Mánudagur, 5. febrúar 2007
Steingrímur J. ekki forsætisráðherraefni?
Samfylkinguna skortir ekki drambið þótt fylgið sé lítið samanber sunnudagspistil stjórnmálafræðings sem handgenginn er forystu Samfylkingarinnar. Þar er kveðið upp úr með það að Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna gæti aldrei orðið forsætisráðherra óháð fylgi sem hann fengi í kosningum.
Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur og fyrrum aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar í umhverfisráðuneytinu skrifar grein í sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins til að setja raunsæi í íslenska stjórnmálaumræðu, að eigin sögn. Þar segir Birgir:
Í fyrsta lagi verður Steingrímur J. Sigfússon aldrei forsætisráðherra. Engum kollega hans á Norðurlöndum dytti í hug að verða forsætisráðherra og slíkt dytti heldur engum öðrum í hug.
Makalaust er að í grein um íslenska stjórnmálaumræðu skuli helstu rökin um meginstef greinarinnar vera hvað stjórnmálamenn á Norðurlöndum gera eða gera ekki. Stjórnmálafræðingnum til upprifjunar er rétt að halda til haga að jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum eru hundrað ára gamlir en Samfylkingin verður sjö ára í vor.
Forveri Samfylkingarinnar, Alþýðuflokkurinn, var öll lýðveldisárin minnsti og spilltasti stjórnmálaflokkurinn í íslenska fjórflokkakerfinu. Á sama tímabili voru jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndum ráðandi afl hver í sínu landi. Hér á Íslandi stundaði Alþýðuflokkurinn hækjulifnað í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Hvort sem Birgi og Samfylkingunni líkar betur eða verr er engin niðurstaða komin í samkeppni Vinstri grænna og Samfylkingar um hvort stjórnmálaaflið sé í forystu á vinstri væng stjórnmálanna. Líkt og Alþýðubandalagið og forverar þess voru stærri en Alþýðuflokkurinn bróðurpartinn af síðustu öld er allt eins líklegt að Vinstri grænir muni hafa vinninginn á nýhafinni öld.
Það sem ber á milli er að Vinstri grænir hafa málefnastefnu en Samfylkingin hefur valdadrauma. Það er innihald í Vinstri grænum en tækifæriskennt tómahljóð í Samfylkingunni.
Fái Vinstri grænir meira kjörfylgi en Samfylkingin í vor er einboðið að umboð til stjórnarmyndunar fari til Steingríms J. áður en það fer til Ingibjargar Sólrúnar, verði hún enn formaður Samfylkingarinnar.
Í niðurlagi greinar Birgirs er að finna pælingar um að forsetinn kynni að setja á utanþingsstjórn ef Samfylkingin nær ekki tilætluðum árangri. Í ljósi vinfengis forystu Samfylkingarinnar við Ólaf Ragnar Grímsson forseta er eðlilegt að velta fyrir sér hvort til sé áætlun um að breyta lýðræðislegri niðurstöðu kosninga.
Ólafi Ragnari munaði ekki um að hnekkja þingræðinu þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin. Hvers vegna skyldi hann víla fyrir sér að ómerkja svona eins og einar þingkosningar?
Athugasemdir
Undarlegt að lesa seinustu tvær málsgreinarnar í pistli þínum og hugsa: Já, þetta gæti raunverulega gerst ... en ef til vill hefur umræðan eitthvert forvarnargildi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.2.2007 kl. 00:42
Ólafur Ragnar er að hætta og mikil hætta á heimskupörum þegar hann er annars vegar.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.2.2007 kl. 00:49
Það dettur engum í hug að gera kommúnista að forsætisráðherra árið 2007.
Ólafur Páll (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 09:09
Hvar á þá að koma Steingrími fyrir? Vinstri-Grænn í utanríkis- eða fjármálaráðuneyti þýðir að við getum eins lokað búllunni og við getum verið vissir um að ef Ingibjörg tekur forsætisráðherraembættið þarf Steingrímur annað hvort hinna.
Ég á afskaplega bágt með að sjá nokkurn flokk mynda ríkisstjórn með Vinstri Grænum, ekki vegna málefna, heldur vegna þessa að ég efast um að fólk treysti þingmönnum flokksins fyrir æðstu ráðherraembættum. Reyndar má það sama segja um Frjálslynda flokkinn.
Björn Berg Gunnarsson, 5.2.2007 kl. 09:47
Af hverju í ósköpunum ætti Steingrímur J. ekki að geta orðið forsætisráðherra ef flokkurinn hlýtur nægilegt fylgi til þess?
Ég er ekki að segja að það sé neitt sérstök draumsýn mín að fólk sem gerir ekki annað en að ata minn flokk auri og skít taki við stjórnartaumunum í forsætisráðuneytinu. En niðurstaða lýðræðislegra kosninga á að ráða (hmmmm...fékk smá deja vu hér ) þótt maður sé ekki sáttur við niðurstöðuna. Ég get því miður ekki séð að Ingibjörg Sólrún hafi sýnt neitt á undanförnu sem segi til um að hún verði betri forsætisráðherra en Steingrímur J. og ef litið er til fyrri starfsreynslu þá er hann allavega jafn hæfur en hún til að verða forsætisráðherra. Hefur verið lengur í landspólitíkinni og stjórnað ráðuneyti.
En svo má minna þau og fylgismenn þeirra á að þau hafa ekki enn unnið kosningarnar og ekki enn fengið neitt umboð frá forsetanum til stjórnarmyndunar.
Eygló Þóra Harðardóttir, 5.2.2007 kl. 15:04
Athyglisvert hvernig menn snúa hlutunum á hvolf. "Ólafi Ragnari munaði ekki um að hnekkja á þingræðinu ..." Trúir þú þessari dellu sjálfur?
Bjarni
Bjarni Gautason (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 18:56
Athygliverd athugasemd frá Bjarna Gautasyni (gamli félagi minn ad nordan?). Vitanlega geta menn séd málin þeim augum ad forsetinn hafi verid ad "hnekkja á þingrædinu" i ljósi þess ad meirihluti þingmanna stód ad baki hinni umdeildu löggjöf. Hins vegar hafdi hann stjórnarskrárvarinn rétt til þess ad hafa eitthvad um málid ad segja: ad taka fram fyrir hendur meirihluta þingmanna. Hann var sem sagt ad véfengja réttmæti ákvördunar þeirra.
Ég hef ávallt litid svo á ad þingmenn eigi ad skipta sér sem minnst af almenningi og framkvæmdagledi þeirra, jafnvel þegar audhringar eiga í hlut, en jafnframt óttast ekki ad vernda meiri hagsmuni fyrir minni. Til þess ad vernda rétt okkar og frelsi felum vid þingi löggjafarvald og væntum þess ad þeir fari varlega med þá ábyrgd. Ad sama skapi gerum vid kröfu um málefnalega og gagnryna umrædu, m.a. frá stjórnarandstödu og ekki síst hinu fjórda valdi: fjölmidlum.
Á sínum tíma beittum vid okkur fyrir því ad aflétta einokun ríkisins á rekstri útvarps og sjónvarps (í óþökk margra vinstri manna nóta bene). Ad setja skordur vid eignarhald fjölmidla er mér ekki ad skapi en e.t.v. ill naudsyn, sbr. ad vernda meiri hagsmuni fyrir minni. En þad er vitanlega túlkunaratridi hvers og eins. Forsetinn lét m.a. undan þrystingi fjölmidla, þ.e. þeirra sem löggjöfin vardadi. Hnekkti hann á þingrædinu med því ad láta ekki ad vilja þingheims? Vissulega gerdi hann þad en gerdi hann þad med réttu? Stjórnarandstödunni fannst þad og reyndi í þessu máli ad slá sig til riddara og nefndi sig sem verndara frjálsrar fjölmidlunar í þeim fjölmidlasirkus sem einkenndi málid allt. Heilagleikinn nádi lengra en minni þeirra sem höfdu m.a. efast um ad aflétta einokun RUV.
Ég fæ nú ekki séd ad Páll hafi snúid hlutunum á hvolf, eda telur Bjarni ad forsetinn hafi verid ad vernda þingrædid? Getum vid ekki bara sameinast um ad leggja forsetaembættid af og sameinast af hispursleysi um þau gildi sem einkenna sögu okkur og tilveru - og losnad vid þad hvort þessi þjódkjörni embættismadur hafi nú verndad þingrædid eda hvekkt á því.
Ólafur Als, 5.2.2007 kl. 21:01
Halló. Hef ekki lesið grein Birgirs, en það getur allt gerst í stjórnmálum, tel það alveg eins líklegt að SJS geti orðið forsætisráðherra, rétt eins og það er ekki útilokað að Mona Sahlin geti orðið næsti forsætisráðherra Svía, en hún verður kosin formaður sænska jafnaðarmannaflokksins (99.9% öruggt!) eftir nokkrar vikur. Fyrir nokkrum árum var MS á pólitiksum botni ferilsins vegna hneykslismála, en er nú komin þar sem hún er í dag.
Kv, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, Uppsölum, Svíþjóð.
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:21
Ólafur Páll segir: "Það dettur engum í hug að gera kommúnista að forsætisráðherra árið 2007."
Tja, fólki datt í hug að kjósa fyrrv. formann Alþýðubandalagsins forseta árið 1996. Svo hvers vegna gæti því ekki dottið í hug að kjósa formann VG forsætisráðherra?
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.2.2007 kl. 13:32
Þ.e. veita VG nægan stuðning til að formaður flokksins fái umboð til stjórnarmyndunarviðræðna sem aftur geti leitt til þess að hann verði forsætisráðherra svo þetta sé nú allt rétt.
Vona þó auðvitað að þetta verði ekki raunin ;)
Hjörtur J. Guðmundsson, 6.2.2007 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.