Landfyllingardraumur gæti breyst í martröð

Borgaryfirvöld taka vel í hugmyndir Þyrpingar að byggja fimm þúsund manna íbúðahverfi á landfyllingu út frá Ánanaustum og yfir í Örfirisey. Viðvaranir vísindamanna ættu að fá menn til að  hugsa sig tvisvar um.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í fréttum Útvarpsins að vegna landsigs og hækkandi sjávarstöðu væri landfylling undir íbúðarbyggð varasöm. Haft er eftir Birni Inga Hrafnssyni borgarfulltrúa og formanni stjórnar Faxaflóahafna að hann hafi ekki áhyggjur þótt land sigi og sjávarstaða hækki.

Áhyggjuleysi borgarfulltrúans gæti orðið væntanlegum íbúðareigandum á landfyllingunni dýrkeypt.

Af fréttum að dæma hefur fasteignafélagið Þyrping óskað eftir heimild borgaryfirvalda fyrir undirbúningsvinnu að landfyllingu. Það verður freistandi fyrir borgaryfirvöld að semja við fasteignafélagið og láta það um rannsóknir og mat á hvernig staðið skuli að landfyllingunni.

Á hinn bóginn væri almannahagsmunum illa þjónað ef ekki geru gerðar ítrustu kröfur um sjálfstætt og hlutlaust mat á aðstæðum og hvað þurfi til að landfylling standist ágang náttúruaflanna. Slíkt mat getur ekki verið á forræði fasteignafélagsins.

Það er engin ástæða til að láta hagnaðarvon byggingaraðila og framkvæmdagleði borgarstjórnarmeirihlutans stefna öryggi og hagsmunum íbúum landfyllingarinnar í voða.

Reykvíkingar ættu að taka Seltirninga sér til fyrirmyndar og vísa landfyllingaráformum út í hafsauga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Satt segir þú. Og er það ekki dæmigerð einsýni stjórnmálamannanna þegar eitthvað stangast á við draumóra þeirra að segja að "engin ástæða" sé til að hafa áhyggjur af þessum landfyllingum þegar vísindamaðurinn var einmitt að tíunda veigamiklar ástæður fyrir áhyggjum sem ættu reyndar beinlínis að liggja öllum í augum uppi. En það eru víst peningarnir sem ráða en ekki heilbrigð skynsemi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.2.2007 kl. 22:18

2 identicon

Björn Ingi hefur auðvitað "enga ástæðu" til þess að óttast hækkandi sjávarstöðu, landssig, "Básendaflóð", og aðrar hamfarir á þessari fyrirhuguðu flæðiskerjabyggð sinni.

Afleiðingarnar munu nefnilega ekki koma fram fyrr en eftir mörg kjörtímabil (50-100 ár). Og eftir aðeins 1-2 kjörtímabil (4-8 ár) verður Björn Ingi búinn að koma ár sinni nógu vel fyrir borð til að kveðja pólitík. Og eftir að framsóknarmenn eru búnir að kveðja pólitíkina, bera þeir enga pólitíska ábyrgð, eins og nýleg dæmi sanna.

Marbendill (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband