Speki Ingveldar og SpKef

Peningar eru ávísun á verðmæti, er okkur kennt. Lexía sem við erum að læra eftir hrun er að peningar eyða verðmætum sem við getum illa verið án. Sparisjóður Keflavíkur var lengi í rauðu skeljasandshúsi við Suðurgötu, skáhallt á móti barnaskólanum með skrúðgarðinn á milli. Ingveldur kennari sagði stundum sögur af nemendum sem sóttu um lán hjá sparisjóðsstjóranum sem var líka kennari. Forsjárhyggjan var klædd föðurlegri umhyggju. Sparisjóðsstjórinn lánaði síður þeim sem hann þekkti sem hyskna stráka en prúðum stúlkum.

Ingveldur kenndi að maður fíflaðist ekki peninga. Lán sem maður tók þurfti að borga tilbaka með vöxtum. Skilvísi, ábyrgð og ráðdeild voru barnaskólanemum framandi orð en merkingin á bakvið orðin lærðist. Þeir lærðu af sögum Ingveldar að óvarkár umgengni við peninga var löstur.

Lærdómur Ingveldar lifði af verðbólguárin á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Sparisjóður Keflavíkur óx og dafnaði og lagði undir sig nágrannasveitarfélög. Um aldamótin var aftur komið nýtt hljóð í strokkinn. Févæðing allra verðmæta samfélagins fór eins og eldur í sinu og brenndi upp gamlar kerlingabækur um ábyrgð og ráðdeild. Sparisjóðurinn fékk nýtt nafn, SpKef, og nú skyldi sótt á fjarlæg mið. Skálkum, einkum í frændgarði og vinahópi yfirmanna sparisjóðsins, var lánað útá ónýt veð. Þegar fárinu lauk var SpKef gjaldþrota fjármálastofnun í gjaldþrota sveitarfélagi.

Speki Ingveldar fær endurnýjun lífdaga enda geymir hún sígild verðmæti. Sparisjóður Keflavíkur nýtur þeirra ekki enda orðinn að skúffu í útibúi Landsbankans í Reykjanesbæ.

 


mbl.is Innlán verði færð til NBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannski getur Landsbankinn fundið aftur gömlu skúffuna sem hann var í þegar sparisjóðurinn var í rauða húsinu - og komið SpKef þar haganlega fyrir!

Ég man vel þá hýsingu Landsbankans ... bara allt í lagi með það!

Vilhjálmur Grímsson (IP-tala skráð) 6.3.2011 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband