða innistæður?
Ef svo er um hvað er þá verið að rukka okkur með Icesave samningnum?
Viðar Friðgeirsson, 7.4.2011 kl. 10:23
Viðar, ég er sammála Páli. LB var tryggður fyrir hluta innstæðnanna í bæði Bretlandi og Hollandi. Þetta er svo kölluð uppbót. Um þetta segir í tilskipuninni:
Og í 4. gr. segir:
Þar sem tryggingin í Bretlandi og Hollandi var hærri en hér á landi fékk LB uppbótaraðgang að tryggingasjóðum þessara landa. Það þýðir að lágmarkstryggingin (upp að 20.887 EUR og 16.200 GBP) er borin af íslenska tryggingasjóðnum, en uppbótin (sjá upphæðir að ofan) er borin af erlendu sjóðunum. Það sem er umfram uppbótina er ótryggt.
Vandinn við umframhlutann er þó, að allar innstæður voru gerðar að forgangskröfum, hvort sem þær voru hér á landi eða annars staðar. Innlendir aðilar höfðu órofinn aðgang að sínum innstæðum meðan erlendir höfðu það ekki og sumir hafa ekki fengið fullan aðgang ennþá. Í því felst mismunun sem ríkið verður líklegast gert ábyrgt fyrir. Þetta atriði er bara fyrir utan Icesave-samninginn og kemur því atkvæðagreiðslunni ekkert við. Ég er tilbúinn að viðurkenna þessa ábyrgð og að TIF eigi að greiða lágmarkstrygginguna með peningum sem innheimtast frá LB. Aðra ríkisábyrgð get ég ekki samþykkt.
Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.